Íslenskt mál og almenn málfræði - 2015, Síða 185
2. spurning
Þau hljóð sem bókstafurinn ‘g’ getur staðið fyrir eru harla margvísleg (lokhljóð,
önghljóð, hálfsérhljóð; uppgómmælt, framgómmælt, raddað, óraddað), bæði að
fornu og nýju, og þarna hafa orðið ýmsar breytingar. Tímasetning einstakra
hljóðbreytinga er ekki nákvæm. Og hér er um langan tíma að ræða, saga breytinga
á beygingu hvorgi, hvorugur er afar löng. Þarna er um mjög margar myndir (og
hugsanlegar myndir) að ræða og margs konar hljóðaumhverfi. Ég veit auðvitað
hvað stendur í handbókum um þróun g og einhverjar hugmyndir get ég því gert
mér um framburð ýmissa mynda fornafnsins. En stundum finnst mér erfitt að
vera viss; sumar myndir hef ég prófað að segja upphátt í ýmsum útfærslum án
þess að komast að niðurstöðu um framburðinn eða hvort hann skipti máli. Það
lítur kannski þannig út að ég hafi aldrei leitt hugann að framburði hvorgi, hvorugur
enda lítið vikið að honum í bókinni. Það gerði ég þó sannarlega en ég komst aldrei
að niðurstöðu sem breytti hugmyndum mínum um þróun fornafnsins. En auð -
vitað hefði ég getað gert grein fyrir því helsta varðandi þróun g í ýmsu umhverfi,
þó ekki væri nema í stuttu máli.
3. spurning
Í bókinni er rætt um ýmsa flokka áhrifsbreytinga og talsverð áhersla lögð á að
draga ýmsar breytingar í þessa dilka. Meginflokkana kalla ég dæmigerðar og
ódæmigerðar áhrifsbreytingar. Hinum dæmigerðu má lýsa með hlutfallsjöfnu þar
sem sýndur er snertiflötur við annað orð. Óhætt er að segja að þær dæmigerðu séu
algengari. Þessa gerð sé ég a.m.k. nær daglega á vafri mínu á netinu. Þegar ég
stend frammi fyrir því að greina tiltekna beygingarnýjung hneigist ég til að skoða
fyrst hvort þarna sé á ferðinni dæmigerð áhrifsbreyting. Ég er áreiðanlega ekki
ein um þetta. Og þessi tilhneiging er ekkert skrítin, þetta er það algenga. Það
kemur fyrir að ég geng langt í að setja breytingar undir hatt dæmigerðrar áhrifs-
breytingar — ég vil helst ekki vísa þeim möguleika frá fyrr en í fulla hnefana. Þá
hef ég séð snertiflöt við beygingu annarra orða og set upp jöfnu þótt hún gangi
strangt tekið ekki upp. Þannig háttar til með jöfnuna á bls. 373, nmgr. 93. Mér
finnst þessi jafna reyndar hæpin — þetta er ekki „góð“ jafna — og orðalagið sem
fylgir gefur það til kynna; líkindi orðmyndanna eru varla nógu mikil til að þetta
sé sennilegt. Samt vildi ég ekki sleppa jöfnunni. Þarna eru viss líkindi því að
beygingarendingar eru þær sömu og það sést vel með þessari framsetningu. Og
mér finnst ekkert óeðlilegt að koma því á framfæri að ég hafi hugsað um þennan
möguleika líka, jafnvel þótt mér þyki hann ósennilegur.
Áherslan á flokkun áhrifsbreytinga í bókinni gefur kannski ekki alveg raun -
sanna mynd af því hvaða skoðun ég hef á áhrifsbreytingum. Flokkun hefur nefni-
lega á sér svolítið „endanlegt“ yfirbragð. Það er hægt að setja upp ýmsa flokka.
Svör við spurningum Guðrúnar Þórhallsdóttur 185