Bændablaðið - 29.08.2019, Page 21
Bændablaðið | Fimmtudagur 29. ágúst 2019 21
bankanna eins og það var í lok ágúst
árið 2001. Á þeim tíma var samanlagt
markaðsvirði bankanna metið um 85
milljarðar króna. Í dag er það metið
fjórum til sex sinnum hærra. Hafa
ber í huga að markaðsvirði er afar
hugslægt mat sem byggt er m.a.
á væntingum á verðbréfamarkaði
fremur er eingöngu rauneignum.
Bólan sprakk og
gröfturinn vall út
Þessi ofsagróði bankanna í byrjun
aldarinnar leiddi til þess að trylltur
dans var stiginn í kringum þennan
gullkálf og ofurtrú myndaðist með
óraunhæfum spám um framhaldið.
Allir vita nú hvernig fór. Bólan
sprakk með háum hvelli haustið
2008 og gröfturinn var í mörg ár að
vella úr sárinu. Samt var eigið fé sex
stærstu íslensku bankanna metið um
1.000 milljarðar króna í júní 2008,
aðeins nokkrum mánuðum fyrir
hrun. Enn eru fjölmargir sárir eftir
þau átök og sumir hafa jafnvel ekki
fengið plástur á meiddið hvað þá
meira.
Uppsveifla íslenskra banka á
síðustu árum virðist hafa sannfært
marga um að óhætt sé að skella sér
aftur áhyggjulaus á ball og taka upp
trylltan dans í kringum gullkálfinn.
Ef við skoðum málið hins vegar í
samhengi hlutanna þá bendir staða
bankakerfisins um allan heim alls
ekki til að ástæða sé til að slá upp
partíi. Þar má t.d. hafa í huga að í júlí
síðastliðnum breytti matsfyrirtækið
Standard & Poors horfum íslensku
bankanna og Íbúðalánasjóðs úr
stöðugum í neikvæðar. Sagði
S&P í mati sínu að búast megi við
samdrætti í íslensku efnahagslífi
á þessu ári, en telur jafnframt að
efnahagurinn rétti úr kútnum á því
næsta.
Fallandi virði gjaldmiðla
Nær allir gjaldmiðlar heims hafa
verið að falla á undanförnum
vikum, en þó æði mismunandi
samkvæmt tölum Seðlabanka
Evrópu (European Central Bank).
Virðist sem fólk sé að missa trúna
á að peningar séu haldgóð ávísun
á raunverðmæti. Þannig hefur
íslenska krónan t.d. fallið mun
hraðar en bæði Bandaríkjadollar
og evra, sem eru okkar helstu
viðskiptagjaldmiðlar. Fjárfestar
hafa í ríkara mæli verið að snúa
sér að haldfastari hráefnamarkaði
og gulli. Uppsveifla krónunnar í
byrjun ágúst sem margir fögnuðu
ákaft var í raun ekki byggð á neinum
sjáanlegum raunbata heldur miklu
frekar spákaupmennsku á markaði.
Ríkisstyrkur til bankanna
Stærsti fjárfestingabanki Evrópu,
Deutsche bank, á við gríðarlegan
vanda að stríða. Hann er samt svo
stór og áhrifamikill í hagkerfi ESB
að reynt verður að verja hann falli
fram í rauðan dauðann. Gallinn er
bara að Seðlabanki Evrópu er þegar
búinn að eyða svo gríðarlegu púðri
í að bjarga bönkum frá hruni, m.a.
með útgáfu ríkisskuldabréfa og
botnlausri peningaprentun þar sem
kostnaðinum er á endanum velt út í
samfélagið. Þær ráðstafanir reyndust
samt ekki vera sú innspýting sem
dugði til að koma hagkerfum stærstu
þjóða sambandsins á alvöru snúning.
Vandséð er að stjórnmálamenn treysti
sér til að leggja þar enn meiri byrðar
á almenning til að bjarga forríkum
fjármálabröskurum ef allt fer aftur á
versta veg í bankakerfinu. Slíkt gæti
hreinlega leitt til uppreisnar meðal
almennings.
