Íslenskt mál og almenn málfræði - 2015, Page 180
Doktorsefnið notar rímmyndun sem skýringu eða hugsanlega skýringu á
þrem ur tilvikum í kaflanum um fn. hvortveggi og þar er alltaf um rímbreytingu að
ræða. Meðal þeirra er þgf.ft. hvorumtveggjum en um þá orðmynd segir á bls. 369:
„Fyrri liðurinn í hvorum tveggja hefur haft áhrif á þann síðari og hljóðlega líkari
liður, -tveggjum, kemur í stað tveggja.“ Þarna fullyrðir Katrín reyndar ekki að rím-
myndun hafi átt sér stað heldur gefur annan kost að auki. Þgf.et.hk. hvorutveggju
(úr hvorutveggja) er túlkað á sama hátt (bls. 375):
Hljóðafar í fyrri lið hefur þá haft áhrif í síðari lið og upp kemur mynd með
sama hljóði í lok beggja liða. Áhrifin eru þannig „innan frá“, en ekki frá
sterkri beygingu lýsingarorða né nokkru öðru orði.
Höfundurinn gefur kost á þremur skýringum á tilurð þgf.et. hvorutveggju, þ.e.
dæmigerðri áhrifsbreytingu (með hlutfallsjöfnu), aukningu og rímmyndun, og
gerir ekki upp á milli þeirra.
Skólabókardæmin um rímmyndun eru dæmi eins og hókus – pókus, e. helter –
skelter og hurly – burly og da. hulter til bulter.18 Þetta eru dæmi um orðmyndir sem
teldust ríma í íslenskri ferskeytlu en ekki einkvæðar og áherslulausar beygingar -
endingar. Rímbreyting af hókus-pókus-gerðinni væri það að hvorutveggja yrði
*hvorutvoru. Ef sú orðmynd væri til væri auðvelt að fallast á að rímbreyting hefði
orðið. Hins vegar er hér um að ræða breytinguna hvorutveggja → hvorutveggju sem
er ekki alveg sambærileg, og því er ástæða til að spyrja doktorsefnið hvort breyt-
ing á beygingarendingunni nægi til að kalla fyrirbærið rím.
4. spurning:
a. Hvar ættu mörkin milli blöndunar (eða smitunar) og rímmyndunar að
liggja?19
b. Þarf að kalla það rímbreytingu þegar u-ið úr hvoru- berst yfir í seinni hluta
fornafnsins?
4.4 Aukning
Formáli ritgerðarinnar (bls. 37–38) kynnir einnig aðra gerð ódæmigerðra áhrifs-
breytinga sem doktorsefnið hefur gefið íslenska heitið aukning. Skilgreining
Guðrún Þórhallsdóttir180
18 Danska orðasambandið hulter til bulter (eða lágþýska samsvörunin hulter de (om) bul-
ter) var fengið að láni inn í íslensku og varð þar holt og bolt. Þetta dæmi var reyndar hvorki
sýnt í formála ritgerðarinnar né hjá Hock og Joseph (1996), en í hulter til bulter mun fyrra
orðið hafa lagað sig að síðara orðinu og þannig myndað rím (sjá Ásgeir Blöndal Magnússon
1989:360).
19 Í þessari spurningu er bæði nefnt heitið blöndun (e. blending) og orðið smitun (e. con-
tamination). Bæði heitin hafa verið notuð og sumir málfræðingar nota þau um ólíkar teg-
undir breytinga. Katrín kynnir þetta í formálanum (bls. 37), velur sjálf heitið blöndun og
greinir ekki á milli blöndunar og smitunar.