Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Side 77
A n d ó f s m a ð u r i n n J ó n l æ r ð i
TMM 2018 · 1 77
Viðar Hreinsson
Andófsmaðurinn Jón lærði
Með endurreisninni svokölluðu og húmanismanum á 16. og 17. öld tóku
menn að efast um boðvald að ofan og þau viðteknu sannindi sem vald í
samfélaginu hvíldi á. Með efanum kviknaði gagnrýni á ríkjandi skipan þess
og hugmyndir um nýja. Greinar á þeim meiði voru til að mynda Erasmus
frá Rotterdam, Thomas More, Rabelais, Macchiavelli og Lúther, þó að hans
framlag hafi kannski endað í breyttu valdakerfi og jafnvel dauða guðs en það
er önnur saga. Ótal þræðir hugmynda ófust saman í bland við tæknibyltingar
á borð við prentlist og náðu ákveðnu hámarki með upplýsingunni sem kallaði
á uppgjör við allt æðra vald. Hugmyndir um lýðræði mótuðust en voru þó
ekki fullkomnari en svo að í dag ríkja önnur valdakerfi sem ekki eru síður
harðsvíruð og mannfjandsamleg.
Andóf er víðtækt hugtak sem getur náð yfir allt frá því sem kallað var
villutrú fyrr á öldum til ýmissa aðgerða í dag, t.d. Occupy Wall Street og
aðgerða frumbyggja í Norður Dakota gegn olíuleiðslu. Þá má nefna vaxandi
og víðtækt andóf gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta sem víða birtist.
Háskólakennarar setja saman róttæk og gagnrýnin námskeið í andófsskyni,
borgarstjórar stórborga ganga gegn vilja Trumps í loftslagsmálum, Antifa
hreyfing andfasista er orðin meira áberandi en áður og vel má vera að hegðun
Trumps hafi ýtt undir metoo byltinguna.
Í þessari grein er miðað nokkurn veginn við merkingu ensku hugtakanna
dissent og dissident sem fyrst og fremst snúast um það að andæfa hvers konar
valdakerfum í orði eða verki hvort sem þau eru smá og stór, allt frá flokksaga
til alræðisvalds. Andóf ristir því dýpra en einföld andmæli eða mótmæli sem
geta hæglega farið fram innan viðurkenndra hugmynda eða stofnanaramma.
Valdakerfi byggjast á hugmyndafræði og andóf vegur að rótum þeirra. Það
var og jafnvel er æði oft kallað villutrú og andófsmenn hafa verið ofsóttir á
öllum tímum.
Andóf snýst því um meðvitaðan atbeina (sem á ensku er kallað agency)
einstaklinga eða hópa, gegn því sem valdakerfin ætlast til að sé viðurkennt.
Að miklu leyti er um að ræða vald yfir umræðu, skilgreiningarvald til að
ákvarða hvað gera megi, hvað telst gott eða illt. Á miðöldum ríkti einsleitur
mælikvarði guðstrúar á athafnir manna og naumast er hægt að segja að
vegið hafi verið að þeim grunni fyrr en með endurreisninni. Því var andóf