Íslenskt mál og almenn málfræði - 2015, Side 205
Hér virðist A hafa lokið máli sínu í línu 12 og á eftir kemur nokkur þögn eins og
sýnt er innan sviganna í línu 13. En B þarf frekari upplýsingar um það sem A er
að segja frá, eða staðfestingu á því að rétt sé skilið, og kemur því með viðbótina í
14.
Eins og lýst er í ritgerðinni snýst rannsóknin um að svara spurningum á borð
við þessar (bls. 19):
(3)a. Hversu algengt er að nota botna og viðbætur af þessu tagi í samtölum?
b. Er hægt að finna eitthvert sérstakt samhengi sem kallar á botna eða
viðbætur, t.d. í undanfarandi samskiptunum eða í setningarlegum og
merkingarlegum einkennum segðanna?
c. Er málfræðilegt form botna og viðbóta líkt eða ólíkt — og að hvaða leyti
þá?
d. Er samræðuhlutverk (e. interactional function) botna og viðbóta líkt eða
ólíkt — og að hvaða leyti þá?
e. Hvernig bregst A við því þegar B skýtur inn botni eða bætir við?
Efniviðurinn sem Þórunn notar er íslenski talmálsbankinn ÍSTAL (sjá t.d.
lýsingu hjá Þórunni Blöndal 2005a,b og Eiríki Rögnvaldssyni 2013). Hann
geymir sjálfsprottin samtöl sem tekin voru upp á ýmsum stöðum á landinu árið
2000. Samtölin voru alls 31 og heildarlengd þeirra um 20 klst. Þórunn var ein-
mitt sjálf stjórnandi verkefnisins þegar efninu var safnað. Samkvæmt greiningu
hennar má þarna finna 53 botna og 73 viðbætur af því tagi sem hún var að leita að
(sjá bls. 20 í ritgerðinni).
Fyrsti kafli ritgerðarinnar er inngangur en í öðrum, þriðja og fjórða kafla er
hinn fræðilegi grunnur lagður og skýrður. Annar kaflinn gerir almenna grein
fyrir aðferðafræði eða fræðilegri afstöðu höfundar og í þriðja kafla er fjallað tals-
vert um ýmis grundvallarhugtök á þessu fræðasviði (orðræðu- og samtalsgrein-
ing, samskiptamálfræði), m.a. vegna þess að rannsóknir á því eiga sér ekki langa
hefð á Íslandi eða í rannsóknum á íslensku. Í fjórða kafla er svo fjallað á fræðileg-
an hátt um þau samtalsfyrirbæri sem ritgerðin snýst mest um og fyrri rannsóknir
á þeim, en þau mætti kannski kalla samvinnuformgerðir (e. collaborative construc-
tions). Í lok kaflans má svo finna skilgreiningar á þeim gerðum botna og viðbóta
sem eru meginviðfangsefni ritgerðarinnar.
Eftir þennan almenna, fræðilega hluta kemur svo greinargerð fyrir sjálfri
rannsókninni. Þannig fjallar fimmti kafli um botnana (samvinnubotnana), form
þeirra og hlutverk. Þar kemur m.a. fram að algengasta gerð botna er sú að B botn-
ar þá lotueiningu (e. turn constructional unit) sem A hefur byrjað á en A kemur
síðan aftur og lýkur við hana (sbr. dæmið í (1) hér framar, sjá bls. 76 í ritgerðinni).
Ein spurningin er þá hvort botnar af þessu tagi komi einkum fyrir þegar A hefur
gefið sérstakt tilefni til þess (e. induced completion), svo sem með því að hika, eða
hvort það sé jafnalgengt að B skjóti inn botni að tilefnislausu, ef svo mætti segja
(e. non-induced completion). Í efnivið Þórunnar eru tilefnislausu botnarnir algeng-
ari en hinir (57% á móti 43%), ólíkt því sem komið hefur fram í ýmsum öðrum
rannsóknum (sjá bls. 77). Kannski Íslendingar séu svona óþolinmóðir hlustendur.
Ritfregnir 205