Spássían - 2012, Blaðsíða 8
8
Skáld á skálmöld
Eftir Kolfinnu Jónatansdóttur
Einar Kárason, Skáld,
Mál og menning, 2012.
Á hinn bóginn er Fyrir Lísu saga um það sem Martin
sögumaður gerir fyrir Lísu, sem er fórnarlamb sama
ofbeldismanns og hann. Martin elskar hana heitt en þó
ekki ást elskhuga heldur ást byggðri á samkennd. Hennar
vegna segir hann frá leyndarmáli sínu og hægt og sígandi
fer atburðarás af stað sem hefur mikla þýðingu fyrir þau
bæði.
Jójó kallaði í raun ekki á framhald, því eins og við vitum
fá mörg fórnarlömb kynferðisofbeldis aldrei bót sinna
meina og sögur þeirra enda fæstar vel. Lausnirnar sem
höfundur Fyrir Lísu gefur sögupersónum sínum gætu
virst ótrúverðugar og skáldsagan endar næstum of vel en
Steinunn sagði í viðtali í Víðsjá 7. nóvember sl. að henni
hefði fundist erfitt að skilja við persónur, sem hefðu
gengið í gegnum svo mikla erfiðleika, í lausu lofti. Lái
henni hver sem vill.
Aftur á móti fá ýmsar aðrar hliðar kynferðisofbeldis
meira vægi í Fyrir Lísu en fyrri bókinni, til dæmis mikilvægi
þess að fella erfiða reynslu í orð, sem og ábyrgð foreldra
og hvað veldur því að sumir bregðast börnum sínum
og neita að horfast í augu við að þau séu beitt ofbeldi.
Þessi hlið kynferðisafbrota gegn börnum er viðkvæm
en Steinunn fer afar vel með viðfangsefnið og bregður
upp mörgum ólíkum sjónarmiðum með því að láta
aðalpersónurnar ræða saman um reynslu sína.
Fyrir Lísu er óvænt en ánægjulegt framhald af hinni
frábæru skáldsögu jójó. Einn stærsti kostur þessara bóka
er að í stað þess að fella dóma eða draga upp svart-hvíta
mynd af afleiðingum kynferðisofbeldis leggur Steinunn
áherslu á margbreytilegt tilfinningalíf og breyskleika
mannskepnunnar. Þetta kristallast í því sem Petra segir
við Martin í Fyrir Lísu þegar hann viðurkennir að hann eigi
erfitt með að skilja móður sína:
„Reyndu að horfa framhjá. Við verðum, elsku
Martin, að gera eins og við getum til að láta ekki
þessa fortíð halda áfram að skaða okkur. Eins og
það sé ekki nóg að vera skaddaður í eitt skipti
fyrir öll. Horfðu á mömmu þína eins og það sem
hún er. Manneskja. Takmörkuð eins og við erum.“
(170)
SKÁLD eftir Einar Kárason er lokabókin í þríleik hans
um Sturlungaöldina. Höfundur hefur stuðst við atburði
og persónur úr Sturlungu og vel er við hæfi að ljúka
þríleiknum á því að hafa Sturlu Þórðarson, höfund
Íslendingasögu, sem er hryggjarstykki Sturlungu,
í forgrunni. Sturla var ekki eingöngu höfundur
Íslendingasögu, heldur voru hann og frændur hans
Sturlungar þátttakendur í mörgum þeim atburðum sem
þar er lýst.
Í sögunni er nokkrum helstu atburðum Sturlungaaldar
gerð skil, svo sem Flugumýrarbrennu, Apavatnsför,
Örlygsstaðabardaga og vígi Snorra Sturlusonar. Sagan
skarast eðlilega nokkuð við fyrri bækur í þríleiknum,
einkum við miðbókina Ofsa. Ferð Sturlu, Þorvarðar
Þórarinssonar og Hrafns Oddssonar til Noregs og
veturseta þeirra í Færeyjum myndar ramma um
meirihluta sögunnar og á meðan þeir eru þar er stór
hluti frásagnarinnar endurlit Sturlu til fortíðarinnar,
annars vegar til sambands hans við fóstbróðurinn Klæng
og hvernig þeir lentu hvor í sinni fylkingu og hins vegar
um Flugumýrarbrennu og eftirmál hennar. Leiðarstef
sögunnar er þó hugmyndin um skáldið, sem þráir ekkert
heitar en að fá frið til að segja og skrifa sögur, endurorða
og endurvinna þar til hvert orð er meitlað. Einnig er
dreginn fram vandi höfundar við að velja einn sannleik,
vitandi það að enginn einn er til og að atburðirnir hafa
tekið á sig mismunandi myndir í hugum þeirra sem hlut
eiga að máli.
