Skírnir - 01.04.2005, Page 22
20
JORGEN L. PIND
SKÍRNIR
bæri að barnafræðslu hér á landi. Bókin kom út 6. júní árið 1903,
á þrjátíu ára afmæli höfundarins. I styrkveitingu Alþingis voru
engar kvaðir um slík bókaskrif og hefur Guðmundur því ritað
bókina að eigin frumkvæði. I formála segir hann að sér hafi þótt
„æskilegt að þjóðin í heild sinni gæti sem fyrst kynnt sér árangur-
inn af starfi mínu og kveðið upp dóm sinn“ og því hafi hann
ákveðið að rita bókina.32 Síðan bætir hann við:
Hef ég þar eftir mætti reynt að skýra eðli menntamálsins frá rótum, finna
takmarkið sjálft og athuga leiðirnar sem þangað liggja, og hverjar þeirra
væru oss færar, að því er séð verður. Ég hef leitast við að finna þá aðal-
skoðunarhætti er koma til greina og reynt þannig að búa í hendur þeirra
sem um þetta mál eiga að hugsa og ráða því til lykta.33
Bókin hefst á löngum inngangi, „Menntun", þar sem Guð-
mundur leitast við að varpa ljósi á menntahugtakið:
Sá sem heldur því fram að menntun sé hið fyrsta og helsta lífsskilyrði
hverrar þjóðar, og öflun hennar því helgasta skylda hvers þjóðfélags, er
vill lifa og dafna, hann verður að gjöra það bersýnilegt að menntunin sé
eina vopnið sem dugar til sóknar og varnar í lífsbaráttunni, hvort heldur
er gegn blindum öflum náttúrunnar eða sjáandi samkeppni annarra
þjóða.34
Guðmundur snýr sér því næst að þeim líkams- og sálargáfum
sem skipta máli fyrir menntun. Sú umfjöllun ber glöggt vitni um
sálfræðimenntun Guðmundar. I henni víkur hann að sambandi
líkama og sálar, skilningarvitunum, minninu, ímyndunaraflinu,
skynseminni og öðrum efnum úr því sem nú væri nefnt almenn
sálfræði. Vegna þess að sálarlífið er margbrotið getur menntunin
„ekki verið fólgin í einhliða æfingu vissra krafta, hún verður að
efla manneðlið í heild sinni, hún verður að koma á samræmi milli
allra líkams- og sálarkrafta mannsins“.35
Guðmundur gerir sér grein fyrir því að sumum muni þykja
undarlegt að hann skuli fjalla um menntun skilningarvitanna en
32 Guðmundur Finnbogason 1903/1994:23.
33 Sama rit:23.
34 Sama rit:25.
35 Sama rit:32.