Íslenskt mál og almenn málfræði - 2015, Page 173
guðrún þórhallsdóttir
Andmæli við doktorsvörn Katrínar Axelsdóttur
1. Inngangsorð
Ritgerðin Sögur af orðum, sem Katrín Axelsdóttir hefur lagt fram til doktorsvarn-
ar, er mikið verk, hvort sem litið er á efnismagnið í ritverkinu sjálfu eða þá vinnu
sem liggur að baki því. Fyrri andmælandi talaði fyrir hönd okkar beggja þegar
hann lýsti helstu kostum ritgerðarinnar og einnig göllum og ég tek undir aðdáun
hans á þeirri elju og vandvirkni sem birtist í verkinu.
Ritgerðin segir sögu sex orða,16 og þar sem orð taka breytingum í tímans rás
snýst verkið um málbreytingar. Miklum heimildum hefur verið safnað um orðin
sex og varðveittum dæmum raðað í skipulegar töflur eftir aldri. Á þann hátt hefur
miklum og gagnlegum fróðleik verið safnað um sögu þeirra og mikill efniviður
verið gerður aðgengilegur. Ljóst er að verkið mun annars vegar nýtast málfræð -
ingum, sem vilja grafast fyrir um þróun fornafna og lýsingarorða í íslenskri mál -
sögu, og hins vegar útgefendum fornrita sem geta gengið þar að upplýsingum um
aldur einstakra orðmynda.
Ritgerðin lætur þó ekki nægja að segja sögu, rekja breytingar í tímaröð, held-
ur leitar jafnframt skýringa á breytingunum. Þessi hlið á verkinu er glíma við eðli
málbreytinga og hugmyndir fræðimanna um það. Þegar fræðikenningu er beitt á
nýtt efni reynir á kenninguna og þess vegna má líta á ritgerðina Sögur af orðum
sem framlag til sögulegra málvísinda, fræðanna um eðli málbreytinga sem ná til
allra tungumála jafnt. Þessi fræðilegu átök eru bitastæðasta framlag höfundarins
frá sjónarhóli málvísindanna og ég ætla mestmegnis að einbeita mér að þeim hér
í dag, þ.e. að lýsingunni á málbreytingum og skýringartilraunum. Tímans vegna
verður eingöngu hægt að taka fáein dæmi. Ég mun beina spurningum til doktors-
efnisins sex sinnum, en reyndar dreifast þær ekki jafnt á orðin sex.
2. Ritunartími og aldur handrits
Verk sem segir beygingarsögu orða þarf vitanlega að meta aldur orðmynda og
tímasetja breytingar. Þegar tvö tilbrigði beygingarmyndar eru til þarf að meta
hversu lengi eldri orðmyndin lifði, hve snemma yngri orðmyndin varð til og
16 Að vísu má færa rök að því að orðin séu strangt til tekið fleiri en sex (sjá athugasemd
hjá fyrri andmælanda). Til einföldunar tala ég hér þó nokkrum sinnum um „sex orð“ frekar
en „sex athuganir“.