Skírnir - 01.04.2005, Page 204
202
PÁLL BJÖRNSSON
SKÍRNIR
Ýmsar leiðir hefðu verið færar til að koma meiri greiningu á fram-
færi við lesandann án þess þó að breyta uppbyggingu verksins. Ég tel
t.d. að höfundur hefði getað bætt fyrir áherslu sína á tímaröðina með
því að skrifa ítarlegan lokakafla eða eftirmála, þó ekki væri nema í síð-
ara bindi. Þar hefði hann ekki aðeins getað sagt frá helstu niðurstöðum
heldur einnig gert grein fyrir rannsóknaraðferðum sínum, takmörkun-
um og kostum tiltækra heimilda og úrvinnslu annarra fræðimanna og
höfunda á efninu.9
Onnur leið til að koma meiri greiningu til skila hefði verið sú að nota
aftanmálsgreinarnar á skilvirkari hátt til að miðla meira efni til forvitinna
lesenda. Hin þýsk-danska tilvísanahefð sem Guðjón og margir aðrir
sagnfræðingar hérlendis hafa tileinkað sér, þ.e. að nota þær einvörðungu
til knappra tilvísana í heimildir en ekki jafnframt til samræðna við lesand-
ann um mál sem ekki eiga heima í meginmáli, kann að vera ein ástæða þess
að ekki skuli vera meira af slíku. Af sömu ástæðu notar Guðjón ekki
aftanmálsgreinarnar nema þá í undantekningartilfellum til að vísa lesend-
um á áhugavert lesefni eftir aðra, efni sem Guðjón hefur þó örugglega
nýtt sér til að fá betri yfirsýn yfir ævi og störf Jóns Sigurðssonar.10
Áður en lengra er haldið er rétt að athuga hvaða markmið Guðjón
hefur sett sér með ritun þessarar ævisögu. Það kemur í ljós að Guðjón
einsetti sér að rita um persónuna en ekki um þann pólitíska eða hagfræði-
lega hugmyndaheim sem ég nefndi að ofan. Hann lýsir markmiðinu svo í
stuttum eftirmála við síðara bindi:
Frá upphafi setti ég mér það mark að reyna að grafast fordómalaust
fyrir um persónuna sjálfa og án þeirrar yfirdrifnu upphafningar sem
hingað til hefur tíðkast og jafnframt að setja stjórnmálabaráttu Jóns
Sigurðssonar í betra samhengi við það sem var að gerast í Evrópu og
einkum Danmörku á hans tímum en áður hefur verið gert.11
9 Hér hefði Guðjón t.d. getað haft til hliðsjónar nýlegar ævisögur eftir tvo mann-
fræðinga: Gísli Pálsson, Frxgó ogfirnindi. Ævi Vilhjálms Stefánssonar (Reykja-
vík: Mál og menning 2003) og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Björg. Ævisaga
Bjargar C. Þorláksson (Reykjavík: JPV 2001).
10 Svo dæmi sé tekið þá vísar Guðjón ekki í rannsóknir Sverris Kristjánssonar í
17. kafla í öðru bindi sínu þar sem fjallað er um stríðið í hertogadæmunum
Slésvík og Holsetalandi árið 1864 og hugmyndir danskra stjórnvalda um að
nota ísland sem skiptimynt í friðarviðræðunum við Prússa. Sjá t.d. grein
Sverris „Hertogadæmin Slésvík-Holstein og sjálfstæðisbarátta íslendinga",
Ritsafn I. bindi (Reykjavík: Mál og menning 1981), bls. 234-278.
11 Guðjón Friðriksson,/ó« Sigurðsson II, bls. 567 (leturbreyting mín).