Bakdyrastyrkveitingar í formi
neikvæðra vaxta
Beinar peningagreiðslur úr sjóðum
almennings til banka í þeim löndum
sem búa við fársjúkt bankakerfi
er ekki vinsæl pólitísk aðgerð.
Það má með nokkrum sanni segja
að með þeirri stefnu að setja á
neikvæða stýrivexti eins og gert
hefur verið í Evrópu, sé verið að
blekkja almenning með því að fara
bakdyraleiðina í ríkisstyrkjum.
Þetta er í raun ekkert annað en
styrkveiting til bankanna þar sem
neikvæðum vöxtum er ætlað að
flytja raunverðmæti frá almenningi
og fyrirtækjum inn í bankakerfið til
að greiða niður hallann í kerfinu.
Reynslan virðist hins vegar vera að
leiða það í ljós að þetta fikt í stjórnun
hagkerfisins og tilraunastarfsemi
getur snúist upp í andhverfu sína.
Er Deutsche Bank
næsti Lehman Brothers?
Í umfjöllun James Rasmus í Global
Reseatch 5. júlí síðastliðinn, er
spurt; Er Deutsche Bank næsti
Lehman Brothers? Sem kunnugt
er var fall Lehman Brothers í
Bandaríkjunum sú þúfa sem sem
kom af stað dómínóáhrifum í falli
banka um allan heim haustið 2008.
Í dag er staða evrópskra banka
jafnvel enn hættulegri en 2008, enda
hafa þeir allar götur síðan verið
að velta á undan sér billjóna evra
lánastabba sem óvíst er hvort nokkru
sinni fáist greidd.
Þann 7. júlí var kynnt mikil
endurskipulagning á starfsemi
Deutsche Bank. Búist var við að 20
þúsund starfsmönnum yrði sagt upp
og að bankinn reyndi að selja eignir
heilu deildanna. Þá hefur bankinn
átt í stórkostlegum erfiðleikum í
Bandaríkjunum þar sem hann hefur
mátt sæta því að greiða risavaxnar
sektir vegna fjármálamisferla.
Deutsche Bank fór í kapphlaup við
bandaríska fjárfestingabankarisana
Goldman Sachs og Morgan Stanley
fyrir nokkrum árum í tilraun til
að yfirtaka bandaríska bankann
Bankers Trust en tapaði því stríði.
Er bankinn þegar byrjaður að draga
sig út af Bandaríkjamarkaði og úr
fleiri hagkerfum og einbeitir sér
að Þýskalandi. Þetta er flókið mál,
því þegar svona risi fer af stað í
umfangsmikla eignasölu þá geta
fylgt því umtalsverðar afskriftir. Það
mun skekja innviði bankans.
Segir að næsta fjármálakreppa
muni fljótlega skella á Evrópu
Í umfjöllun Global Research segir
að næsta fjármálakreppa muni
fljótlega skella á Evrópu. Deutsche
Bank sé í raun þegar kominn í
þrot og þarfnist aðstoðar. Ein leið
til að búa til tryggingu fyrir slíkri
björgun (bail out) sé að bankinn
verði þvingaður til að sameinast
öðrum stórum banka. Þetta hafi
þýska ríkisstjórnin reyndar þegar
reynt með því að sameinast hinum
þýska Commerz bank, en það hafi
mistekist. Önnur leið sé að selja
eignir bankans. Slík brunaútsala
hafi verið í undirbúningi. Þriðja
leiðin er að búa til nýjan banka við
hlið Deutsche Bank sem taki við
öllum vafasömu lánavöndlunum
sem ólíklegt er að fáist nokkru sinni
greidd. Slíkt er þekkt aðferðarfræði
(ekki síst á Íslandi) þar sem
hliðarfyrirtækið er síðan látið fara
í þrot, en gamla kennitalan heldur
áfram rekstri eins og ekkert sé. Segir
í grein Global Research að slíkar
aðgerðir sé nú verið að framkvæma
hjá ítölskum bönkum. Hins vegar
sé ekki víst að þessi aðferð dugi
í tilfelli Deutsche Bank. Verð á
hlutabréfum í bankanum hafi verið í
frjálsu falli og í byrjun júlí voru bréf
í bankanum komin niður í 7 dollara
á hlut. Lítið þurfi til að hluturinn
falli niður í 0 líkt og gerðist hjá
Lehman Brothers í vikunum fyrir
hrun. Líkt og Lehman Brothers árið
2008, þá er Deutsche Bank með
gríðarlega áhættusamt eignasafn
afleiðusamninga sem getur valdið
alþjóðlegum „smitáhrifum“ ef staða
þeirra samninga versnar hratt. Það
gæti hæglega gerst ef reynt verður að
setja þau lán inn í nýjan hliðarbanka.
Billjónir í vafasömum pappírum
Deutsche Bank átti í júlí í 45
billjóna afleiðuviðskiptum við
aðrar fjármálastofnanir. Hafa
greiningaraðilar einmitt verið að
bera það saman við stöðuna hjá
Lehman Brothers fyrir hrun. Líkt
og Lehman er afleiðusambandið
sögulegur farvegur fyrir smit og
þar sem verðmæti hruns flyst yfir á
aðrar fjármálastofnanir. Það myndi
síðan í tilfelli Deutsche Bank leiða til
almennrar lánsfrystingar á mörgum
fjármálamörkuðum í Evrópu.
Global Research segir að það
sé síðan önnur spurning hvort
Seðlabanki Evrópu hafi yfirhöfuð
afl til að bjarga Deutsche Bank ef
á þurfi að halda. Seðlabankinn sé
nú í mun verri stöðu en hann var
árið 2008. Stefna bankans frá 2014
hefur verið að halda stýrivöxtum
neikvæðum í tilraun til að koma
hagkerfinu af stað. Á þeim
forsendum er t.d. dönskum bönkum
nú kleift að bjóða 0 eða jafnvel
neikvæða vexti á fasteignalánum.
Ef Seðlabanki Evrópu þarf að
ausa út fé til að bjarga Deutsche
Bank, þá gæti það aukið enn við
þá fjármálakreppu sem er þegar til
staðar í Evrópu. Það gæti leitt til þess
að Seðlabankinn neyddist til að fara
út í enn meiri seðlaprentun og bjóða
enn neikvæðari vexti. Neikvæðir
vextir eru þegar á 64–69% allra
ríkisskuldabréfa í Evrópu samkvæmt
grein Global Research.
Aukið eftirlit Seðlabanka Evrópu
Sabine Lautenschläger, sem situr
í stjórn Seðlabanka Evrópu, sagði
á fundi í Sydney í Ástralíu þann
13. febrúar sl. að fjármálavandi á
einum stað í heiminum gæti fljótt
breiðst út. Til að draga úr áhættunni
hafi Seðlabanki Evrópu tekið upp
eftirlit með bönkum á evrusvæðinu
árið 2014. Sagðist hún hafa heyrt
margar efasemdaraddir um að þetta
gæti virkað. Þetta hafi þó verið sett
af stað og fjórum árum seinna virðist
þessi vinna ganga vel, en hafi þó
reynst vera mjög erfitt. Til að byrja
með hafi verið ráðnir 1.000 manns til
verksins. Nú sé haft eftirlit með 120
stórum bönkum og því eigi menn
fljótt að geta séð ef vandamál séu í
uppsiglingu.
Vandi evrópskra banka
er taprekstur
Sabine Lautenschläger viðurkenndi
hins vegar í ræðu sinni að evrópskir
bankar ættu við arðsemisvanda að
stríða. Það þýðir á mannamáli að
þeir eru að glíma við taprekstur.
