Bændablaðið - 29.08.2019, Page 53

Bændablaðið - 29.08.2019, Page 53
Bændablaðið | Fimmtudagur 29. ágúst 2019 53 Skeifunni 3h ll Sími: 588 5080 ll dynjandi.is Hjá Dynjanda færðu vandaðan endurskins- og regnfatnað, hanska, húfur og margt fleira. Hafðu samband. Við veitum þér faglega aðstoð. Það styttist í göngur og réttir LESENDABÁS Orkupakkar hækka raforkuverð Árið 2003 var fyrsti orkupakki Evrópusambandsins innleiddur í íslenska löggjöf en með honum fylgdi sú krafa að aðskilja skyldi orku dreifingu frá orkuframleiðslu. Þetta var gert undir því yfirskini að slík breyting myndi auka samkeppni á orkumarkaði, sem ætti að vera til hagsbóta fyrir neytendur. Raunin varð önnur og raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækkaði. Þegar orkuverð eftir þessa nýju löggjöf er rannsakað má sjá að þegar framleiðslan var aðskilin frá dreifingunni hækkaði orkuverð snögglega, eða um 10%. Þessa hækkun má því beintengja við fyrsta orkupakkann og breytingar sem honum fylgdu. Í nýlegri skýrslu sérfræðinefndar Orkunnar okkar kemur fram að meðaltalshækkun á raforku frá 2003 er að raunvirði 7-8% þegar horft er á landið sem heild. Fjöldi landsmanna hefur hins vegar fundið á eigin skinni fyrir mun meiri hækkun á raforkuverði. Nú stendur Ísland frammi fyrir því að innleiða þriðja orkupakkann og enn á ný eru það neytendasjónarmið sem ríkisstjórnin otar að almenningi. Þegar borið er saman verð milli dýrustu og ódýrustu orkusölufyrirtækjanna kemur í ljós að sá afsláttur sem á að vera í boði, að sögn stjórnvalda, er svo lítill að ekki svarar kostnaði og fyrirhöfn að skipta um orkusala og er afslátturinn auk þess ekki nægur til að dekka þá kostnaðaraukningu sem fylgdi fyrsta orkupakkanum. Þetta hafa Neytendasamtökin staðfest. Þau neytendasjónarmið sem landsmönnum var lofað hafa því brugðist og því er undarlegt að sömu rök séu nú notuð aftur fyrir þriðja orkupakkann. Sló þá þögn á þingmennina Þeir sem hafa fundið einna mest fyrir hækkun á raforkuverði vegna innleiðingar orkupakka ESB er það fólk sem býr á köldum svæðum á Íslandi. Tveimur árum eftir að fyrsti orkupakkinn var innleiddur hafði raforkuverð til húshitunar á veitusvæði Hitaveitu Suðurnesja (nú HS Orku) hækkað á bilinu 74–96%. Þetta þekki ég af eigin raun, búandi á köldu svæði á Suðurnesjum. Ástæðan var sú að Hitaveitan niðurgreiddi sérstaklega raforku til húshitunar. Orkupakkinn stóð í vegi fyrir þessari niðurgreiðslu og var hún því felld niður. Maður spyr sig, hvað kom embættismönnum í Brussel það við að raforka hafi verið sérstaklega niðurgreidd til húshitunar hér á landi? Ég benti á þessa staðreynd í umræðu á Alþingi og var þá sakaður um að fara með rangt mál af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Ég brá þá á það ráð að sýna umræddum þingmönnum gamla raforkureikninga, fyrir og eftir innleiðingu orkupakka eitt, máli mínu til stuðnings. Sló þá þögn á þingmennina, en þeir báðust ekki afsökunar á orðum sínum. Þetta eitt og sér sýnir að þeir þingmenn sem styðja innleiðingu orkupakka ESB svífast einskis í málflutningi sínum. Óskiljanlegt er hverra erinda þeir ganga á Alþingi og hvaða hagsmunir kunna að búa að baki. Búast má við enn meiri hækkun á orkuverði fari svo að þriðji orkupakkinn verði samþykktur og áform fjárfesta um sæstreng verði að veruleika. Embættismenn í Brussel eiga ekki að ráða för í raforkumálum Íslendinga Ríkisstjórnin er í fullkominni afneitun um slæmar afleiðingar af innleiðingu orkupakka ESB fyrir almenning og fyrirtækin í landinu. Íslendingar eiga ekkert sameiginlegt með orkumálum ESB og eiga að fara fram á undanþágu. Það er gert með því að vísa málinu til sameiginlegu EES- nefndarinnar. Það er okkar