Líkt og í fyrri bókunum tveimur notar höfundur
sjónarhorn persóna og setur atburði upp í 1. persónu
frásögn og lýsir þannig upplifun þeirra af atburðum. Í
þessari bók er þó stærri hluti verksins settur upp í 3.
persónu frásögn, ýmist sem hrein endursögn á atburðum
eða sem samtöl Sturlu og Þórðar Narfasonar um liðna
atburði. Það að gefa persónum líf á þennan hátt virkar
að mörgu leyti vel og er sterka hlið bókarinnar þegar
höfundi tekst vel upp. Til að mynda er kaflinn þar sem
Ingibjörg Sturludóttir segir frá mjög sterkur og gefur
atburðum aukna dýpt. Sama má segja um frásögn Orms
Bjarnarsonar af dauða Þórðar Andréssonar. Að sama skapi
getur slíkt veikt söguna, eins og t.d. Helga Narfadóttir
kona skáldsins, en hún verður frekar einhliða persóna,
draumaeiginkona skáldsins sem léttir öllum veraldlegum
áhyggjum af því en bætir litlu við áhrif sögunnar.
Þrátt fyrir að um skáldverk sé að ræða er erfitt annað
en að bera það saman við frummyndina sem það byggir
á, Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Nálgunin er
gjörólík, stíll Sturlu er hlutlægur og snarpur og persónum
er fremur lýst utan frá með gjörðum þeirra og orðum
og lesandinn þarf að lesa á milli línanna. Einar bregður
sér hins vegar í hlutverk hins alvitra höfundar; sér í hug
söguhetjanna og reynir að gæða persónur auknu lífi, lýsa
tilfinningum þeirra og útskýra gerðir þeirra út frá því.
Hann tekur sér einnig töluvert skáldaleyfi, til að mynda
er Klængur Bjarnarson gerður vesælli en með góðu móti
er hægt að lesa út úr Íslendingasögu. Einnig eignar hann
nafngreindum mönnum ýmsar Íslendingasögur (sem
truflaði þennan lesanda þó nokkuð). Slíkt er hægt að
fyrirgefa þar sem það skiptir máli fyrir gang sögunnar,
svo sem tilurð Færeyingasögu, en þar sem það var nefnt
í hálfgerðu framhjáhlaupi var því ofaukið. Hið sama má
segja um innskot frá höfundi 21. aldarinnar, sem stungu í
stúf við heildarstíl verksins.
Margt er þó vel gert, til að mynda nær höfundur að
einfalda flækjur Sturlungu og draga fram á skýran hátt
nokkrar lykilpersónur og hlutverk þeirra í hamförum
aldarinnar, fyrst og fremst þó hve hryllilegur sá tími var.
Víglínur og flokkadrættir voru óljós og síbreytileg og
þeir sem voru samherjar einn daginn gátu verið orðnir
fjandmenn þann næsta, fylkingar riðluðust og að lokum
voru heiftin og mannvonskan einar eftir.
Þrátt fyrir annmarka, má vel mæla með skáldverkinu
sjálfu og þrátt fyrir að vera þriðja bók í þríleik stendur
það fyllilega undir sér sjálft. Ótvíræður kostur við
þríleikinn er að hann vekur áhuga fólks á Sturlungaöld
og átökum hennar og verður síður til þess að sú voðaöld
gleymist og myndar jafnvel brú yfir í Sturlungu sjálfa og
gerir lesendum auðveldara um vik að setja sig inn í þá
margbrotnu sögu.