Skírnir - 01.04.2005, Page 149
SKÍRNIR
MERKINGARLAUSIR ÍSLENDINGAR
147
eftir, hinir hafa allir verið sendir heim og eru auðvitað til stórvandræða
þar.19
Meðferðin felst í því að dæla lyfjum í sjúklingana en síðar í bók-
inni er gagnrýni á lyfjaveldið ítrekuð þegar Pálmi ræðir við Jó-
hann, aðalgæslumann Daníels:
Pillur í öllum regnbogans litum og af öllum stærðum og gerðum streyma
oní þessa sjúklinga. Og veistu af hverju? Spítalarnir hafa ekki ráð á neinu
nema lyfjameðferð. Starfsfólki hefur fækkað niður úr öllu valdi og ef ekki
á allt af göflunum að ganga verður að deyfa sjúklingana. Þeir geta ekki
borgað almennileg laun, þessir herrar, en þeir dæla milljónum og hundr-
uðum milljóna í lyfjaframleiðendur á hverju ári.20
Upphafsmyndin af geðspítalanum er táknmynd samfélagsins þar
sem sumir verða undir (sjúklingarnir), þar sem flestir kjósa að líta
framhjá ástandinu (starfsfólkið) og einhverjir örfáir toga í spottana
(lyfjaframleiðendur). Greina má þetta samfélag samkvæmt kenn-
ingum þýska heimspekingsins Ferdinands Tönnies. Það er vélrænt
og tæknilegt; fólk hefur hlutverkum að gegna og myndar formleg
tengsl í samræmi við fyrirfram myndaða formgerð. Slíkt samfélag
hefur verið kallað „Gesellschaft" og myndar andstæðu við samfé-
lag sem byggist á raunverulegum og náttúrulegum tengslum fólks
og myndar lífræna formgerð sem kallast „Gemeinschaft" í hug-
myndafræði Tönnies. Oft hafa borg og sveit verið nefndar sem
slíkar andstæður.21
Daníel fellur ekki að hinni vélrænu formgerð spítalans (Gesell-
schaft) þar sem hann er aðeins formleg eining. Því kýs hann að
svipta sig lífi með því að stökkva út um gluggann - og hverfa aftur
á vit stjarnanna en hann skynjar sig og fyrrverandi bekkjarfélaga
sína sem stjörnur sem hafa hrapað úr paradís.
Eftir þessa nöturlegu byrjun er skipt um frásagnarrödd og Er-
lendur Sveinsson, rannsóknarlögreglumaður, fær orðið og þá er
allt önnur skoðun kynnt:
19 Sama rit, 22.
20 Sama rit, 35.
21 Ferdinand Tönnies: Community and Society. Gemeinschaft und Gesellschaft.
Þýtt af Charles P. Loomis. [1. útg. 1887] New York, Evanston og Lundúnum
1957, 33-35.