Íslenskt mál og almenn málfræði - 2015, Page 40
3.3.2 Atburðareiginleikar með ástandssögnum
3.3.2.1 Þróun með ástandssögnum
Sá eiginleiki sem helst greinir ástand frá atburði er einsleitni þess. Þar
með lýsa ástandssagnir almennt séð ekki þróun ástands. Þegar hlustandi
heyrir ástandssögn með vera að er því mögulegt að hann skilji setninguna
þannig að um ákveðna þróun sé að ræða, t.d. sem eitthvað sem er að
aukast eða minnka. Hægt er að herða á þeirri merkingu með því að nota
atviksliði eins og meira og meira (sjá umræðu hjá Comrie 1976:36):
(63)a. Og ég er að skilja meira og meira hvernig þetta virkar allt saman.
b. Ó Vín er svo falleg! Er að elska borgina meir og meir með hverjum
degi.
Í (63a) er greinilega um að ræða þróun, eða jafnvel breytingu, á skilningi
sem smám saman eykst og í (63b) verða tilfinningar mælanda til borgar-
innar æ sterkari. En þrátt fyrir að þróun greini ástandssagnir frá atburðar-
sögnum er ekki algengt að hlustendur skilji ástandssögn með vera að
þannig að um sé að ræða þróun á ástandi. Í setningum eins og (64) bendir
t.d. ekkert til þess að ást mín á Bítlunum sé að aukast eða að hugsunin um
að viðmælandinn komi ekki hafi nokkuð breyst:
(64)a. Ég er að elska Bítlana
b. Við vorum að halda að þú kæmir ekki
Í staðinn fáum við þá merkingu að um sé að ræða möguleika á breytingu,
þ.e. að um tímabundið ástand sé að ræða.28 Tímabinding er einmitt einn
atburðareiginleikanna svo það er hugsanlegt að það sé fyrst og fremst sú
merking sem við fáum í (64). Annar möguleiki er sá að þessir eiginleikar,
þ.e. breyting (þróun) og tímabinding séu svo samofnir að ekki sé alltaf
ljóst hvaða hlutverki þeir gegna í túlkun. Við skulum því líta nánar á at -
burðar eiginleikann tímabinding og hvernig hann kemur sterklega fram
með ástandssögnum með vera að.
Kristín M. Jóhannsdóttir40
28 Annar hinna ónafngreindu yfirlesara stakk reyndar upp á því að ég slægi þessum
tveim eiginleikum, þróun og tímabindingu, saman í einn þar sem þróunareiginleikinn
kemur nær aldrei fram með ástandssögnum með vera að. Ég íhugaði það alvarlega en fannst
að lokum að ég gæti ekki sleppt honum því þegar ástandssagnir eru greindar frá atburðar-
sögnum (t.d. hjá Vendler 1957 og Smith 1997) eru flestir sammála um að það sé fyrst og
fremst eiginleikinn [±dynamic] eða dynamicity, sem ég hef kallað þróun, sem skiptir máli.
[+þróun] hlýtur því að vera einn atburðareiginleikanna, jafnvel þótt hann sé hugsanlega
ekki sá sem er mest áberandi þegar ástandssagnir standa með vera að.