Íslenskt mál og almenn málfræði - 2014, Side 117
leikum málhljóðanna. Það er því ekki eins langsótt og sumir halda að mál-
notendur geti skynjað ýmislegt í máli sem erfitt er að finna hljóðeðlis -
fræðilegan stað.
Að lokum má taka undir með yfirlesara sem bendir á að erfitt sé að
sanna að þær hljóðkerfislegu skýringar sem hér hefur verið haldið fram
séu réttari en þær hefðarskýringar sem Haukur aðhyllist í doktorsriti
sínu. Í raun og veru snýst málið um eftirfarandi: Til að skýra samstuðlun
hljóða sem ekki eru eins í framburði er hægt að fara tvær leiðir:
A: Leita hljóðkerfislegra skýringa.
B: Segja að stuðlunin ráðist af hefð, sem stundum fái stuðning af
stafsetningunni.
Haukur telur að hljóðkerfislegu skýringarnar hafi of marga galla, verði of
óhlutstæðar og of margar undantekningar séu frá þeim reglum sem þá
þurfi að gera ráð fyrir. Hér hefur því verið haldið fram að þessar skýringar
séu ekki eins óhlutstæðar og oft sé haldið fram (t.d. varðandi stuðlun
h-orða) og undantekningar frá reglum á borð við framgómunarregluna
(-reglurnar) skipti í raun ekki máli því eftir sem áður geti öll framgóm-
mælt lokhljóð verið leidd af uppgómmæltum í hljóðkerfi nútímamáls.
Aftur á móti hafi hefðarskýringin þann galla að stundum þurfi að gera ráð
fyrir að hefðin skipti máli en stundum ekki,33 stundum að stafsetningin
skipti máli og stundum ekki, eins og nefnt var hér framar. Þess vegna hafi
þessi leið takmarkað skýringargildi. Hún sé auk þess nokkuð dýru verði
keypt því hún feli í raun í sér að minna mark sé takandi á stuðlasetningu
sem málheimild en oftast sé gert ráð fyrir í sögulegri málfræði. Það er
hins vegar líklegt að málfræðingar og bragfræðingar haldi áfram að vera
ósammála um ágæti þessara ólíku leiða.
heimildir
Adams, Jonathan, og Hjalmar P. Petersen. 2014. Faroese – A Language Course for Beginners.
Textbook and Grammar. 3. útg. Stiðin, Þórshöfn.
Anderson, Stephen R. 1985. Phonology in the Twentieth Century: Theories of Rules and
Theories of Representations. University of Chicago Press, Chicago.
Stuðlar, hefðarreglur, hljóðkerfi 117
33 Yfirlesari segir að samkvæmt hugmyndum Hauks sé það „óhjákvæmilegt“ að mál-
breytingar leiði til „breytinga á bragvenjum“ þegar samfall hljóða á sér stað. Ég get þó ekki
séð að svo sé, sbr. að Haukur heldur því fram að hagyrðingar geti haldið áfram að stuðla
saman h- og hv- þótt hv- og kv- hafi fallið saman í [khv] í framburði þeirra, en þeir kjósi
reyndar stundum að gera það ekki.