Ársrit um starfsendurhæfingu - 2015, Page 37

Ársrit um starfsendurhæfingu - 2015, Page 37
37www.virk.is VIÐTAL VelVIRK er mikilvægt úrræði Unnur B. Árnadóttir félags- og virkniráðgjafi VIRK á nú um stundir öflugt samstarf við Velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Unnur B. Árnadóttir er félags- og virkniráðgjafi hjá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða. „Við hittumst fyrst í apríl 2014, teymi frá velferðarsviði hér í Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og svo starfsfólk frá VIRK. Í teyminu eru frá okkur tveir félagsráðgjafar og frá VIRK koma læknir, sálfræðingur og ráðgjafar.“ Hvað rædduð þið í fyrstu? „Við lögðum upp með að þetta væri fyrir þá einstaklinga sem væru án bótaréttar en í atvinnuleit og væru að þiggja fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Þetta er í flestum tilvikum fólk sem hefur verið lengi utan vinnumarkaðar. Og eitthvað, sem erfitt er að skilgreina, kemur í veg fyrir að það komist í vinnu. Við hér á þjónustumiðstöðvunum tökum fyrst viðtal sem við köllum eigið mat á starfsgetu. Þar metur einstaklingurinn sjálfur eigin starfshæfni. Á grundvelli þessa eigin mats vísa virkniráðgjafar hér, sem um málin fjalla, þeim svo til teymisins, sem við köllum VelVIRK, þ.e. samstarf velferðarsviðs og VIRK.“ Hvaða skilyrði þarf fólk að uppfylla til að komast frá ykkur í samstarf við VIRK? „Ef niðurstaðan úr mati virkniráðgjafa er óskilgreindur vandi, er sem fyrr getur, hægt að vísa einstaklingnum áfram til umrædds teymis VelVIRK. Ef málið er tekið fyrir þar fer það í frumgreiningu hjá teyminu. Að því loknu er metið hvort viðkomandi fer áfram í samstarf við VIRK eða honum er vísað á atvinnuúrræði eða önnur viðeigandi úrræði.“ Hvað hafa margir farið frá ykkur til VIRK? „Tuttugu og einn einstaklingur hefur komið í frumgreiningu inni hjá teyminu. Þessi frumgreining getur innihaldið nokkur viðtöl, allt upp í fimm skipti. Níu einstaklingar hafa svo farið alla leið inn í samstarf við VIRK.“ Góð þjónusta hjá VIRK Hvernig hefur það gengið? „Mjög vel. Einstaklingarnir hafa fengið afskaplega góða þjónustu hjá VIRK og þar með talið aðgengi að úrræðum sem VIRK hefur upp á að bjóða en almennt býðst ekki þeim sem eru eingöngu hjá Velferðarsviði Reykjavíkur.“ Er einhver þessara einstaklinga kominn á vinnumarkað? „Enginn þeirra hefur útskrifast ennþá af því að þetta er svo nýtt samstarf. En sumir þeir einstaklingar sem fóru í frum- greiningu hafa í framhaldi af því farið út á vinnumarkaðinn með stuðningi Velferðarsviðs og einnig nokkrir út á hinn almenna vinnumarkað. Viðtölin hafa haft þau áhrif að fólk fær meira sjálfstraust og sér raunhæfari möguleika á starfi og lætur slag standa.“ Hvernig hefur því fólki farnast sem hefur fengið vinnu? „Vel, en auðvitað er þetta langur gangur. Viðkomandi einstaklingur er kannski búinn að vera árum saman utan vinnu eða annarrar virkni í samfélaginu. Það gefur auga leið að hann þarf að aðlaga sig verulega. Hann þarf að takast á við ýmsar áskoranir. Þess vegna er þetta samstarf svo mikilvægt. Sannarlega hefur samstarfið við VIRK í umræddri frumgreiningu skilað miklum árangri.“ Er þetta úrræði sem þið munuð beita í auknum mæli? „Já, við vonumst til að samstarfið við VIRK haldi áfram. Það er að gefa mjög góða raun og reynsla er að komast á það. Þess má geta að allar þjónustumiðstöðvar í Reykjavík, sem eru sex talsins, taka þátt í þessu samstarfi við VIRK og bjóða einstaklingum með óskilgreindan heilsubrest, en eru í atvinnuleit, að taka þátt. Þess má geta að fyrir utan þetta umrædda VelVIRK-verkefni hafa þjónustumiðstöðvar Reykjavíkur vísað einstaklingum með læknisvottorð til VIRK, en það er önnur saga.“ Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir

x

Ársrit um starfsendurhæfingu

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Ársrit um starfsendurhæfingu
https://timarit.is/publication/1412

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.