Tímarit Máls og menningar - 01.04.2019, Side 56
S o F F í a a U ð U r B i r g i S d ó t t i r
56
Þorsteinn sonur hennar, sem hefur viðurnefnið Rauður, kemur mikið við
sögu í þessu bindi; öðrum þræði er bókin þroskasaga hans. Á unglingsárum
kemst Þorsteinn af eigin frumkvæði til föður síns á svæði sem hann hefur
hernumið í Péttlandi og þangað heldur Auður að leita hans. Bókin endar á
endurfundum þeirra Ólafs hvíta, fyrrverandi eiginmanns hennar.
Blóðug jörð hefst á magnaðri lýsingu á orrustu víkinga í Dalriada, héraðs
ríki Skota, árið 874 en þar fellur herkonungurinn Ólafur hvíti. Í næsta hluta er
liðinn tæpur áratugur og Þorsteinn sonur Auðar er einnig fallinn. Sjálf er hún
á leið til Íslands ásamt sex börnum Þorsteins og fleira fólki í þeim tilgangi að
nema þar land líkt og bræður hennar og fleiri ættmenni hafa þegar gert. Þessi
hluti er stuttur og lesandinn skilur við Auði og fylgdarlið hennar í sjávar
háska undan suðurströnd Íslands. Þá vindur frásögninni aftur um fimm
vikur í tíma og stærsti hluti þessa lokabindis snýst um aðdragandann að því
að Auður lætur „gera knörr í skógi á laun“ og siglir í brott með miklu „fé
og föruneyti“. Sá hluti sögunnar er verulega spennandi, enda aðalpersónan
á flótta undan ófriði og þráir það eitt að koma sjálfri sér og afkomendum
sínum í skjól. Þá víkur sögu aftur að sjávarháska Auðar og föruneytis og því
lýst hvernig þau bjargast og lenda skipi sínu við ósa Ölfusár. Við sögu koma
nýjar persónur og ný átök en bókinni lýkur ári síðar í Hvammsfirði þar sem
Auður hefur numið land og framtíðin er björt.
En þótt söguþræðir bókanna þriggja séu þannig raktir er aðeins hálf sagan
sögð. Það sem einkennir bækurnar öðru fremur – og markar þeim um leið
sérstöðu – er að í þeim ríkir sterkt kvennasjónarmið; það er heimur kvenna
sem birtist lesendum þríleiksins ljóslifandi og sá heimur er sjaldnast fyrir
ferðarmikill í íslenskum miðaldaritum.
íslendingasögur frá sjónarhóli kvenna
Í viðtali sem tekið var við Vilborgu í tilefni af útkomu fyrstu bókarinnar lýsir
hún sögulegum bakgrunni skáldsögunnar og þeim ófriðartímum sem ríktu
á Írlandi, Skotlandi og Suðureyjum á 9. öld og norskir víkingar blönduðust
inn í; þetta voru tímar mikilla stríðsátaka karlanna. Síðan bætir hún við: „En
á meðan karlarnir slógust voru konurnar heima á eyjunum og sáu um allt
hitt. Um það fjallar bókin mín að miklu leyti.“16 Konur eru í aðalhlutverki
allra bókanna. Ekki aðeins Auður sjálf, heldur einnig konur tengdar henni
fjölskylduböndum, svo sem móðir hennar, amma og systur, en einnig konur
úr hópi hjúa og ambátta. Eftir þessu var að sjálfsögðu tekið og í ritdómi um
bókina lætur Sigrún Klara Hannesdóttir þau orð falla að lýsa mætti bókinni
sem Íslendingasögu sem skrifuð er „frá sjónarhóli kvenna“.17 Í ofannefndu
viðtali var Vilborg spurð hvort hún væri „að reyna að nálgast uppruna
íslensku konunnar“ og játaði hún því: