Bændablaðið - 29.08.2019, Page 24

Bændablaðið - 29.08.2019, Page 24
Bændablaðið | Fimmtudagur 29. ágúst 201924 Nýr kafli í skólastarfi Hallorms­ staða skóla er að hefjast, þar sem Húsmæðraskólinn á Hallormsstað hóf sína starfsemi fyrir 90 árum. Inntakið í náminu hefur ætíð verið í nánum tengslum við náttúruna og náttúruleg hráefni. „Nýja námið okkar er bæði verklegt og bóklegt, þverfaglegt og krefjandi, þar sem fengist er við hin stóru viðfangsefni nútímans á sviði matarfræði og textíls með áherslu á sjálfbærni og sköpun,“ segir Bryndís Fiona Ford, skólameistari Hallormsstaðaskóla, sem staðsettur er í miðjum stærsta skógi landsins, Hallormsstaðaskógi. Bryndís segir meginmarkmið námsins að mennta nýja kynslóð fagfólks sem getur unnið þvert á fræði og faggreinar, hefur haldgóða þekkingu og færni á sviði sjálfbærni og sköpunar með áherslu á nýtingarmöguleika auðlinda. „Markmið okkar er að gera nemendur meðvitaða um hvaðan hráefni kemur, hringrás hráefna og siðfræði náttúrunytja. Við leggjum áherslu á að nemendur öðlist færni til að fullnýta hráefnin með viðurkenndum aðferðum og að sjá nýja og skapandi möguleika við nýtingu þeirra á sjálfbæran og skapandi hátt,“ segir Bryndís. Sjálfbær nýting hráefna á faglegan og framsækinn hátt Grunnhugmyndafræði skólans er sjálfbær nýting hráefna á faglegan, framsækinn og skapandi hátt. „Sjálfbærni er lykilhugtak í allri framtíðarsýn og hefur sjaldan verið jafn mikilvægt að hver og einn taki ábyrgð og tileinki sér sjálfbæra hugsun á sem flestum sviðum. Slíkt er í takt við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem eru margþætt og metnaðarfull og krefjast þátttöku og samstarfs ólíkra hagsmunaaðila,“ segir Bryndís. Hún segir að í raun hafi starfsemi skólans alla tíð byggt á þessari hugmyndafræði sem nú er yfirlýst stefna hans. „Í skólanum skapast einstakar vinnuaðstæður til að meðhöndla og vinna hráefni þar sem gamli tíminn mætir nútímatækni. Við leggjum áherslu á sjálfstæða verkefnavinnu nemenda og að þeir tileinki sér skapandi og gagnrýna hugsun þar sem handverk og fræði eru tengd saman. Hugað er sérstaklega að nýtingu hráefna á sjálfbæran hátt með hagsmuni neytenda og náttúruauðlinda að leiðarljósi. Námið sjálfbærni og sköpun (e. creative sustainability) á sér til að mynda fyrirmynd í Aalto-háskólanum í Finnlandi og á vonandi eftir að verða meira áberandi í framtíðinni á fleiri sviðum en matarfræði og textíls,“ segir hún. Námið í skólanum er að stórum hluta byggt upp á MasterClass þar sem sérfræðingar leiðbeina nemendum um vinnsluaðferðir og nýtingarmöguleika. Námið er á fjórða hæfniþrepi sem gerir miklar kröfur til nemenda um fagmennsku og sjálfstæði, auk þess sem skapandi og gagnrýnin hugsun er leiðarljós í námi þeirra. Nýtist öllum sem vilja hafa áhrif Bryndís segir að á Austurlandi séu endalaus tækifæri og möguleikar til nýsköpunar í textíl- og matvælaframleiðslu. „Í Hal lormsstaðaskóla er öflugur vettvangur fyrir einstaklinga sem vilja skapa ný tæki færi, prófa sig áfram, þróa og tengja saman fræði og fram- kvæmd með sjálfbærni og sköpun að leiðarljósi. Viðfangsefnin eru þess eðlis að hver og einn getur nýtt fyrri reynslu og menntun til verkefna vinnu og nýsköpunar. Námið er þverfaglegt og getur nýst öllum þeim sem vilja hafa áhrif og þeim sem vilja taka áskorun um stærri hnattræn verkefni,“ segir hún. /MÞÞ LÍF&STARF Nýr kafli í skólastarfi Hallormsstaðaskóla er að hefjast: Viðfangsefnin á sviði matarfræði og textíls Bryndís Fiona Ford, skólameistari Hallormsstaðaskóla. Nýr kafli í skólastarfi Hallormsstaðaskóla er að hefjast, þar sem Húsmæðraskólinn á Hallormsstað hóf sína starfsemi fyrir 90 árum. Hráefni úr nærumhverfi leikur stórt hlutverk í náminu. Fjöldinn allur af áhugaverðum námskeiðum í boði: Hvít- og blámygluostagerð, súrdeigsbakstur, súrkál, kimchi og fataviðgerðir og vefnaður Fjölmörg áhugaverð MasterClass verða á haustönn, þar má nefna súrdeigsbakstur, súrkálsgerð og mygluostagerð. En bakteríur í hráefni (sýring) verður