Skírnir - 01.04.2005, Blaðsíða 228
226
AUÐUR ÓLAFSDÓTTIR
SKÍRNIR
ar sjálfrar, að listhefðinni, að nokkru leyti gegn eigin tilvistarskilyrðum og
að nokkru leyti gegn listamanninum sjálfum og ímynd hans.
Á sama tíma má staðhæfa að aldagömul viðfangsefni myndlistarinnar,
líkt og fegurðin og hlutverk hennar í myndlistinni sem lítið hefur borið á
hin síðari ár samanborið við tilvistarspurningar listarinnar, sé aftur orðið
verðugt viðfangsefni. Sjálf hefur Gabríela lýst því yfir að könnun á endi-
mörkum og inntaki fegurðar sé eitt meginviðfangsefni myndverka sinna.
Fagurfræði hennar er nátengd hugmyndum um skapandi frelsi. Fegurð er
því fegurðarreynsla í stað fegurðar, sem líkja má við stefnumót við bæði
sjálfan sig og hið óvænta, ævintýrið. „Það er ekki hægt að segja að ég fylgi
hinni heilsteyptu módernísku fagurfræði, henni má frekar lýsa sem nokk-
urs konar fagurfræði ljótleikans.“9
Dýrasónata
Tónlist er mikilvægur hluti af innsetningum Gabríelu og hefur hún unn-
ið hljóð/tónverk fyrir fjölmargar sýningar sínar. Notar hún jafnan tónlist
eða hljóð í ætt við einfaldar frumsamdar laglínur og hún telur á einn eða
annan hátt vera lýsandi fyrir myndverkið eða andrúmsloftið á sýning-
unni. Segja má að hún nálgist tónlist á svipaðan hátt og málverk eða
skúlptúr, sem rannsókn á möguleikum miðilsins, ekki hvað síst með tilliti
til samspils myndmáls og tónlistar. Undan hvítu gæruskinni í einu horni
sýningarsalarins á sýningunni Dýr inni dýr úti hljómaði einmitt Dýra-
sónatan, tónverk fyrir píanó eftir Gabríelu.
Árið 1999 hélt Gabríela tvær sýningar úti á landi, aðra á ísafirði og
hina í Vestmannaeyjum, Are you ready to rock 1 og 2. Báðar sýningarn-
ar byggðust á innsetningum og voru innblásnar af umhverfi sínu og
staðarháttum. Grunntónn sýningarinnar fyrir vestan var hvítur (snjór)
en í innsetningunni í Eyjum var áherslan lögð á svartan lit (hraun).
Fyrir báðar sýningarnar hafði Gabríela samið lítil tónverk og er lýsing
hennar á öðru þeirra, því „hvíta“, dæmigerð fyrir afstöðu hennar til
viðfangsefnisins. Um er að ræða innsetninguna á Isafirði þar sem tón-
listin barst í gegnum göt á gólfi sýningarrýmis. „Ég reyndi að endur-
skapa þann tón eða þau hljóð sem mér þóttu tilheyra ísafirði. Eins og
þegar gengið er í hvítum, köldum snjónum sem er jafnframt svo mjúk-
ur og notalegur."10
9 Morgunblaðið, 26. október 2002.
10 „Against Art.“ Nu - The Nordic Art Review, II. bindi nr. 6/00.