Skessuhorn - 20.12.2017, Blaðsíða 54
MIÐVIKUDAGUR 20. DESEMBER 201754
Þegar blaðamaður hafði samband
við Jósefínu Meulengracht Dietrich,
skáld og mannfræðing, fyrr í mán-
uðinum og falaðist eftir viðtali fyr-
ir Jólablað Skessuhorns tók hún vel
í það, enda hefur margt á daga henn-
ar drifið og frá mörgu að segja. Svo
mörgu raunar að Jósefína taldi eðli-
legast að jólablaðið fjallaði alfarið um
hana. „Ég er skáldið Jósefína,“ hvæsti
hún hneyksluð þegar blaðamaður
tjáði henni að svo yrði ekki.
Jósefína fæddist fyrst í Egypta-
landi hinu forna nálægt árinu 2560
fyrir Krists burð. Þetta veit hún fyr-
ir víst því hún minnist þess sem ung
læða að hafa leikið sér í Giza og
lapið mjólk úr lófa þrælanna sem
þá voru að leggja lokahönd á hinn
mikla Keopspýramída. Að sögn Jós-
efínu var pýramídinn fyrsta mann-
virkið sem reist var henni til heið-
urs, en síðar áttu Egyptarnir eftir að
reisa henni Sfinxinn, einnig í Giza.
Öllu síðar kveðst Jósefína hafa verið
dáð og dýrkuð í Katmandú, þar sem
nú er Nepal, en fullyrðir að borg-
in heiti í raun og veru Kattamandú.
Nafn borgarinnar, eins og við þekkj-
um það nú, sé síðari tíma afbökun og
skrumskæling.
Að öðrum kosti vill Jósefína lítið
gefa upp um uppvöxt sinn í Egypta-
landi og Kattamandú og beinir því til
lesenda að bíða rólegir eftir ævisögu
sinni, sem hún vinnur nú að. Hún er
að vísu orðin nokkuð löng, um 200
bindi, þar sem ævi kattar telur átta líf
og einu betur.
Jólahundurinn vondi
„Á öllu mínu æviskeiði hef ég þó
aldrei kynnst eins miklum dónaskap
og þegar ég var fönguð í Reykjavík
og flutt í Kattholt,“ segir Jósefína og
hvæsir. „Þar átti að sálga mér, sjálfri
Jósefínu, en skáldagáfan varð mér til
lífs. Ég er mest skálda og gat talað
tvífætlingana til,“ bætir hún við. Laus
úr prísundinni fluttist Jósefína bú-
ferlum upp á Akranes þar sem blaða-
maður hitti hana á heimili henn-
ar. Allar götur síðan hefur hún ver-
ið stórtæk í skáldskap svo eftir hefur
verið tekið. „Ég yrki af stakri snilld
um hugðarefni mín; veðrið og mýsn-
ar, mjólk og ost til dæmis,“ segir hún.
Jósefína sleikir loppu sína, reisir höf-
uðið og mjálmar jólaljóð fyrir blaða-
mann:
Jólakalkún, jólanaut,
jólamjólk í krúsina,
jólaostinn, jólagraut,
jólatréð og músina.
„Ljóð þetta orti ég af snilli um
kjarna jólanna, sem virðist mönnun-
um gersamlega hulinn,“ segir Jósef-
ína. Hún kveðst sjá jólin í réttu ljósi
ólíkt mönnunum, sem hún kallar oft-
ast bara tvífætlinga eða einfaldlega
„það“, enda á mannskepnan ekki
merkilegri titla skilið. „Ég er mann-
fræðingur og rannsóknir mínar hafa
allar leitt það í ljós að tvífætlingar eru
skör lægri öðrum dýrum að vitsmun-
um,“ segir Jósefína og færir rök fyr-
ir máli sínu. „Sem dæmi um heimsku
tvífætlinganna má nefna þá fásinnu
að halda því fram að jólakötturinn
sé köttur. Þeir hafa lapið upp eins
og volga mjólk úr skál þá þjóðfræði-
legu villu að jólakötturinn sé kött-
ur. Það sér hver kisa að jólakötturinn
getur ekki verið köttur. Kettir eru
góð dýr og því getur hann ekki ver-
ið köttur heldur er hann í raun hund-
ur. Hundar eru verst dýra og þar með
hlýtur jólakötturinn í raun réttri að
vera hundur. Að tvífætlingarnir hafi
gleypt við þessari rangfærslu sýnir
aðeins að það er ekki fært um gagn-
rýna hugsun né rökhugsun,“ seg-
ir hún.
