Bændablaðið - 29.08.2019, Qupperneq 43
Bændablaðið | Fimmtudagur 29. ágúst 2019 43
Prosohirsi er fljótsprottið og nær
fullum þroska á 60 til 90 dögum eftir
sáningu. Prosohirsi er mikið notað
sem páfagaukafóður á Vesturlöndum
en í Asíu og Austur-Evrópu er þess
neytt sem morgunkorns og notað
sem húsdýrafóður. Plantan barst til
Bandaríkja Norður-Ameríku á 18.
öld og í fyrstu ræktuð í ríkjum á
austurströndinni en síðar í Norður
og Suður-Dakota þar sem hún er
enn talsvert ræktuð. Auk þess sem
plantan er mikið ræktuð í Kína og
Rússlandi.
Fræ refaskottshirsis eru smá
og plantan ræktuð sem heyfóður
fyrir húsdýr, nautgripi og sauðfé í
Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu.
Fræin eru nýtt til manneldis í
Kína og víðar í Asíu en sem fóður
fyrir hænsni og skrautfugla á
Vesturlöndum. Í gegnum aldirnar
hafa orðið til ólíkar landsortir af
refaskottshirsi sem yfirleitt eru
kennd við landið sem sortirnar hafa
þróast í.
Fingurhirsi er mikilvæg fæðu-
planta í Suðaustur-Asíu og víða í
Afríku.
Ræktun Japanshirsi, E. coracana,
var til skamms tíma nánast eingöngu
bundin við Japan til manneldis en í
dag er það ræktað sem húsdýrafóður
í Bandaríkjum Norður-Ameríku.
Smáhirsi er nánast eingöngu
ræktað til manneldis á Indlandi.
Saga
Ekki er hægt að segja til um uppruna
söfnunar á fræjum eða ræktun
hirsis þar sem ekki er um eina
tegund að ræða. Til eru þeir sem
segja að hirsigrös séu með elstu
ræktunarplöntum mannkyns og að
rekja megi upphaf ræktunar þeirra
12.000 ár aftur í tímann í Afríku og
Asíu. Aðrir segja að elstu heimildir
um ræktun hirsigrass séu frá Kína
en árið 2005 fundu kínverskir
fornleifafræðingar 6000 ára gamla
leirskál með leifum af núðlum úr
refaskottshirsi. Hirsikorn hefur líka
fundist við rannsóknir á gömlum
kornhlöðum og í niðurgröfnum
kornpyttum í Kína og þar hafa
fundist leifar af þúsaldargömlum
hirsimjölskökum.
Í kínverskum ræktunar-
leiðbeiningum sem kallast Fan Shen
Chin Shu og eru frá því um 2800
fyrir Krist er að finna nákvæmar
ræktunarleiðbeiningar og
leiðbeiningar um geymslu á korni.
Í ritinu er hirsi talið upp sem ein
af fimm helgum gagnjurtum Kína
ásamt sojabaunum, hrísgrjónum,
hveiti og byggi. Telja sumir að
ræktun á hirsi eigi sér lengri sögu
en ræktum á hrísgrjónum í Kína.
Minjar benda til að hirsi hafi
verið ræktað á Kóreuskaga 3500
til 2000 árum fyrir Krist. Hirsis
er getið í indversku helgiritunum
Yajurveta sem sögð eru vera frá
1200 til 1000 fyrir okkar tímatal.
Tegundirnar sem nefndar eru kallast
priyangava, aanava og shyaamaka
í ritinu en talið er að þar sé átt
við refaskottshirsi, hlaðhirsi, E.
esculenta og fingurhirsi.
Marko Polo sagði að þjóðir undir
stjórn Gengis Khan liðu aldrei skort
þar sem þær ræktuðu hrísgrjón og
hirsi og vísaði hann sérstaklega til
Tatara í Rússlandi, Kínverja og íbúa
Mið-Asíu. Segir hann þjóðirnar
sjóða kornið en ekki baka í brauð.
Egyptar til forna ræktuðu hirsi
í Saharaeyðimörkinni fyrir 5000
árum og minjar benda til að hirsi
hafi verið ræktað í Grikklandi 3000
árum fyrir Krist. Gríska skáldið
Hesiod, sem var uppi 750 til 650,
segir að hirsi sem er sáð að sumri
dafni vel.
Gríski sagnfræðingurinn
Herodotus, uppi 484 til 425 fyrir
Krist, segir í riti að hirsið í löndum
Asseríu-manna vaxi svo hátt að
hann þori ekki að segja frá því af
hræðslu við að honum verði ekki
trúað. Gríski heimspekingurinn
Theophratus, uppi 300 fyrir Krist,
var fyrstur manna til að skrifa
skipulega um grasafræði í riti sínu
Historia Plantarum og skipir hann
plöntum í þrjá flokka tré, runna og
jurtir og er hirsi ein af tegundunum
sem hann telur til.