samningbundni réttur og fullyrðingar ríkisstjórnarinnar um að þá verði EES-samningurinn í uppnámi er hræðsluáróður af verstu gerð. Í EES-samningnum segir að vísa beri ágreiningsmálum til nefndarinnar. Hvernig getur það verið ógn við EES-samninginn að það sé farið eftir honum? Enginn fræðimaður hefur getað svarað spurningunni hvernig það brýtur í bága við samninginn að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Íslendingar eru sjálfstæð þjóð í harðbýlu landi og eiga ekki að láta embættismenn í ESB ráða því hvernig við nýtum okkar mikilvægu raforkuauðlind eða verðleggjum hana. Atkvæðagreiðslan á Alþingi um þriðja orkupakkann fer fram 2. september nk. Þá kemur í ljós hvaða þingmenn standa með þjóðinni. Birgir Þórarinsson Höfundur er þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Íslensk framleiðsla á Bílskúrs- og Iðnaðarhurðum 564-0013 | 865-1237 Birgir Þórarinsson. Akstur með börn í skólabílum Árlega berast margar fyrir­ spurnir um öryggi barna í skóla bílum. Ég ætla í þessum pistli að reyna að útskýra hvernig má ferja börn á sem öruggastan hátt í rútum. Í lok 1990 voru gerðar meiri kröfur um öryggi farþega í rútum hjá Evrópusambandinu en þær reglur gilda einnig hér á landi. Meðal annars kváðu þessar reglur um að rútur yrðu útbúnar með öryggisbeltum. Reglurnar voru innleiddar í tveimur stigum. Árið 1998 var gerð krafa um að allar litlar rútur kæmu á markað með beltum en þremur árum síðar allar stærri rútur. Vandamálið er að oft eru bílbeltin ekki þriggja punkta heldur einungis tveggja punkta. Veldur þetta bílstjórum og foreldrum miklum höfuðverk þegar kemur að öryggi barna. Sá aðili sem pantar þessa þjónustu, sem er oftast sveitarfélagið, á að sjálfsögðu að taka tillit til barna og panta einungis rútur með þriggja punkta beltum. Þannig er hægt að tryggja öryggi yngri barna á sem bestan hátt og að þau geti notað viðeigandi öryggisbúnað. Þetta er því miður ekki alltaf raunin og þá koma upp vandamál eins og að barn sem notar venjulega sessu með baki getur ekki notað hana því hana er einungis hægt að nota í bíl með þriggja punkta belti. Ef rútan sem flytja á barnið í er einungis með tveggja punkta beltum þá á barnið einungis að nota tveggja punkta belti, engan öryggisbúnað. Ef rútan er búin þriggja punkta beltum þá getur barnið notað sessu með baki. Vert er að taka fram að sessa án baks er búnaður sem er ekki lengur framleiddur og er ekki öruggt að nota, þó hann sé notaður í rútu sem er með þriggja punkta beltum. Búnaðurinn er einfaldlega ekki nægilega öruggur og íslenskar sem erlendar rannsóknir sýna að hann rennur undan barninu í hörðum árekstri. Í veltum hefur hann farið undan barni og þá geta bílbeltin skaðað barnið. Ef barnið hefði verið einungis í þriggja punkta belti hefði það verið betur varið. Það er einnig vert að benda á þá staðreynd að ekki var byrjað að prófa barnabílstóla og sessur með baki í rútur fyrr en að áðurnefndar reglur tóku gildi. Hér á landi er fjöldinn allur af rútum þar sem beltin hafa verið sett í eftir á. Það eru tilmæli prófunaraðila í Evrópu að ef verið er að flytja börn í þessum gömlu rútum, þar sem beltum hefur verið komið í eftir á, að börn noti einungis beltin og án annars búnaðar. Ástæðan er sú að það er óvíst hvað getur gerst í árekstri ef verið er að nota búnað sem ekki hefur verið prófaður í tiltekna rútu. Allar nánari upplýsingar veitir undirrituð. Hægt er að senda tölvupóst á slysahusid@simnet.is Einnig eru upplýsingar um öryggi barna í bílum á www.msb.is. Herdís Storgaard Miðstöð slysavarna barna www.msb.is Herdís Storgaard Mynd / Sebastian Storgaard SLYSAVARNIR BARNA

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.