Treyst fyrir örlögum
heimsins
Einn tvífætling, eða það, telur Jósef-
ína aftur á móti bera af meðal sinnar
tegundar og veltir því fyrir sér hvort
ef til vill hafi hann gengið í kattaskóla.
„Það er Bjarki Karlsson, mjálmfræð-
ingur og skáld. Hann hefur einn
manna ritað mjálmfræðiritgerð og
er það mesta öndvegisrit sem tvífæt-
lingur hefur ritað,“ segir Jósefína. Þá
kveðst hún einnig hafa nokkrar mæt-
ur á þjóðhöfðingjum á borð við Ólaf
Ragnar Grímsson, Hosni Mubarak,
Silvio Berlusconi og Vladimir Put-
in, enda hafa þeir verið „duglegastir
tvífættra fressa að merkja sér svæði,“
eins og hún orðar það. Um þetta at-
hæfi tvífætlinga þessa segir Jósefína:
Ótal merki á æðstu högna ítök minna
og lyktina má lengi finna.
Einn er þingmaður íslenskur sem
Jósefína kveðst hafa miklar mætur
á. Það er Sigmundur Davíð Gunn-
laugsson, af sömu ástæðum og greint
er frá hér að ofan.
Stundum fellir öldin illa dóma
eins og gengur,
en Sigmundur er vinur vors og blóma
og vænsti drengur.
Hún lýsti því raunar yfir fyrir þar-
síðustu alþingiskosningar, sem voru í
fyrra, að hún myndi glöð fara í stjórn-
arsamstarf með Sigmundi. Flokkur
Jósefínu, Minnsti flokkurinn, var þá í
framboði og skipaði Jósefína sjálf tvö
efstu sæti listans, annars vegar sem
skáld og hins vegar mannfræðingur.
Meðal áherslumála flokksins var lýð-
heilsuátak undir yfirskriftinni „mús
í öll mál“. Flokkurinn hefur einnig
boðið fram í bæjarstjórnarkosning-
um á Akranesi og einkum talað fyrir
því að mótuð verði skýr hundastefna
í bænum. Að slík stefna hafi ekki ver-
ið mótuð fyrir löngu segir Jósefína
enn einn vitnisburðinn um að þeir
sem arki uppréttir um jarðkúluna
séu vanvitar í einu og öllu. „Af þeim
sökum var mér til dæmis falin umsjá
með Higgs-bóseindinni svokölluðu
og þar með örlögum heimsins. Tví-
fætlingum er vitaskuld ekki hægt að
treysta fyrir henni,“ segir hún. „Ég
geymi hana því undir öspinni hérna
í garðinum og gæti þess að hún fjúki
ekki því þá ferst heimurinn,“ mjálm-
ar Jósefína.
„Ég er skáldið
Jósefína“
Jósefína Meulengracht Dietrich, skáld og mannfræðingur.
Skáldlæðan og mannfræðingurinn mjálmar stórfengleg ljóð fyrir blaðamann.
Jósefína gluggar hér í nýútkomna Gamanvísnabók, sem einmitt hefur að geyma
ljóð eftir hana sjálfa.
Hér er Jósefína við lestur á bók um Higgs-bóseindina, sem hún geymir undir
öspinni í garðinum heima hjá sér. Í miklu jólaskapi.