Skírnir - 01.04.2005, Page 176
174
SIGRÍÐUR MATTHÍASDÓTTIR
SKÍRNIR
ilisiðnað og nokkurs konar sjálfsþurftarbúskap, vera nægjusöm,
lesa Islendingasögur og ekki erlenda rómana, taka upp einhvers
konar skemmtanalíf í anda sveitamenningarinnar og forðast alls
kyns þætti sem flokkuðust undir nútímalega spillingu. Orðræðan
fól einnig í sér mjög sterkan boðskap sem gekk út á að lúta heild-
inni frekar en eigin einstaklingsvilja.
Sjálfsmyndin sem þessi orðræða boðaði náði aldrei til valda-
stéttarinnar í landinu og var aldrei ætlað að ná til hennar. Raunar
má telja hæpið að nokkurt þjóðríki hefði gefið valdastétt sinni
sjálfsmynd af þessu tagi. Alþingishátíðin 1930 varpar ágætu ljósi á
þetta. Hún snerist alls ekki um pólitík í venjulegum skilningi, og
alls ekki um efnahag eða hagræna þróun, heldur um sjálfsmynd og
hún var gríðarlega mikilvæg sem slík. Eitt af meginmarkmiðum
hennar var að sýna heiminum fram á gildi þjóðarinnar sem full-
gildrar vestrænnar þjóðar og á hátíðinni brá svo við að sveitasam-
félagið og ímynd þess, sem var annars upphafið og á allra vörum
(„eins og guð almáttugur", samanber orð Skúla Guðjónssonar á
Ljótunnarstöðum)10 fékk ekki sérlega háan sess. Sú sjálfsmynd
sem fékk mest vægi á hátíðinni samsvaraði mjög sjálfsmynd hins
menntaða, vestræna lýðræðislega og karllega einstaklings.
Um mikilvœgi orbrœbunnar
Því má ekki gleyma að hugmyndum eða orðræðu var gefið gríð-
arlegt vægi í íslensku samfélagi á fyrri hluta 20. aldar. Það má m.a.
nefna sem dæmi að útbreiðsla og vinsældir hugmynda Jóns Aðils
urðu miklar. Háir sem lágir tóku þeim fagnandi, og skipti ekki
máli hvort í hlut áttu skólabörn, alþýðufyrirlesarar, skáld,
menntamenn eða hæstsettu stjórnmálamenn íslenska ríkisins.
Þjóðernishugmyndirnar urðu útbreiddasta hugmyndafræði síns
tíma í íslensku þjóðfélagi og líklega sú eina sem nokkurn veginn
full sátt ríkti um. Á árunum eftir fyrri heimsstyrjöldina var íhalds-
söm þjóðernisstefna og sveitahyggja hafin til vegs og virðingar, en
hugmyndafræðin sem gagntók hugi samtímamanna var margþætt
10 Sigríður Matthíasdóttir, Hinn sanni Islendingur, bls. 131-132.