Skírnir - 01.04.2005, Blaðsíða 217
SKÍRNIR
HALLDÓR OG TUTTUGASTA ÖLDIN
215
innar eða áhrif hennar á einstaklingana sem hún gat af sér. Að svo miklu
leyti sem bókin eykur skilning lesandans á því hvernig Halldór Laxness
tókst á við tuttugustu öldina, skilning hans á tengslum mannsins og ald-
arinnar, er það fyrst og fremst vegna greiningar höfundar á persónunni
Halldóri Laxness. Augljóst er að höfundur þekkir öldina vel, en í brenni-
depli er persónan Halldór Laxness og það sem hann gerði. En þó að sú
áhersla sé vitaskuld eðlileg - höfundur er að skrifa ævisögu - stendur eft-
ir spurningin um hvort markvissari áhersla á að skoða eðli og einkenni
aldarinnar, og þá út frá fleiri sjónarhornum en hér er gert, hefði gefið les-
andanum betri tilfinningu fyrir því hvað höfundur á við þegar hann full-
yrðir að öldin sé lykillinn að skilningi á hugsun Halldórs. Og þá um leið
hvort það hefði leitt til dýpri skilnings á tengslum mannsins og aldar-
innar.
III.
Eins og höfundur bendir á reynir mest á þessi tengsl þegar kemur að því
að fást við þátt Halldórs Laxness í því sem breski blaðamaðurinn
Malcolm Muggeridge kallaði eitt af undrum aldarinnar, þ.e.a.s. aðdáun
lýðræðissinnaðra og friðelskandi Vesturlandabúa á Sovétríkjunum.6
Glíman við þetta undur hefur verið miðlæg í rannsóknum á sögu komm-
únismans í Evrópu á tuttugustu öld. Erfiðasta og jafnframt áleitnasta
spurningin á þessu fræðasviði hefur verið þessi: Hvernig stóð á því að
margir af helstu hugsuðum tuttugustu aldarinnar hrifust af kommúnism-
anum, þrátt fyrir þann hrylling sem fylgdi tilrauninni við að koma hon-
um á?7 Og tengd henni er svo aftur ein af lykilspurningum þeirra sem
vilja glíma við tuttugustu öldina: Hvers vegna í ósköpunum var skipulagt
fjöldamorð eitt af helstu einkennum aldarinnar?
í upphafi kaflans sem fjallar um fyrstu ferð Halldórs til Sovétríkjanna,
ferðina sem hann fór árið 1932, vekur höfundur athygli á þeim mun sem
er á Sovétríkjunum í ferðabókunum tveimur frá fjórða áratugnum (/aust-
urvegi og Gerska ævintýrinu) og lýsingunni sem birtist í Skáldatíma árið
1963. Og hann segir að maðurinn hafi breyst, tíminn sé annar og að sag-
6 Sbr. tilvitnun í Muggeridge hjá Paul Hollander: Political Pilgrims: travels of
western intellectuals to the Soviet Union, China, and Cuba 1928-1978. New
York: Harper Colophon Books 1981, bls. 102.
7 Sjá t.d. Frangois Furet: Le passé d’une illusion: essai sur l’idée communiste au
XXe siécle. París: Robert Laffont 1995 og Tony Judt: Past Imperfect. French in-
tellectuals, 1944—1956. Berkeley: University of California Press 1992.