Skírnir - 01.04.2005, Page 190
188
HARALDURBERNHARÐSSON
SKÍRNIR
boðið að prenta þar ‘hv’ í stað ‘kv’ eftir nútímastafsetningu og þar
með myndu merki þessarar hljóðbreytingar hverfa. I svo ungum
texta gætu einnig fundist merki þess að aðgreining sérhljóðanna i:
e og u : ö sé farin að bila; þetta er hið svonefnda „flámæli" eða
„hljóðvilla“ þar sem orð eins og skyr: sker og flugur :flögur höfðu
tilhneigingu til að renna saman í framburði og þar af leiðandi
einnig í stafsetningu. Þetta framburðareinkenni þótti ekki eftir-
sóknarvert og reyndar var kerfisbundið barist gegn því í skóla-
kerfinu á tuttugustu öld. Flestir útgefendur myndu því líklega
hugsa sig um tvisvar áður en þeir létu merki þessa framburðar
birtast í texta með nútímastafsetningu.9
I samræmdri nútímastafsetningu er hætt við að mörgum þætti
eðlilegt að afmá merki ýmissa hljóðbreytinga sem ekki voru al-
tækar eða gengu til baka en eru engu að síður einkennandi fyrir
samtíð skrifarans. Til dæmis má nefna kringinguna ve > vö í orð-
um eins og hver > hvör, hvelfa > hvölfa, breytinguna vé > væ á
undan l eða r í vér > vær, vélindi > vælindi eða afkringinguna jö >
je í til dæmis mjög > mjeg og sjö > sje.
Margir útgefendur myndu hugsanlega vilja afmá ýmsar af þeim
beygingarbreytingum sem víða örlar á í ungum textum og færa til
nútímamáls. Þar má til dæmis nefna breytingar á beygingu orða
eins og hellir sem þegar á fimmtándu öld gat verið hellir í þf. et. og
hellirs í ef. et. og næstu aldirnar komu upp myndir eins og nf. ft.
hellirar eða hellrar og þf. ft. hellira eða hellra en hætt er við að í
útgáfu með nútímastafsetningu viki þessi yngri beyging fyrir
hinni viðurkenndu beygingu nútímamáls. Einnig má búast við að
mörgum útgefendum fyndist sér skylt að eyða merkjum um
breytingar á beygingu orðanna bróðir, dóttir, móðir og systir og
prenta til dæmis þf. et. bróður, dóttur, móður, systur í stað yngri
þolfallsmyndanna bróðir, dóttir, móðir, systir. Á sama hátt þætti
líklega mörgum r illa eiga heima í beygingu lýsingarorða á borð
9 í sinni ágætu útgáfu á bréfum Vestur-íslendinga finnur Böðvar Guðmundsson
sig knúinn til að útrýma þar öllum merkjum um „flámæli“: „Sökum strangrar
málvörslu á síðari tímum er það af mörgum talið jaðra við hlálegt velsæmisbrot
ef bregður fyrir flámæli í máli einhvers. Því hef ég valið að færa allan flámælis-
rithátt í samræmt horf“ (Böðvar Guðmundsson 2001-2002, l:xxiii).