sértakt áhersluviðfangsefni á matar fræði­ sviði skólans. Sífellt kemur betur í ljós að fæðan og innihald hennar eru snauð af góðgerlum og að mikilvægi þeirra fyrir líkamlega og andlega heilsu er meira en áður var talið. Þá nefnir Bryndís að landsliðið í kjötiðn verði með MasterClass í lok október þar sem unnið verður með austfirskt hráefni og segir hún mikið tilhlökkunarefni að fá þessa fagmenn á svæðið. Tvö vefnaðarnámskeið á haustönn Á textílsviði skólans verður vefnaður í hávegum hafður enda löng hefð og saga fyrir vefnaðarlist í skólanum. Í byrjun haustannar verður farið í jurtalitun, auk þess verður MasterClass í fataviðgerðum í nóvember. Tvö vefnaðarnámskeið verða á haustönn, hið fyrra stendur yfir í fjórar vikur í september þar sem Outileena Uotila, vefnaðarsérfræðingur og textíllistakona frá Finnlandi, kennir. Á námskeiðinu verður farið í ýmsar vefnaðaraðferðir með sjálfbæra hönnunarhugsun að leiðarljósi. Markmiðið er að hanna og vefa klassíska hluti t.d. værðarvoð, trefil eða sjal. Ánægjan við sköpunarferlið er rauði þráðurinn í námskeiðinu. Seinna námskeiðið verður haldið 4.–8. nóvember. Ragnheiður Björk Þórsdóttir, vefnaðarsérfræðingur og textíllistakona, fer yfir gömul munstur úr Vefnaðarbók Sigrúnar P. Blöndal. Aðallega verða skoðaðar bindingar sem Sigrún kallaði einu nafni ullareinskeftu, einnig vaðmálsbindingar úr einbandi eins og tími leyfir. Örfá laus pláss eru á þessi tvö MasterClass. Hvít- og blámygluostagerð MasterClass í hvít- og blámygluostagerð með Þórarni Agli Sveinssyni mjólkurverkfræðingi verður 18.–19. september. Þórarinn Egill var með námskeið í heimavinnslu mjólkurafurða síðasta vor þar sem þátttakendur bjuggu til skyr, jógúrt og ferska osta. Bryndís segir að mest hafi verið unnið með kúamjólk en skemmtilegt líka að fá geitabændur með geitamjólk og einn þátttakandi vann með sauðamjólk. Á námskeiðinu nú í haust fer Þórarinn Egill í aðferðir við mygluostagerð. Þar er gefin innsýn í smásæjan heim gerla og hvata og nýtingu þeirra í framleiðslu. Góðir og vondir gerlar verða ræddir, hvað beri að forðast og hvað skuli kalla fram. Fjallað verður um tæki, tól og aðstöðu sem þarf til heimavinnslu í ostagerð. Þátttakendur framleiða ost sem þeir taka með heim og fóstra þar til hann er tilbúinn til neyslu. Súrdeigsbakstur vinsæll Tveggja daga námskeið verður dagana 9.–10. september með Gústa bakara, eiganda Brauð&Co, sem er fyrrum nemandi skólans. Súrdeigsbakstur er gömul aðferð og hefur náð miklum vinsældum síðustu ár. Þetta er í annað sinn sem Gústi kemur og miðlar af þekkingu sinni um gæði hráefna og aðferðir í súrdeigsbakstri. Eins og síðast fylltist námskeiðið á sólarhring og ljóst að mikil eftirspurn er eftir þessari þekkingu. Súrkál er sælkerafóður Súrkál og annað gerjað grænmeti sem er stútfullt af góðgerlum og annarri hollustu og svo er það líka sannkallað sælkerafóður. Matvæli hafa verið súrsuð í aldaraðir og á síðustu árum hafa komið fram ýmsar rannsóknir um að gerjað grænmeti sé einn af lykilþáttum í að auka fjölbreytni í mataræði nútímamannsins. MasterClass verður 10. október þar sem Dagný Hermannsdóttir, höfundur bókarinnar Súrkál fyrir sælkera, kennir þátttakendum súrkáls- og kimchigerð. Búast má við að námskeiðið fyllist hratt. Lengja líftíma fatnaðar Þá má að lokum nefna að Lára Elísdóttir klæðskeri heldur MasterClass í fataviðgerðum dagana 11.–15. nóvember. Þar verður farið yfir hvernig má lengja líftíma fatnaðar með einföldum viðgerðum og breytingum. Einnig verður fjallað um gæði vefjarefna og ábyrg innkaup. Þátttakendur verða hvattir til að fara yfir skápa sína og mæta með flíkur sem vinna má með. /MÞÞ Meðal þess sem hægt verður að nema í Hallormsstaðaskóla nú á haustdögum er brauðbakstur. Heimavinnsla mjólkurafurða og ostagerð nýtur vinsælda, fyrirhugað er að halda námskeið í hvít- og blámygluostagerð í skólanum. Námskeið verður í jurtalitun.Tvö vefnaðarnámskeið verða í boði á haustönn.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.