Íslenskt mál og almenn málfræði - 2014, Blaðsíða 14
c. Óreglulegar beygingarmyndir og orð í lokuðum beyg ingar flokk um
eru geymd í orðasafni. Á sama hátt eru stofnbrigðabeygðar mynd-
ir (e. suppletive inflected forms) einnig geymdar þar.
d. Regluleg, virk beyging er utan orðasafnsins (e. extralexical), þ.e. í
setn ingafræðinni.
Kenningin útilokar að regluleg og virk beyging geti komið fyrir í fyrri
hlutum samsettra orða og afleiddra, aðeins óregluleg beyging geti gert
það.7 Einnig gerir kenningin ráð fyrir því að stofnbrigði geti verið fyrri
liðir í samsettum orðum og afleiddum. Kenningin, eins og hún er sett
fram í (4), getur ekki gert grein fyrir t.d. fyrri liðum í eignarfallssamsetn-
ingum því þar er um að ræða reglulega beygingu og ekki er um orð úr
lokuðum beyg ingarflokkum að ræða. Þetta er mikilvægt að hafa í huga
þegar kemur að því að ræða eignarfallssamsetningarnar í 5. kafla, en
einnig þegar beygð ir liðir almennt verða nánar ræddir í næsta kafla.
3. Beygðir fyrri liðir í íslensku og ýmsum málum
Í þessum kafla er ætlunin að gefa yfirlit yfir tegundir beygðra fyrri liða í
íslensku og ýmsum öðrum málum. Sú beyging sem hugsanleg er í fyrri
lið um samsettra orða er ýmiss konar, t.d. endingar sem tákna tíð, tölu,
hátt og persónu í sögnum, fall, tölu og kyn í fallorðum (nafnorðum, lýs -
ingar orð um, fornöfnum) og svo stigbeygingu í lýsingarorðum og mið -
mynd í sögn um. Hins vegar er jafnljóst að ekki koma allar þessar teg-
undir fyrir í fyrri lið og hér verður reynt að gefa yfirlit yfir þá beygingu
sem kemur fyrir í þessari stöðu. Svo virðist nefnilega vera sem sagn-
myndir ýmiss konar komi ekki fyrir í fyrri lið, ef undan er skilinn nafn-
háttur en hann er þar frekar sjaldséður í íslenskri orðmyndun (sjá þó
möguleg dæmi eins og hugsa-legur og tjá-legur, sbr. síðar). Dæmin sem
nefnd eru í þessum kafla eru mótdæmi við kenninguna um klofna
orðhlutafræði vegna þess að þau sýna að beygðir fyrri liðir koma fyrir í
samsettum orðum. Tilgangur kafl ans er því öðrum þræði að tína til þessi
mótdæmi úr ýmsum áttum en einnig að gefa nokkra mynd af því hvers
konar beygingu megi finna í fyrri lið um. Niðurstöðurnar verða svo
notaðar til þess að ræða nánar kenn ing una um klofna beygingu í næsta
kafla.
Þorsteinn G. Indriðason14
7 Perlmutter (1988:95) nefnir aðeins afleiðslu og ekki samsetningu í (4) en hins vegar
verður ekki annað ráðið af skrifum hans en að hann eigi einnig við sam setningu þegar hann
talar um þennan aðskilnað.