Skírnir - 01.04.2005, Side 87
SKÍRNIR AUSTURVEGSÞJÓÐIR OG ÍSLENSK HEIMSMYND 85
skiptum Ólafs sjálfs í hinum elstu íslensku ritum sem segja frá ævi
hans. Oddur Snorrason segir svo frá: Eftir að hafa lent í hrakning-
um í Danmörku heitir Ólafur því að taka kristni en þegar hann kem-
ur aftur í Garðaveldi fær hann sýn og segir rödd af himni við hann:
„Far þú til Grikklands og mun þér þar kunnigt gert nafn drottins."
Fær hann leyfi til þess hjá konungi en í Grikklandi hittir hann „dýr-
lega kennimenn og vel trúaða er honum kenndu rétta trú og guðs
boðorð“. Síðan biður hann biskup sem kallaður er Páll í íslensku
handriti sögunnar að „fara með sér í Garðaríki og boða þar guðs
nafn heiðnum þjóðum“ en biskup fer með því skilyrði að Ólafur
tryggi „að eigi stæði höfðingjar í mót heldur veitti þeir honum sig-
urmark og styrk til kristninnar".13 Samkvæmt Ólafs sögu Odds er
Garðaríki þannig kristnað frá Grikklandi fyrir milligöngu Ólafs.
Eflaust hafa margar gerðir af sögunni um kristnun Norður-
landa verið á ferð og ljóst er að sú gerð sem gerir svona mikið úr
þætti Ólafs Tryggvasonar var t.d. á skjön við sagnarit sem héldu á
lofti hlut Þjóðverja og þá einkum Hamborgarmanna. Þeim sem
ritaði Ólafs sögu Tryggvasonar hina mestu, og endursegir þar
þessa sögu, finnst ástæða til að geta þess en reynir að sætta ólíkar
heimildir með því að skjóta inn eftirfarandi:
Þessir hlutir sem nú voru sagðir um kristniboðan Óláfs Tryggvasonar í
Garðaríki eru eigi ótrúanlegir því að ein bók ágæt og sannfróð er heitir
Ymago mundi kveður skýrt á að þessar þjóðir er svo heita: Rusci, Polavi,
Ungarii, kristnuðust á dögum Ottonis þess er hinn þriðji var keisari með
því nafni.
Síðan er raunar bætt við: „Sumar bækur segja að Ottó keisari hafi
farið með her sinn í Austurveg og brotið þar fólk víða til kristni
og með honum Ólafur Tryggvason."14 Þessi fyrirvari er einnig í
13 Saga Óláfs Tryggvasonar af Oddr Snorrason munk, bls. 40-42.
14 Óláfs saga Tryggvasonar en mesta (Editiones Arnamagnæanæ. Series A 1-3), 3
bindi, útg. Ólafur Halldórsson, Kaupmannahöfn 1958-2000,1, 158. Hér víkur
sagan frá Imago mundi eins og Peter Springborg bendir á: „Eine markantere
Abweichung von der I.m. findet man indessen bei der Erwáhnung der Christ-
ianisierung der drei östlichen Völker“,„Weltbild mit Löwe. Die Imago mundi
von Honorius Augustodensis in der altwestnordischen Textuberlieferung“,
Cultura classica e cultura germanica settentrionale (Quaterni linguistici e
filologici, III), Róm 1988, 167-219 (bls. 199).