Íslenskt mál og almenn málfræði - 2014, Page 123
ari páll kristinsson
Vandað, einfalt og skýrt
Árið 2011 voru sett í fyrsta sinn almenn lög um stöðu íslenskrar tungu og
íslensks táknmáls (sjá http://www.althingi.is/altext/stjt/2011.061.html). Í
10. grein laganna segir (leturbr. APK): „Mál það sem er notað í starfsemi
ríkis og sveitarfélaga eða á vegum þeirra skal vera vandað, einfalt og skýrt.“
Efni lagaákvæðisins um skýrt mál endurspeglar sjálfsagt útbreidda
hugmynd í málsamfélaginu um óskýra opinbera texta og stofnanamál og
að úrbóta sé þörf á því sviði. Í orðræðu um íslenska málnotkun má finna
reynslu sögur um erfiðar eyðublaðaútfyllingar, dæmisögur um óheppilegt
orðalag í opinberum textum, (for)dóma um málfar sérfræðinga, háðsyrði
um nýyrði í nytjatextum o.s.frv. Hluti af þessari orðræðu endurspeglar
ákveðna valdabaráttu — um það hver ræður yfir hugtökunum, samsetn-
ingu þeirra og merkingartilvísun og þeirri sýn sem þau fela í sér, en hún
ræður beint og óbeint túlkun okkar á veruleikanum og samfélaginu. Í
þessu sambandi má líka sérstaklega hafa í huga umræðu eftir hrunið 2008
um nauðsyn þess að efla lýðræði og gagnsæi í ákvörðunum í þjóðfélaginu,
rafrænar atkvæðagreiðslur og skoðanakannanir meðan mál væru í vinnslu
í stjórnsýslunni o.s.frv., að ógleymdri umræðunni um breytta eða nýja
stjórnarskrá; stjórnarskrá sem rituð væri á máli sem allur almenningur
skilur en ekki aðeins lögfræðingar og aðrir innvígðir.
Löggjafinn hefur nú sem sé ákveðið að tilgreina sérstaklega í löggjöf
um íslenskt mál og málnotkun að textar frá hinu opinbera eigi að vera á
skýru máli. Einnig er tilgreint að málið í starfsemi ríkis og sveitarfélaga
skuli vera einfalt. Opinber skjöl geta augljóslega þurft að fjalla um flókin
málefni. Í ákvæðinu felst því væntanlega að hinum margslungnustu við -
fangsefnum í þjóðfélaginu megi lýsa í einföldu máli og það skuli gert.
Því hefur löngum verið haldið fram hér á landi að einn ávinningurinn
af hreintungustefnu á sviði orðaforða sé sá kostur að orðstofnar af ís -
lensk um uppruna leiði fremur en erlendir orðstofnar til skýrleika í mál-
notkun. Rökin eru þau að innlend orð beri ljóslega með sér merkingu sína
en því sé ekki að heilsa þegar tökuorð eigi í hlut (sbr. augnlæknir fremur
en ophthalmologist o.s.frv.). Að þessu er t.d. vikið hjá Sigurði Líndal (1988:
17) þar sem hann segir:
Íslenskt mál 36 (2014), 123–126. © 2014 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.