Margvísleg utanaðkomandi áhætta
blasi við hjá bönkum á evrusvæðinu
eins og slæm lán sem ekki eru
í skilum. Sagði hún að snemma
á árinu 2015 hafi evrópskar
fjármálastofnanir verið með 1
billjón af „slæmum“ lánum í sínum
efnahagsreikningum. Þetta skapaði
vandamál sem næði langt út fyrir
bankana. Því stærra hlutfall sem
bankar eru með bundið í slæmum
lánum, því erfiðara eiga þeir með
að lána peninga.
„Ekki búast við kraftaverki“
Hún bendir á að vandinn sé
einnig sú menning sem viðgangist
innan bankakerfisins. Tilhneiging
stjórnenda sé að ráða til sín fólk
sem er á sömu skoðun og með sömu
sýn á hlutina. Það þýði einsleitni í
rekstri og að menn vari sig síður
á hættunum. Þess vegna telur hún
að eftirlit Seðlabanka Evrópu sé
mikilvægt.
„Við skulum samt ekki búast við
kraftaverki. Menning er fyrirbæri
sem erfitt er að eiga við og breytist
hægt.“
Hlutabréf í Deutsche Bank í
sögulegu lágmarki
Það nýjasta í málefnum Deutsche
Bank er að eftir stærstu endur
skipulagningu sem hafin var í júlí
virðist gæfan hafa snúist gegn
forstjóranum Christian Sewing.
Eða í öllu falli hefur þýski
markaðurinn gert það að mati
Bloomberg. Í grein í þeim miðli
föstudaginn 16. ágúst var greint frá
því að hlutabréf í bankanum hafi þá
fallið í sögulega lægð sem þýði að
Þýskaland dansar á mörkum nýrrar
bankakreppu. Endurskipulagningin
þar sem áherslan var dregin
frá fyrirtækjum á Wall Street
að útflutningsfyrirtækjum í
Þýskalandi hafi komið á mjög
vondum tímapunkti. Vegna
viðskiptastríðs Bandaríkjanna
við Kína séu stóru þýsku
iðnframleiðendurnir, Daimler
AG, BASF SE, Continetal AG og
Henkel AG, að draga saman seglin.
Enn frekari samdráttur gefi ekki
svigrúm fyrir nein mistök.
Niðurkeyrsla í þýsku efnahagslífi
muni gera endurreisn Deutsche
Bank mjög erfiða. Bankinn hefur
verið með um 44% af veltu sinni í
Þýskalandi, 21% í Bandaríkjunum,
16% í Bretlandi og 19% í öðrum
löndum.
18.000 starfsmenn reknir
Við flótta Deutsche Bank af
markaðinum í Wall Street var
ákveðið að segja upp 18.000
starfsmönnum. Eftir fimm vikna
samningaviðræður í mars og apríl
um hugsanlega sameiningu við
Commerzbank AG í Berlín stóð
Christian Sewing upp og batt enda
á þær viðræður.
Hlutabréf í Commerzbank
hafa líka verið í frjálsu falli að
undanförnu. Eigi að síður er talað
um að báðir þessir bankar séu vel
fjármagnaðir, hvað sem það þýðir
í raun.
Er nú búist við að Seðlabanki
Evrópu lækki neikvæða stýri vexti
enn frekar, þvert á orð stjórn
armannsins Sabine Lautenschläg
fyrr á árinu. Er það talið mjög
líklegt í viðleitni við að draga úr
skaða af risastórum lánastabba
sem þýsku bankarnir sitja nú uppi
með en munu líklega aldrei fást
greidd.
Lífræn hreinsistöð
• Fyrirferðalítil fullkomin
sambyggð skolphreinsistöð
• Uppfyllir ýtrustu kröfur um
gæði hreinsunar
• Engin rotþró eða siturlögn
25 ára ábyrgð
• Tæming seyru á þriggja til
fimm ára fresti
• Engir hreyfanlegir hlutir
• Stærðir frá 6 – 55 persónueiningar
Tunguhálsi 10 - 110 Reykjavík
Sími 517 2220 - petur@idnver.is
G
ra
fik
a
19
Sabine Lautenschläger situr í stjórn Seðlabanka Evrópu.