Bændablaðið - 29.08.2019, Síða 42
Bændablaðið | Fimmtudagur 29. ágúst 201942
Ræktun á hirsi dróst mikið saman
á Vesturlöndum í kjölfar Grænu
byltingarinnar. Í dag er það mest
ræktað á þurrkasvæðum í Afríku
og Asíu þar sem uppskerumeiri
tegundir þrífast ekki. Hirsi
tengist umsátrinu um Jerúsalem
og hungursneyðinni sem því
fylgdi sem fjallað er um í Gamla
testamentinu þar sem Guð mælir
til huggunarspámannsins Esekíel.
Erfitt er að geta sér til um
hversu mikið magn af hirsi er
ræktað í heiminum. Hirsi er heiti á
fræjum sem unnin eru úr mörgum
grastegundum sem mest eru
ræktaðar í löndum þar sem söfnun
tölfræðiupplýsinga er takmörkuð og
iðulega vafasöm. Gróflega áætluð
heimsframleiðsla af hirsi árið 2018
er rétt tæp 27 milljón tonn en er
líkast til talsvert meiri.
Uppskera milli ára er
sveiflukennd en hefur smám saman
verið að aukast. Árið 2014 var
framleiðslan áætluð 25,6 milljón
tonn en 27,3 milljón tonn 2015,
árið 2016 dróst framleiðslan saman
í 25,5 milljón tonn. Hún jókst í um
28,9 milljón tonn 2017 en fór niður
í 26,7 milljón tonn árið 2018.
Indland ber höfuð og herðar yfir
önnur lönd þegar kemur að ræktun
og framleiðslu á hirsi með rúmlega
1/3 heimsframleiðslunnar, eða
rúm 10,9 milljón tonn árið 2017,
samkvæmt heimildum FAOSTAD.
Í Nígeríu er áætluð framleiðsla 5
milljón tonn árið 2017, rúm 2,9
milljón tonn í Níger og í Kína sem
er í þriðja sæti rúm 1,6 milljón tonn.
Afríkuríkin Malí, Búrkína Fasó,
Súdan Eþíópía, Tsjad og Senegal
fylgja þar á eftir með framleiðslu á
rúmum 1,1 milljónum tonna niður í
572 þúsund tonn.
Viðskipti með hirsi milli landa
eru takmörkuð þar sem mest er
notað af því á innanlandsmarkaði
í hverju framleiðslulandi fyrir sig,
annaðhvort sem skepnufóður eða
til manneldis.
Samkvæmt upplýsingum á vef
Hagstofu Íslands voru flutt inn 374
kíló af hirsifræjum frá Belgíu árið
2018 og eitt tonn og 93 kílóum betur
til manneldis. Þar af 150 kíló frá
Danmörku og 943 kíló frá Póllandi.
Auk þess sem það er flutt inn sem
fuglafóður.
Hirsigras
Hirsi er samheiti yfir fjölda gras
tegunda sem tilheyra mörgum
ættkvíslum sem ræktaðar eru víða
um heim vegna fræjanna. Mest er
ræktunin á svæðum þar sem þurrkar
eru langvarandi og jarðvegur rýr í
löndum í Asíu og Afríku.
Ekki er vitað hversu margar
tegundir grasfræja flokkast sem hirsi
enda geta nánast allar grastegundir í
heiminum sem nýttar eru á einhvern
hátt flokkast sem hirsi.
Algengastar þeirra eru
fingurhirsi, Eleusine coracana, teff,
Eragrostis tef, prosohirsi, Panicum
miliaceum, smáhirsi P. sumatrense,
perluhirsi, Pennisetum glaucum,
refaskottshirsi, Setaria italica, og
ýmsar tegundir af ættkvíslunum
Digitaria, Echinochloa, Paspalum,
Brachiaria og Urochloa. Auk þess
sem Dúrra, Sorghum bicolor, er
stundum kölluð risahirsi og tár Jobs,
Coix lacrymajobi, adleyhirsi.
Grastegundirnar sem flokkast
sem hirsi eiga það sammerkt að fræ
þeirra eru minni en tegunda sem
flokkast sem korn. Stærð hirsifræja,
eða hirsikornsins eins og þau eru
stundum kölluð, eru mismunandi
milli tegunda og geta verið mjög
smá en eru yfirleitt stærri hjá
tegundum sem hafa verið lengst í
ræktun. Fræið berst auðveldlega
með fuglum og minnstu fræin geta
borist langar leiðið með vindi.
Flestar hirsigrastegundirnar eiga það
sameiginlegt að vera, harðgerðar,
hita og þurrkþolnar og dafna í
næringarsnauðum jarðvegi.
Flestar tegundirnar eru einærar
og eru frá 30 til 150 sentímetrar
að hæð, einstaka tegundir eins og
perluhirsi ná allt að þriggja metra
hæð og með stöngul sem nær 2,5
sentímetrum í þvermál.
Hirsigrös blómstra og bera fræ
í axi eða punti sem eru misstórir
eftir tegundum og eru vind og
sjálffrjóvgandi. Eftir frjóvgun
myndast fræin í axi eða punti og er
fræfestan meiri í tegundum í ræktun
en villtum. Stafar þetta af því að
plöntur með góða fræfestu hafa
frekar verið valdar til áframræktunar
en þær sem fella fræið við minnsta
andblæ.
Við fornleifarannsóknir er
fræfesta korntegunda meðal annars
notuð til að ætla hvort um villta eða
ræktaða plöntu sé að ræða.
Uppskera hirsikorna eru mun
minni og nærefnainnihald þeirra er
einnig minni en þeirra korntegunda
sem mest eru ræktaðar. Þar sem hirsi
er ræktað við góðar aðstæður tekur
það vel við áburðargjöf.
Nokkrar hirsitegundir
Perluhirsi er upprunnið á gresjum
Afríku þar sem það hefur verið
ræktað í ómunatíð og er mikið
ræktað enn í dag. Á Indlandi
kallast plantan bajra og lengi verið
ræktuð til manneldis og sem fóður á
þurrum svæðum þar sem jarðvegur
er næringarsnauður. Plantan er
hávaxin og nær fullum þroska á 80
til 90 dögum við góðar aðstæður.
HELSTU NYTJAJURTIR HEIMSINS
Hirsi og brauðið hans Esekíel
Vilmundur Hansen
vilmundur@bondi.is
Fræ refaskottshirsis eru smá og plantan talsvert ræktuð til heyfóðurs fyrir húsdýr, nautgripi og sauðfé í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu. Fræin eru nýtt til manneldis í Kína og víðar í Asíu.
Hirsifræ geymast í allt að áratug við góðar aðstæður.