Skírnir - 01.04.2005, Page 219
SKÍRNIR
HALLDÓR OG TUTTUGASTA ÖLDIN
217
þær voru honum ljósar - með því að hann hafi haft tilhneigingu til að
hrífast af hugsjónum sem væru æðri mönnunum:
Allan þriðja áratuginn hafði Halldór sveiflast milli hins mannlega og
hugsjónanna. Á fjórða áratugnum þróast skrif hans æ meir þannig að
hið mannlega fær athvarf í skáldverkunum, í öðrum skrifum sínum
tekur Halldór mið af hugsjónum sem sumar eru svo fjarlægar mönn-
unum að þær verða andstæðar þeim (315).
Halldór vildi, segir höfundur, og tekur þar með undir skýringar Halldórs
sjálfs í Skáldatíma, trúa sovéska áróðrinum af pólitískum ástæðum. Hall-
dór var blekktur og vildi láta blekkjast. Þó gengur höfundur að því leyt-
inu til lengra en Halldór sjálfur að hann vekur athygli á því að hann hafi
vitað meira en hann lét í ljós. Hann fullyrðir að Halldóri hafi verið ljóst
að það var ekki allt með felldu í Sovétríkjunum og nefnir handtöku Veru
Hertzsch í því sambandi (416).
Það er einmitt hér sem vandinn við að skilja réttlætingu vestræna
menntamannsins á framkvæmd sósíalismans í Sovétríkjunum verður hvað
mestur. Hvernig gat Halldór skrifað Gerska ævintýrið eftir að hafa orðið
vitni að handtöku Veru?9 Og hvernig gat hann - eins og höfundur tilgrein-
ir síðar í bókinni, þótt hann láti lesandanum eftir að fella dóm - fengið það
af sér að deila á Benjamín H.J. Eiríksson fyrir að hallmæla Sovétkommún-
ismanum?10 I þessu samhengi nefnir höfundur - og hefur m.a. eftir Jakobi
Benediktssyni, sem aftur vitnaði í samtöl sín við Halldór - að Halldór hafi
haft áhyggjur af ástandinu í Sovétríkjunum, en að hann hafi „sannfært
sjálfan sig um að honum bæri að verja Sovétríkin skilyrðislaust, allt annað
væri vatn á myllu fasismans og myndi skaða samfylkinguna“ (421). Að
Halldór hafi, eins og hann orðar það sjálfur í Gerska ævintýrinu, litið svo
á að aðstæður væru þannig að öll „undanlátssemi" í stríði auðvaldsins
„gegn hinu samvirka þjóðfélagi í Ráðstjórnarríkjunum" væri „blygðlaus
svik við þann hluta mannkynsins sem aðhyllist framsókn".11
9 Sjálfum vafðist honum, eins og fram kemur í bókinni (424), tunga um tönn þeg-
ar Matthías Jóhannessen lagði fyrir hann þessa spurningu á sínum tíma, og
hann tekur ekki á henni í Skáldatíma.
10 Eins og greint er frá á bls. 464 skrifaði Halldór árið 1941 grein í Nýtt dagblað
þar sem hann gagnrýndi Benjamín fyrir að hafa haldið á lofti ævisögu sem
Richards Krebs skrifaði undir dulnefninu Jan Valtin. Menningar- og fræðslu-
samband alþýðu hafði gefið bókina út og þar kom fram hörð gagnrýni á Sovét-
ríkin.
11 Halldór Laxness: Gerska xvintýrið, bls. 64.