Skírnir - 01.04.2005, Page 216
214
RAGNHEIÐUR KRISTJÁNSDÓTTIR
SKÍRNIR
hefur höfundur á öldinni? Hvers kyns var, að hans mati, þessi öld sem
hann telur, eins og segir á einum stað (425), vera lykilinn að skilningi á
hugsun Halldórs?
Fljótt á litið virðist svarið við þeirri spurningu einfalt. Þegar höfund-
ur talar um áhrif aldarinnar á Laxness er hann að tala um Old öfganna.
Öldina, með öðrum orðum, eins og Eric Hobsbawm sá hana fyrir sér í
samnefndri bók sem kom út í íslenskri þýðingu hjá Máli og menningu
árið 1999. I bókinni um Halldór má finna nokkur dæmi um að orðin öfg-
ar og öld standi saman eða nálægt hvort öðru (a.m.k. fjögur) og ef ég hef
talið rétt er enginn sagnfræðingur eins oft kallaður til vitnis um einkenni
aldarinnar og Eric Hobsbawm. Þetta er í sjálfu sér skiljanlegt, því fáir hafa
skrifað áhugaverðari bók um tuttugustu öldina en Hobsbawm. En hefði
það ekki breytt því hvernig höfundurinn fjallar um tengsl Laxness og ald-
arinnar ef hann hefði leitt fleiri sagnfræðinga til vitnis um helstu einkenni
tuttugustu aldarinnar?
Það mætti ætla að svo hefði verið því Eric Hobsbawm fór svipaða leið
í gegnum öldina og Halldór. Eins og segir á bókakápunni á bandarísku út-
gáfunni af sjálfsævisögu hans Interesting Times: A Twentieth-Century
Life^ var Berlínarbúinn Eric Hobsbawm á leiðinni heim úr skólanum
þegar hann frétti að Hitler hefði komist til valda og þegar Sovétríkin féllu
var hann að stjórna málstofu í New York. Hann þýddi fyrir Che Guevara
í Havana, borðaði jólamat með sovéskum njósnara í Búdapest, eyddi
kvöldstund heima hjá gospelsöngkonunni Mahalíu Jackson og sá með
eigin augum lík Jósefs Stalíns. Hobsbawm er eins og Halldór var af-
sprengi þess sem helst einkenndi tuttugustu öldina og það sem meira er,
sömu megin og hann í pólitíkinni. Hobsbawm var, á sinn hátt, kommún-
isti og þó að hann verði seint sakaður um að hafa verið dogmatísk mál-
pípa Sovétríkjanna, dregur Öld öfganna dám af þeim sem skrifar hana.
Hún er saga tuttugustu aldarinnar frá sjónarhóli Hobsbawms og hann er
ekki frekar en aðrir sagnfræðingar hlutlaus. Ef skilningur höfundar á
Halldóri veltur á skilningi á öldinni og skilningurinn á öldinni á skilningi
kommúnistans Hobsbawms er hætta á að höfundur hafi ekki gætt hlut-
leysis. Að myndin verði skökk.
En kannski verður myndin ekki eins skökk og ætla mætti, því það
liggja ekki til grundvallar í ævisögu Halldórs, eftir því sem ég best fæ séð,
neinar skýrar skoðanir eða tilgátur um einkenni og eðli tuttugustu aldar-
5 Eric J. Hobsbawm: Interesting Times: A Twentieth-Century Life. New York:
Pantheon 2002.