Íslenskt mál og almenn málfræði - 2014, Page 125
Hefðbundið sjónarmið er sem sé að gott mál (vandað mál) sé skýrt. En
nú segja lögin frá 2011 að mál stjórnvalda skuli vera vandað, einfalt og
skýrt.
Hér kunna að vakna spurningar um framkvæmdina. Það getur reynst
vandasamt, ef ekki varasamt, að lýsa flóknum veruleika á „einföldu máli“
og e.t.v. kann að vera rétt að varast að ganga of langt í því efni þótt mark -
miðið sé góðra gjalda vert.
Með lagaákvæðinu um skýrt mál er hnykkt sérstaklega á þeim þætti
góðrar málnotkunar. Engar fræðilegar rannsóknir, að heita má, hafa verið
gerðar á því hvort íslenskir nytjatextar af ýmsu tagi séu vel eða illa skilj-
anlegir þeim sem þá þurfa að lesa. Og ef textar frá stofnunum og fyrir-
tækjum, lög eða reglugerðir, leiðbeiningar o.fl. fara fyrir ofan garð og
neðan hjá viðtakendum er ekki gott að vita hvort það stafar af stíl, orðavali
og framsetningu eða hvort því er fremur um að kenna að efni textanna sé
svo margslungið að þeir verði óhjákvæmilega erfiðir. Fyrr á þessu ári
(2014) átti ég þátt í norrænni umsókn um styrk til rannsóknar á því hvort
almenningur á Norðurlöndum telur almennt auðvelt eða erfitt að skilja
ritaða nytjatexta ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja. Einnig var hugmynd-
in að kanna hjá úrtaki fyrirtækja og stofnana hvernig leitast er við að gera
framsetningu upplýsinga á vefsíðum o.s.frv. aðgengilegri og þá hvort
viðleitnin hafi borið árangur. Við fengum ekki meðbyr að sinni en ætlun-
in er að reyna aftur. Gott væri að hafa frekari rannsóknir að styðjast við,
t.a.m. á stíl og orðavali í opinberum textum og á viðhorfum og reynslu
almennings. Niðurstöð urnar gætu e.t.v. stuðlað að betri fræðilegum
grund velli undir umræður um það hvað átt er við með „skýru máli“, hvort
hægt sé að veita betri leiðbeiningar um skýra málnotkun og e.t.v. hvort
þörf sé á átaki í því efni. Raunar eru slíkar athuganir væntanlega nauðsyn-
legar til að stjórnvöld geti farið að lögunum sem segja að þau skuli nota
einfalt og skýrt mál í starfsemi sinni.
heimildir
Ari Páll Kristinsson. 2011. Gott mál. Jóhannes B. Sigtryggsson (ritstj.): Handbók um
íslensku, bls. 79‒87. JPV útgáfa, Reykjavík.
Ari Páll Kristinsson og Jóhannes B. Sigtryggsson. 2011. Skýrt mál. Jóhannes B. Sigtryggs -
son (ritstj.): Handbók um íslensku, bls. 192‒194. JPV útgáfa, Reykjavík.
Gauti Kristmannsson. 2004. Málar íslensk málstefna málið inn í horn? Ari Páll Kristins -
son og Gauti Kristmannsson (ritstj.): Málstefna – Language Planning, bls. 43–49.
Íslensk málnefnd, Reykjavík.
Höskuldur Þráinsson. 1995. Handbók um málfræði. Námsgagnastofnun, Reykjavík.
Vandað, einfalt og skýrt 125