Íslenskt mál og almenn málfræði - 2015, Síða 81
ásgrímur angantýsson
Um sagnbeygingu og sagnfærslu í elfdælsku
1. Inngangur
Í Dölunum í Vestur-Svíþjóð tala um 2.400 íbúar, einkum af elstu kyn -
slóðinni, svonefnt Älvdalsmál eða elfdælsku (e. Övdalian/Elfdalian).1 Ólíkt
skandinavísku meginlandsmálunum varðveitir þetta málafbrigði tiltölu-
lega ríkulegt beygingarkerfi og setningagerðin á að vissu leyti meira skylt
við norrænu eyjamálin en sænsku (sjá Holmberg og Platzack 1995:8).
Orðaforði og framburður elfdælsku er einnig svo frábrugðinn öðrum nor-
rænum málum að hún er óskiljanleg öðrum en þeim sem hafa alist upp
við hana eða lagt sig sérstaklega eftir að læra hana. Þess vegna hefur því
verið haldið fram að hún eigi að teljast sjálfstætt tungumál frekar en
sænsk mállýska (sjá umræðu hjá Bentzen, Rosenkvist og Johannes sen
2015:3–4). Til eru nokkuð greinargóðar lýsingar á elfdælskum orða forða
(Steensland 2006, 2010), hljóðafari (Nyström 1982, 1995, 2000), beyg-
ingum (Levander 1909, 1925; Åkerberg 2012) og málfélagslegum að -
stæðum (Helgander 1996, 2000, 2005), en setningafræðilegar rannsóknir
eru brotakenndari (sjá Bentzen, Rosenkvist og Johannessen 2015 og rit
sem þar er vísað til).
Í skrifum um norræna setningafræði er elfdælska víða nefnd í fram -
hjá hlaupi, einkum í tengslum við sagnfærslu (sjá t.d. Vikner 1997 og
Koeneman og Zeijlstra 2014), en umræðan er sjaldnast byggð á ítarlegum
gögnum eða beinum athugunum á málinu sjálfu. Hér verður sjónum beint
Íslenskt mál 37 (2015), 81–112. © 2015 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.
1 Þessi grein er byggð á doktorsritgerð minni frá 2011 og ítarlegum kafla í bókinni
Studies in Övdalian Morphology and Syntax – New Research on a Lesser Known Scandinavian
Language (Ásgrímur Angantýsson 2015). Ég þakka Höskuldi Þráinssyni ritstjóra og tveim-
ur ónafngreindum ritrýnum Íslensks máls fyrir gagnlegar athugasemdir við fyrri gerð þess-
arar greinar. Einnig eiga Kristine Bentzen, Henrik Rosenkvist, Janne Bondi Johannessen
og tveir ónafngreindir ritrýnar fyrrnefndrar bókar þakkir skildar fyrir rækilegar athuga-
semdir við upphaflega gerð bókarkaflans. Doktorsrannsókn mín var styrkt af Eim skipa -
félagssjóði Háskóla Íslands og elfdælsku gögnunum var safnað með stuðningi ScanDiaSyn
(Scandinavian Dialect Syntax) og NORMS (Nordic Center of Excellence in Micro -
comparative Syntax). Þessum aðilum og því fólki sem nefnt er í formála doktorsritgerðar-
innar færi ég ítrekaðar þakkir.