Íslenskt mál og almenn málfræði - 2014, Page 144
5. Nokkrar staðhæfingar
Hér er bent á nokkur atriði í viðbót sem mér finnst orka tvímælis og að ástæða
væri til að athuga nánar ef til frekari úrvinnslu kemur.
Í fyrsta lagi er talað um á bls. 17 og víðar (t.d. á bls. 45 og 59) að ein af
niðurstöðum siðfræðihluta rannsóknarinnar sé sú að „Ísland nútímans sé senni-
lega ekki á neinn hátt frábrugðið öðrum vestrænum löndum hvað varðar lesti og
misgjörðir innan íþrótta“. Þar sem þessi staðhæfing er ekki undirbyggð sérstak-
lega í ritgerðinni finnst mér mjög hæpið að tefla henni fram sem niðurstöðu.
Í öðru lagi segir í umræðu um tilfinningastef rannsóknarinnar neðarlega á bls.
51: „Þegar kemur að orðræðunni um íþróttakonur er ekki ólíklegt að tilfinningar
og geðshræringar verði enn heitari og snarpari“. Þessi spá um sérstöðu orðræðu
um íþróttakonur er sannarlega þess virði að hún sé rædd nánar og útskýrð.
Í þriðja lagi er talað um á blaðsíðu 19 og 175 að gera megi því skóna „að orð -
ræða íþróttanna hafi veruleg áhrif á orðræðu æskufólks sem fram kemur í skóla-
starfi, svo sem í samtölum þess og rituðu máli í ýmsum verkefnum og ritgerð -
um“. Ennfremur segir um sama efni í útdrætti málfarsgreinarinnar á blaðsíðu
195: „Kennarar geta því haft verulegt gagn af því að skilja og notfæra sér einkenni
og kosti íþróttaorðræðunnar í samskiptum við nemendur og verið á varðbergi sé
um einhverja ókosti að ræða“. Hér er ýjað að tengingum við móðurmálskennslu í
skólum og einhvers konar gæðamati á íþróttaorðræðunni en þessu er ekkert fylgt
eftir í ritgerðinni eða málfarsgreininni. Úr því að þetta er sett fram í forgrunni
greinar í tímariti um menntamál býst lesandinn við frekari umfjöllun og úr -
vinnslu en svo er ekki og það verður að teljast býsna gallað.
Í fjórða lagi er svo á blaðsíðu 42 talað um að beitt hafi verið kerfisbundinni
dæmaleit í málfarsgreiningunni og leitað að málfarslegum dæmum um mismun-
andi einkenni á íslensku íþróttamálfari. Ég fæ ekki séð að neins staðar komi fram
á hvern hátt þessi dæmaleit var kerfisbundin. Á sömu síðu segir: „Skoðað var
hvort beygingarleg og setningafræðileg atriði skiptu hér máli, svo sem notkun
tíða, mynda og hátta í sögnum, notkun falla og talna, notkun stiga lýsingarorða,
notkun mynda í sögnum, orðaröð og svo framvegis“. Vandséð er á hvern hátt
þessi upptalning leggur grunn að markvissri dæmaleit og niðurstöður og flokkun
dæma bendir ekki til þess að neitt sérstakt hafi komið út úr athugun á þessum til-
teknu atriðum, e.t.v. með þeirri undantekningu að tekin eru dæmi á bls. 191, ann-
ars vegar um orðið fætur í kvenkyni í stað karlkyns og hins vegar um fleirtölu-
mynd orðsins lykilstaða.
Loks er á blaðsíðu 61 ýjað að því að þau einkenni íþróttamálfars sem tengist
tilfinningum og geðshræringum eigi ekki aðeins við um íþróttamálfar heldur
megi einnig finna þeim stað í málfari um ýmis önnur svið samfélagsins, svo sem
trúarbrögð, stjórnmál, listir og unglingamenningu. Þetta kallar á samanburð og
slík viðbót hefði vissulega styrkt þennan þátt rannsóknarinnar verulega.
Ásgrímur Angantýsson144