Skírnir - 01.04.2005, Page 224
222
AUÐUR ÓLAFSDÓTTIR
SKÍRNIR
verið mikilvægur áhrifavaldur í list Gabríelu, bæði í tvívíðum og þrívíð-
um verkum. I sýningarsalnum ríkti sannkölluð karnivalstemning, mynd-
heimurinn virtist gripinn á lofti úr tilbúnum ævintýraheimi bernskunnar.
Sum formin minntu á amöbur eða á náskylda ættingja Barbafjölskyld-
unnar geðþekku, annars staðar mátti sjá Edensorm sem var þó ekki bara
ormur heldur líka allt eins stafur, alls staðar mátti sjá furðuform munda
frjálslega vaxna anga sína. Samlíkingin við metamorfósur eða myndbreyt-
ingar sem geta tekið á sig hvaða form sem er, er reyndar ekki út í bláinn
þegar verk Gabríelu eru annars vegar og má helst líkja fagurfræði verka
hennar við blómstur eða gróður, í öllu falli við skapnað af lífrænum toga
sem látinn er vaxa frjáls og óheftur, þar sem ein hugmynd verður að
annarri, metamorfósast.
Sjálf hefur Gabríela líkt listsköpun við aðgerð og hefur raunar kennt
bæði heilar sýningar og einstök verk við listrænar aðgerðir, dramatískar,
rómantískar, ljóðrænar eftir atvikum (Operazione dramatica, Operazione
romantica og Operazine poeticd). „Aðgerð er einfaldlega rétta orðið til að
lýsa minni listsköpun. Þar legg ég ekki upp með fyrirfram skipulagt verk-
efni, heldur byrja ég bara og verður verkið til í gegnum það ferli. Lista-
verkið er síðan sú tilfinning sem aðgerðin býr til. Með því að nota þessa
titla finnst mér ég gefa verkunum skírskotun til krufningarvísindanna, en
um leið hafa titlarnir rómantískan blæ.“6
Ef marka má það sem listakonan hefur látið eftir sér hafa um vinnu-
aðferðir sínar er margt sem minnir á „sjálfssprottna" aðferð eða automat-
isma gömlu súrrealistanna á fyrri hluta 20. aldar. Utgangspunkturinn er
ekki fastmótuð, niðurnjörvuð hugmynd heldur fremur tilfinning ættuð
úr iðrum líkamans. í sköpunarferlinu sjálfu ber umfram allt að leyfa órit-
skoðuðu ímyndunaraflinu að ráða ferðinni. Hugmyndatengingar sem
ganga þvert á rökrétta samfellu eru sérlega velkomnar. Með því móti er
tryggt að útkoman verði ekki fyrirsjáanleg. Það er enda í samræmi við þá
hugmyndafræði sem margir listamenn af yngri kynslóð hafa tileinkað sér
og stundum er kennd við aldamótarómantík. Listin er galdur og þess
vegna er hún margræð, ekki einhlít og endanleg. Sem dæmi um aðferða-
fræði af þeim toga má nefna málverk eftir Gabríelu sem eru unnin með
því að hella þykku lakki á myndflötinn og efnið þannig látið sjálft um að
búa til form, skapa fígúrur. Af sömu ætt var sá gjörningur Gabríelu sem
hún framkvæmdi í Nýlistasafninu 10. júní 1999 og fólst í því að auglýsa
að hún sæti við símann frá klukkan 14-18 þann dag og fólki væri velkom-
6 Morgunblaðid, 26. október 2002.