Minjar sýna að hirsi var ræktað í
Evrópu, þar sem Sviss er í dag, 1100
árum fyrir upphaf okkar tímatals.
Vitað er að Márar í Norður-Afríku,
sem voru upp á sitt besta á áttundu
öld, komust upp á lagið með að
rækta hirsi á monsúntímabilinu þar
sem það spíraði og óx hratt.
Rómverjar kölluðu hirsi milium
og suðu það í graut sem kallaðist puls
og líktist hafragraut. Karlamagnús
keisari, 742 til 814, skipaði svo fyrir
að hirsikorn skyldu geymd eftir
uppskeru og þeirra neytt á föstunni.
Hirsi var ræktað allt frá
sunnanverðum Arabíuskaga og allt
norður í lönd Gaulverja í Frakklandi
í eina tíð og neysla þess mun meiri
en hveitis og annarra korntegunda
sem við þekkjum í dag.
Esekíel bakari og umsátrið
um Jerúsalem
Hirsi er nefnt ásamt fleiri matvælum í
Esekíel 4:9-17 Gamla testamentisins
þar sem fjallað er um hungursneyð
í umsátrinu um Jerúsalem og Guð
mælir til huggunarspámannsins
Esekíel. „Taktu hveiti, bygg, baunir,
linsubaunir, hirsi og speldi, láttu það
allt í eina skál og gerðu þér brauð úr
því. Þú skalt hafa það til matar þrjú
hundruð og níutíu dagana sem þú
liggur á hliðinni. Það sem þú etur
dag hvern skal vega nákvæmlega
tuttugu sikla og þess skalt þú neyta
á ákveðnum tíma dagsins. Og þú
skalt mæla þér vatn til drykkjar,
nákvæmlega sjöttung hínar sem þú
skalt drekka á ákveðnum tíma dags.
Þú skalt baka brauðið við mannasaur
fyrir allra augum og neyta þess sem
væri það byggbrauð.“
Drottinn sagði enn fremur:
„Þannig munu Ísraelsmenn borða
óhreint brauð á meðal þeirra þjóða
sem ég mun hrekja þá til.“
Ég svaraði: „Æ, Drottinn Guð.
Ég hef aldrei verið óhreinn. Frá því
í æsku minni og til þessa dags hef
ég aldrei lagt kjöt af sjálfdauðu eða
dýrrifnu mér til munns og skemmt
kjöt hefur aldrei komið inn fyrir
mínar varir.“
Þá sagði hann við mig: „Sjáðu,
ég leyfi þér að nota mykju í stað
mannasaurs til að baka við brauð
þitt.“
Hann sagði enn fremur:
„Mannssonur, nú brýt ég staf
brauðsins í Jerúsalem. Þeir sem
þar búa skulu eta nákvæmlega
vegið brauð kvíðafullir og drekka
nákvæmlega mælt vatn óttaslegnir
því að þá mun skorta bæði brauð
og vatn og þeir munu skelfast hver
með öðrum og veslast upp vegna
sektar sinnar.“
Talið er að hirsi hafi verið hluti
af daglegri fæðu Súmverja og
sagt er að það hafi vaxið á svölum
svalagarðanna í Babýlon.
Samkvæmt kínverskum sögnum
var það hinn goðsagnakenndi
keisari Shennong og ráðgjafi
hans, Hou Ji, en nafnið þýðir
hirsiherrann, sem fyrstir hófu
ræktun hirsis í Kína.
Dogon-fólkið í Malí segir
að forfaðir þess, sem var laginn
járnsmiður, hafi stolið hirsifræi af
stjörnubjörtum himninum. Mossi-
fólkið sem býr við Volta-fljótið í
Búrkína Fasó segir að kona sem
var reið vegna uppskerubrests hafi
veitt lítinn fugl sem hafði móðgað
hana og hafi ætlað að elda hann.
Konan setti fuglinn í búr áður en
hann átti að fara í pottinn. Fuglinn
skeit hirsifræjum í búrinu sem
konan setti niður og varð fólki
hennar til lífs og að launum sleppti
hún fuglinum frjálsum.
Hirsinytjar
Ræktun á hirsi dróst verulega
saman í kjölfar Grænu
byltingarinnar og þeirrar aukningar
í ræktun uppskerumeiri
korntegundar í kjölfar
hennar. Fyrir tíma Grænu
byltingarinnar var ræktun
á hirsikorni um 40% af
kornrækt heimsins og
talsvert meiri en á hveiti og
hrísgrjónum.
