Íslenskt mál og almenn málfræði - 2014, Qupperneq 70
blómaskeiðs setninga gerðar innar en ritdómarinn í lok þess. Fjar lægð milli
fæð ingar staða þeirra er líka eins mikil og verða má; en hvort sá málfars -
munur sem þarna kemur fram tengist tíma eða stað er erfitt að segja. Í þessu
sambandi má líka benda á að Jakob. Jóh. Smári og Björn Guð finns son voru
báðir fæddir og uppaldir í Dalasýslu, og hugsanlega hefur blandaða setn -
inga gerðin verið lítt þekkt á Vesturlandi og Vest fjörð um.
Afdrif blönduðu setningagerðarinnar í vesturíslensku eru svo annað
mál. Eins og nefnt er í 2.4 er ekki trúlegt að neikvætt álit íslenskra
málfræðinga á henni — ef það var almennt — hafi haft áhrif þar, þótt það
kunni að hafa skipt máli á Íslandi. Yngsta dæmið úr vesturíslensku sem
ég hef fundið á Tímarit.is er frá 1975 en það segir lítið að yngri dæmi skuli
ekki finnast, vegna þess hve textamagn Lögbergs–Heimskringlu á ís lensku
er lítið síðustu áratugina.
En miðað við dæmi úr viðtölum frá 1972, 1982 og 2013–2014 er í sjálfu
sér ekkert sem bendir til annars en blandaða setninga gerðin hafi lifað
góðu lífi í Vestur heimi alla 20. öld ina — og allt fram á þennan dag, í máli
þeirra Vestur-Íslendinga sem enn tala íslensku á annað borð.
2.6 Blandaðar samanburðarsetningar
Hér hefur eingöngu verið fjallað um blönduðu setningagerðina á eftir
tengingunni að, enda er hún langalgengust þar. En hún á sér þó fleiri birt-
ingarmyndir. „Á eftir virðast, sýnast, finnast, þykja o.þvíl. er oft notuð
samanburðarsetning (með sem, eins og) í stað að-setn ingar, og þá í viðth.“,
eins og Jakob Jóh. Smári bendir á (1920:232). Eftir lýsingu — og for dæm -
ingu — á blönduðu setningagerðinni segir Jakob (1920:275):
Þar eð að-setning getur skipzt á við samanburðarsetningu á eftir þessum
sögnum […], kemur það einnig fyrir, að saman er blandað samanburðarsetn-
ingu og nefnifalli með nafnhætti.
Hann tekur svo tvö dæmi um þetta, annað úr bók eftir Huldu og hitt frá
Einari H. Kvaran. Ég hef einnig fundið dæmi um þessa setningagerð í
tveimur bókum Jóns Trausta, en rétt er að minna á að blandaðar að-setning-
ar koma einnig fyrir hjá öllum þessum höf undum, sbr. 2.2 hér að framan.
Í bréfasöfnum hef ég fundið örfá dæmi af þessu tagi, það elsta er þetta:
(43) mjer fannst líka altjend einsog jeg finna hann þegar jeg fjekk brjef
frá honum.
Árnessýslu, 1866 (bréfritari úr Suður-Múlasýslu, f. 1846)
Eiríkur Rögnvaldsson70