Íslenskt mál og almenn málfræði - 2015, Page 39
Atburðareiginleikarnir verða þá þróun, tímabinding og stjórn. Áður
en við fjöllum um hvernig og að hvaða marki þessir atburðareiginleikar
geta birst með ástandssögnum með vera að skulum við líta á dæmigerða
ástandseiginleika.
3.3 Ástand
3.3.1 Dæmigerðir ástandseiginleikar
Í 2.3.4 var ástandi lýst á þann hátt að það sé varanlegt, að það hafi ekki
náttúrulegan lokapunkt, það sé einsleitt að því leyti að ekki er um að ræða
neina innri þróun og að ástandssagnir taki oft með sér rökliðinn reynandi
(eða skynjandi). Þetta þýðir þó ekki að ástand geti ekki verið tímabundið
eða það þróist eða breytist. Sá sem er veikur verður oft smám saman betri
þar til hann er frískur. Ást er ástand en getur breyst og þróast á vissan
hátt. En það er ekki endilega gert ráð fyrir að ástand sé breytilegt. Auk
þess má benda á að þótt veikur einstaklingur geti smám saman orðið betri
breytir það því þó ekki að á meðan hann er veikur er hann veikur og hver
einasti punktur innan þess tíma er tími þar sem hann er veikur.
Í 3.2 voru hinir dæmigerðu atburðareiginleikar sagðir vera þróun,
tímabinding og stjórn. Ástand, og þar með ástandssagnir, skortir öllu
jöfnu alla þessa þætti því almennt er ekki gert ráð fyrir þróun ástands, ást-
and er öllu jöfnu ekki tímabundið á sama hátt og atburðir og sá (eða það)
sem er í tilteknu ástandi hefur vanalega ekki stjórn á aðstæðum. Ef
atburðir hafa þættina [+þróun, +tímabinding, +stjórn] myndu ástands-
sagnir fá þættina [–þróun, –tímabinding, –stjórn]. Þættinum [+þróun]
hjá atburðarsögnum var ætlað að ná yfir þann þátt sem stundum er kall -
aður [±dynamic] á ensku og felur í sér hreyfingu, virkni eða kraft svo það
má segja að skortur á slíkum þætti útskýri einsleitni ástandssagna. Með
því að nota tvígilda þætti þurfum við því í raun ekki endilega að gera ráð
fyrir sérstökum ástandsþáttum heldur er munurinn á ástandssögnum og
atburðarsögnum fyrst og fremst sá að ástandssagnir skortir alla jafna hina
dæmigerðu atburðarþætti. Sé það rétt greining er hægt að útskýra ástands -
sagnir í framvinduhorfi þannig að þær séu notaðar sem atburðarsagnir og
hafi því eða fái atburðarþætti. Þegar hlustandi heyrir dæmigerða ástands-
sögn notaða í framvinduhorfi túlkar hann hana sem atburðarsögn en hann
þarf sjálfur að ráða úr því hvaða atburðareiginleika er um að ræða. Þetta
verður nú útskýrt nánar.
„Nafnháttarsýki“ 39