Íslenskt mál og almenn málfræði - 2015, Page 12
Dæmin sem notuð eru í greininni koma úr ýmsum áttum. Mörg þeirra
koma úr heimildum og eru þá notuð og metin á sama hátt og í heimildinni
eða rædd frekar. Sum dæmin eru búin til af höfundi og þá notuð til
skýringar. Í þeim tilfellum þegar ensk dæmi voru búin til af höfundi voru
þau alltaf borin undir enskumælandi vini og kunningja, oftast marga.
Nokkur dæmi eru úr Tilbrigðaverkefninu (sjá Höskuld Þráins son, Ás grím
Angantýsson og Einar Frey Sigurðsson (ritstj.) 2013), einkum úr grein
Höskuldar og Theódóru Torfadóttur (2015), og einnig er tölu vert af
dæmum af netinu sem sérlega var safnað fyrir doktorsritgerð höfundar.
Skipulag greinarinnar er eftirfarandi. Í öðrum kafla er fyrst fjallað um
formgerðina vera að + nh., bæði í framvinduhorfsmerkingu og annars
konar merkingu. Þá er einnig fjallað um verknaðargerðirnar ástand, at -
höfn, árangur og afrek (þessi hugtök verða skýrð í kafla 2.2) og hvernig
vera að + nh. samræmist þeim. Í þriðja kafla er fjallað nánar um þessar
verknaðargerðir og þá fyrst og fremst um dæmigerða eiginleika þeirra og
hvernig þeir eiginleikar hafa áhrif á merkingu ástandssagna með vera að
+ nh. svo og annars konar sagna með því orðasambandi. Í fjórða kafla er
gerður samanburður við ensku vegna þeirra fullyrðinga sem fram hafa
komið að hér sé um ensk áhrif að ræða. Þar er fyrst litið á sagnaflokka þar
sem íslensku og ensku greinir á, síðan fjallað um ástandssagnir í fram-
vinduhorfi í ensku og að lokum dregnar ályktanir um hin meintu áhrif
ensku á íslensku. Í fimmta kafla eru niðurstöður dregnar saman.
2. Verknaðargerð og framvinduhorf
2.1 Formgerðin vera að + nh. og framvinduhorf
2.1.1 Vera að + nh.
Áður en lengra er haldið er vert að líta aðeins nánar á formgerðina vera að
+ nh. Uppruni formgerðarinnar er talinn vera formgerðin vera að að + nh.
(Jakob Jóh. Smári 1920, Hreinn Benediktsson 1976, Höskuldur Þráins -
son 1974, 1999) þar sem fyrra að-ið er staðarforsetning (eða hugsanlega
atviksorð) en hið síðara nafnháttarmerki. Eftirfarandi dæmi eru úr nú -
tíma útgáfu af Njálu (leturbreytingar höfundar):
(1) a. Hann var að að hlaða skútuna en þeir báru á út, menn hans
(Brennu-Njáls saga 1987:158).
b. Bar það saman og þá var Gunnar að að segja söguna en þeir Kári
hlýddu til á meðan úti (Brennu-Njáls saga 1987:336).
Kristín M. Jóhannsdóttir12