Spássían - 2012, Blaðsíða 49

Spássían - 2012, Blaðsíða 49
49 JÓN Viðar Jónsson er leiklistarfræðingur Íslands. Ekki það að aðrir hafi ekki sótt sér mikla og djúpa menntun á þessu sviði. En þeir eru meira og minna að vinna í leikhúsinu (ef þeir eru heppnir) sem leikskáld, leikstjórar, dramatúrgar, kennarar, eða bara að gera eitthvað annað. Jón er hins vegar „fræðingurinn“. Grúskar í leiklistarsögunni og skrifar þykkar bækur um það sem hann finnur þar. Og hann er líka með puttann á púlsinum. Enginn skrifar skynsamlegri, ítarlegri, heiðarlegri og – segjum það bara – betri leikdóma í íslenska fjölmiðla í dag en Jón Viðar. Auðvitað er hann ekki óskeikull. En andmælendur hans ráðast oftast á strámanninn sem hann smíðaði sjálfur í sjónvarpinu um árið, þar sem honum var sett það ómennska verkefni að skila áliti sínu á nokkrum mínútum í samræðum við sér léttúðugra fólk. Ekki það - meira að segja mér, sem er aðdáandi, finnst stundum eins og Jón sé fýlupúki sem líti á leikhúsið sem andstæðing, setjist með krosslagða útlimi í sæti sitt og segi/hugsi: Jæja, skemmtið mér ef þið getið, fíflin ykkar. En ég held að þetta sé falsmynd - og skrif Jóns styðja hana ekki til neinnar hlítar. Þvert á móti hefur mér sýnst hann hafa a.m.k. jafn gaman að fíflalátum og hver annar (fimm stjörnur á Hund í Óskilum, t.d.). Fyrir utan hvað er auðvelt að horfa framhjá þessum tóni, þessum „tendens“ sem stundum birtist í textanum, taka tillit til þess þegar maður ber lýsingar Jóns saman við eigin upplifanir. Eftir stendur að Jón er gagnmenntaður, vel ritfær og ástríðufullur leikhúsmaður. Álit hans er alltaf áhugavert. Síðustu vikur hef ég verið að lesa bók Jóns um Jóhann Sigurjónsson, sem er það næsta sem við höfum komist því að eiga alþjóðlega/evrópskt viðurkennt leikskáld. Mikilvæg og góð bók. Kaktusblómið og nóttin er ekki hefðbundin ævisaga. Kannski er hún öllu heldur meiri mannlýsing en æviferilsskrá. Aðallega er hún þó skáldgreining. Þó kaflarnir fylgi nokkurn veginn æviferli Jóhanns þá stjórnast þeir fremur af innihaldinu. Ljóðunum eru gerð skil í nokkrum köflum með viðamikilli greiningu. Hvert leikritanna fær sinn kafla þar sem þau eru bæði greind leikhúsfræðilega og jafnframt sett í samhengi við ævi skáldsins. Gaman samt að því að þegar Jón fjallar um fjölskyldu og ætt Jóhanns þá bregður hann (að því er virðist ósjálfrátt) fyrir sig efnistökum, jafnvel stíl, hefðbundinna ævisagna. Ættfærir og segir skemmtilegar slúðursögur. Þetta léttir undir með bókinni þó gagnsemin fyrir skáldskaparrýnina sé ekki alltaf ljós. Það verður líka svolítið áberandi að samferðarmenn Jóhanns danskir fá aldrei sambærilega meðferð. Fyrir þennan lesanda eru kaflarnir um leikritin hápunktar bókarinnar, og sennilega ástæða þess að hún var skrifuð. Mér skilst af lestri annarra dóma að ljóðgreiningarnar séu snjallar, en ég bara á erfitt með tveggja blaðsíðna útleggingu á jafn skýrri ljóðmynd og Bikarinn er. Greiningin bætir engu við. Þegar viðfangið er jafn stórt og torráðið og handrit að leikriti þá getur rýnandinn gert alvöru gagn og glatt mann um leið.  Og það gerir Jón. Mestum tíðindum sætir mat hans á Merði Valgarðssyni, síðasta leikritinu sem Jóhann lauk við og hefur hingað til ekki notið markverðrar hylli lesenda, hvað þá lukkast á leiksviði. Jón hampar Merði mjög, stillir leikritinu upp sem einhverju snjallasta verki Jóhanns, og er all sannfærandi. Kaflarnir um Galdra-Loft og Fjalla-Eyvind eru líka flottar smíðar. Bókinni lýkur á viðamiklum viðaukum, sem sumir hefðu að ósekju mátt falla inn í söguna. Þannig þykir mér vont að fá ekki nokkuð ítarlegt yfirlit yfir viðtökur Eyvindar og Lofts þar sem þær eiga heima í framvindunni, svo mjög sem þær hljóta að hafa haft áhrif á þankagang Jóhanns og þá stefnu sem hann markaði sér. Bréfin til Guðmundar Benediktssonar og eiginkonunnar, Ib, sem prentuð eru sem viðaukar eiga hins vegar augljósan rétt á sér og bæta heilmiklu við. Kaktusblómið og nóttin er vel skrifuð, ígrunduð og ómissandi bók í þunnskipaða bókahillu íslenskrar leiklistarsögurannsókna. Viðfangsefnið er okkar besti maður á sviði leikritunar og höfundurinn er fremstur þeirra sem rannsaka þennan skika á menningarakrinum. Vonandi áttar einhver snjall ævisöguritari sig fljótlega á því að enn er að mestu óskrifuð sagan um þetta skammlífa, einstaka skáld og hans aldeilis fjörugu ævi. Okkar besti maður Eftir Þorgeir Tryggvason Jón Viðar Jónsson. Kaktusblómið og nóttin: um ævi og skáldskap Jóhanns Sigurjónssonar. Hólar. 2004. Mestum tíðindum sætir mat hans á Merði Valgarðssyni, síðasta leikritinu sem Jóhann lauk við og hefur hingað til ekki notið markverðrar hylli lesenda, hvað þá lukkast á leiksviði. Jón hampar Merði mjög, stillir leikritinu upp sem einhverju snjallasta verki Jóhanns, og er all sannfærandi. „ Morgunblaðið, laugardagur 24. desember, 2004, (15).
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.