Þrátt fyrir að nytjar á hirsi hafi
dregist saman í Evrópu og víðar
um heim á síðustu áratugum er
hirsikorn sem samnefnari yfir fræ
margra grastegunda talið sjötta
mikilvægasta korntegundin í
ræktun og að það sé undirstöðufæða
hátt í 1/3 mannkynsins.
Hunsa-fólkið, sem býr í
Himalajafjöllum Pakistan, Indlands
og Kasmír, er þekkt fyrir góða heilsu
og langlífi. Að sögn heimamanna er
það hirsi, sem er undirstöðufæða þar
um slóðir, að þakka. Hirsið er bakað
sem flatbrauð sem kallast chapatti
og haft í súpur og hafragraut. Íbúar
Indlands baka einnig flatbrauð úr
hirsikorni.
Í Nepal og Tíbet er hirsi notað
til að brugga áfengan drykk sem
kallast raksi. Áfengi úr hirsi þekkist
einnig í Austur-Evrópu, Póllandi
og Ungverjalandi, og þar er það
líka notað í sætan hafragraut sem
kallast kasha.
Hirsi er mikið ræktað á
þurrum svæðum í Afríku þar sem
uppskerumeiri korntegundir þrífast
ekki. Þar er það haft í barnamat
og í hafragraut sem kallast uji.
Afríkubúar brugga bjór sem kallast
kaffir eða bantu úr hirsikorni og
nota plöntuna til að búa til sópa. Í
Eþíópíu er bakað flatbrauð úr teff
og kallast brauðið injera.
Í dag eru ýmsar hirsigrastegundir
ræktaðar til manneldis á þurrka-
svæðum og sem skepnufóður í
Bandaríkjum Norður-Ameríku
og Vestur-Evrópu. Vinsældir
hirsikorns á Vesturlöndum hafa
verið að aukast frá því á sjöunda
áratug síðustu aldar. Hirsi er nú á
tímum markaðssett sem glútenlaus
heilsufæða sem er ríkt af kolvetni.
Próteininnihaldið er breytilegt milli
tegunda.
Hirsikorn og mjöl hefur gott
geymsluþol og getur geymst
óskemmt í áratug á þurrum stað.
Hirsi á Íslandi
Íslendingar sem fluttu vestur um
haf og settust að í Vesturheimi fóru
ekki varhluta af hirsi og hirsirækt.
Árið 1910 segir í 34. árgangi
Íslendingatímaritsins Lögbergi
sem gefið er út í Winnipeg í
Kanada að: „Þegar gefa á kúm hirsi
(millet) þá verður að gæta þess að
slá það áður en fræ eru komin í
öxin. Fullþroskað hirsi getur orðið
ilt og hættulegt að gefa búpeningi.“
Í grein í Nýjum kvöldvökum,
7. árgangi 1934, segir Steindór
Steindórsson frá Hlöðum: „Af
korntegundum þeim, sem nú eru
að mestu ræktaðar utan Evrópu og
lítið neytt af Evrópuþjóðum, má
nefna: Hirsi, Negrahirsi og Dúrru.
Hirsi er nú einkum ræktað í
Mið-Asíu, norðurhluta Indlands,
Japan og Kína, en áður var það
ræktað víðs vegar um Evrópu, allt
norður á Norðurlönd. Var korn þess
bæði notað í brauð og grauta.
Negrahirsi er stórvaxin planta,
sem ræktuð er víðs vegar um Afríku
og notuð bæði í brauð og grauta. Hið
sama má segja um Dúrruna, sem er
önnur aðalkorntegund Afríkubúa.
En utan Afríku er hún ræktuð í
Kína, Suður-Evrópu, Indlandi og
Norður-Ameríku. Í Ameríku er
sykur unninn úr dúrrustönglum.
Negrahirsi er aftur á móti næstum
ekki ræktað utan Afríku.“
Hirsi hefur lengi verið á
boðstólum hér á landi sem
páfagaukafóður og sem fóður
sem fuglum er gefið úti á veturna.
Vinsældir þess sem heilsufæðu
hafa verið að aukast og er hirsi
talsvert notað í hafragraut og sem
matur fyrir börn.
Hirsi er víðast hvar uppskorið með höndum.
Prosohirsi er fljótsprottið og nær fullum þroska á 60 til 90 dögum eftir
sáningu. Í Asíu og Austur-Evrópu er þess neytt sem morgunkorns og notað
sem húsdýrafóður.
Perluhirsi er upprunnið á gresjum
Afríku þar sem það hefur verið
ræktað í ómunatíð og er mikið
ræktuð enn í dag.
Fingurhirsi er mikilvæg fæðuplanta
í Suðaustur-Asíu og víða í Afríku.
Hirsi þreskt.
Hirsiakur í Bangladess.
Hirsi er víða þekkt sem
páfa gaukafóður.