Íslenskt mál og almenn málfræði - 2015, Síða 178
4.2 Dæmigerðar áhrifsbreytingar og hlutfallsjöfnur
Í formála ritgerðarinnar er sagt frá helstu tegundum áhrifsbreytinga og vísað til
þeirrar kynningar þegar fyrirbærin koma við sögu í meginmálsköflum. Katrín
velur að kalla tvo meginflokka þeirra dæmigerðar áhrifsbreytingar og ódæmi-
gerðar. Það eru ný heiti á flokkum sem erfitt hefur reynst að finna góð nöfn á.
Undir dæmigerðar áhrifsbreytingar falla breytingar þar sem orð verða fyrir áhrif-
um af beygingarmynstri annarra orða þannig að beyging þeirra breytist til sam-
ræmis. Slíkum breytingum er oft lýst með hlutfallsjöfnum sem er ætlað að sýna á
einfaldan hátt hvaðan áhrifin komu og í hverju breytingin fólst. Þetta sýnishorn
er notað í ritgerðinni (bls. 34):
nf.ft. staðir : þf.ft. staði
nf.ft. vellir : þf.ft. X; X = velli
Þessi jafna á að sýna breytingu á beygingu nafnorða af flokki u-stofna, t.d.
orðsins völlur, og útskýra hvernig á því stóð að hin forna mynd þolfalls fleirtölu,
físl. vǫllu, vék fyrir nýrri mynd, velli. Orð af flokki i-stofna, t.d. staður, voru fyr-
irmyndin; þarna var hermt eftir fleirtölunni nf.ft. staðir, þf.ft. staði.
Ég hef vanist þeirri notkun hlutfallsjafna — og brýni hana fyrir nemendum
mínum — að jafna megi aðeins hafa eina hugsanlega lausn og það verði að blasa
við hver lausnin er. Jöfnu úr íslenskri málsögu ætti að mega sýna útlendingi, sem
hefði enga þekkingu á íslensku, og hann gæti séð í sjónhendingu hver útkoman
er. Ef svo sé ekki nýtist jafnan ekki til að rökstyðja þá skýringu sem um er að
ræða. Jöfnu, sem hafi ekki eina augljósa lausn, eigi ekki að sýna nema til að gefa
til kynna að áhrifsbreyting af því tagi sé ófýsilegur kostur.
Margar af hlutfallsjöfnunum í ritgerðinni ganga upp í þessum skilningi og
auðvelt er að fallast á að dæmigerð áhrifsbreyting sé sennileg skýring. Í nokkrum
tilvikum er það þó ekki, og hér er átt við jöfnur úr kaflanum um fornafnið hvor -
tveggi, nánar tiltekið dæmi (27), (32) og (33) og jöfnu í 93. nmgr. Lítum á hina
síðastnefndu:
þgf.ft. báð-um : nf./þf.hk.ft. bæði-Ø
þgf.ft. hvorumtveggj-um : nf./þf.hk.ft. X; X = hvortveggi-Ø
Þessi jafna er ekki auðleyst því að vandséð er hvernig fn. hvortveggi gæti líkt eftir
sérhljóðavíxlunum í rót fornafnsins báðir (báð- : bæð-) og jafnan útskýrir ekki
muninn á fyrri liðnum hvorum- í þgf.ft. hvorumtveggjum og hvor- í nf./þf.ft. hvor -
tveggi. Rétt er að taka fram að höfundurinn lætur efasemdir í ljós: „Dæmigerð
áhrifsbreyting er kannski líka hugsanleg“ (93. nmgr. bls. 372). Þetta er nefnilega
eitt margra dæma um að gefnar séu fleiri en ein skýring á breytingu. Samt er hér
komið tilefni til að biðja doktorsefnið að ræða um afstöðu sína til hlutfallsjafna.
Guðrún Þórhallsdóttir178