Skírnir - 01.04.2005, Side 26
24
JORGEN L. PIND
SKÍRNIR
mun á tveimur manngerðum, hinum andlega heilbrigða og hinni
„sjúku sál“ og dregur enga dul á það að þótt trúin tengist oft sál-
sýki verði hún engu ómerkari við það, enda samúð James öll með
hinni sjúku sál. Höfundurinn, segir Guðmundur, er „andríkur og
ritar einkennilega þróttmikið og sérkennilegt mál“ og má til sanns
vegar færa. Árið 1906 kynnti Guðmundur annan erlendan heim-
speking fyrir Islendingum í Skírni, Henri Bergson (1859-1941),
með þýðingu á grein eftir hann „Um listir“. James og Bergson
voru þeir menn, auk kennaranna við Hafnarháskóla, sem áttu eft-
ir að hafa mest áhrif á Guðmund á næstu árum.
Fyrsti árgangur hins nýja Skírnis kom í fjórum heftum og varð
alls um 400 síður. Auk kynninga á James og Bergson skrifaði
Guðmundur nokkrar greinar í ritið á árunum 1905-1907, meðal
annars um heimavistarskóla, um Einar Benediktsson, Jónas Hall-
grímsson og Tómas Sæmundsson. Efni Skírnis þessi þrjú ár, sem
Guðmundur ritstýrði tímaritinu fyrsta sinni, er býsna fjölbreytt,
innlendur og erlendur skáldskapur, greinar um bókmenntir og
listir, vísindi og margvísleg hagnýt efni, ferðapistlar, stuttir annál-
ar, ritdómar. Höfundar í þessum þremur fyrstu árgöngum eru um
50, af þeim þrjár konur.
V
Árið 1907 var styrkur Hannesar Árnasonar auglýstur að nýju og
að þessu sinni kom hann í hlut Guðmundar. Hélt hann til Kaup-
mannahafnar um haustið en síðan til Parísar í ársbyrjun 1908,
meðal annars fyrir áeggjan Höffdings. Þar sökkti hann sér í
heimspeki Bergsons og sótti fyrirlestra hans við Collége de
France. Guðmundur hitti Bergson að máli og ræddi þar meðal
annars fyrirhugaða doktorsritgerð sína. I bréfi til Höffdings seg-
ir hann frá því að hann sé orðinn fráhverfur því að skrifa bók um
Bergson og franska heimspeki. Efnið sé víðfeðmt og erfitt að fá
yfirsýn yfir það enda komi nýtt heimspekirit út „svo til á hverj-
um degi“ í Frakklandi. En hitt sé þó ekki síður mikilvægt að
hann sé orðinn gagntekinn af öðru efni, „sympatiens psykologi",
sálfræði samúðarinnar. Segist hann hafa viðrað hugmyndir sínar