Spássían


Spássían - 2012, Qupperneq 17

Spássían - 2012, Qupperneq 17
17 Líkt og böðullinn Jermakov sem dregur ekkert úr óhugnanlegum lýsingum og afsakar þær aðeins með að þær hafi verið „nauðsynlegar“ reynir Sigurjón ekki að setja þennan atburð í stærra og skiljanlegra samhengi sögunnar þar sem heildarmynd og rómantík á það á hættu að gleypa hann. Þetta er svipað verkefni og Kristín Steinsdóttir færist á hendur í skáldsögunni Bjarna-Dísu, sem fjallar um venjulega stúlku sem varð að þjóðsögu. Bjarna- Dísa er ein alræmdasta vætt sem sögur fara af á Austfjörðum og hingað til hafa frásagnir af þeim ósköpum sem henni voru eignuð skyggt á söguna af Þórdísi Þorgeirsdóttur, hinni 24 ára vinnustúlku sem ferðaðist yfir fjöll í fylgd bróður síns með örlagaríkum afleiðingum. Saga hennar er sorgleg og ekki síst vegna áhrifanna sem 18. aldar þröngsýni og hindurvitni höfðu á atburðarásina. Þjóðsögur eru stór og mikilvægur hluti af okkar sagnaarfi og örugglega fáir núlifandi Íslendingar sem hafa ekki verið aldir upp við trú á einhverjar af þessum sögum. Hvort sem það er á drauga, galdramenn eða álfa. Þær eru flestar bundnar við átthaga og hefur tíminn sveipað þær hugljúfum ævintýrablæ. En ekki þarf að krafsa mikið í yfirborðið til að fletta ofan af lýsandi dæmum um þá eymd og það volæði sem íslenska þjóðin bjó við. Hjátrúin átti sinn þátt í að gera illt verra þar sem sturlað fólk var stimplað sem afturgöngur og hversdagsleg illvirki og glæpir sett undir hatt hins yfirnáttúrulega. Sjálfsblekkingin rataði svo í sögubækurnar. Saga Bjarna-Dísu minnir um margt á sögu Veru Hertzsch. Örlög Dísu urðu hræðileg, en í sögu Kristínar er sorg hennar jafnvel meiri yfir þeim eftirmælum sem hún hlaut; að vera álitin draugur sem lagðist á fólk og kvaldi og vera jafnvel gefið að sök að hafa grandað öllum 13 börnum bróður síns. Saga hennar var ekki hennar eigin heldur endursögð á máta sem 18. aldar samfélagið var tilbúið til að taka trúanlegan. Segja má því að þöggun Halldórs Laxness á örlögum Veru séu runnin af sama meiði. Hin raunverulega saga var í upphafi ekki hentug hinum mikla málstað kommúnismans sem Halldór átti þátt í að breiða út. Í margra augum var mikilvægt að engum skugga brygði á þá kommúnísku sýn sem átti að færa þjóðinni. Hvers virði er einn skammarblettur þegar svo mikið liggur við? SÁLUHJÁLPARATRIÐI Saga Halldórs af Veru Hertzsch er aðeins lítið brot af endurminningum hans í Skáldatíma, en eins og Jón Ólafsson bendir á urðu örlög hennar hluti af menningarsögu Íslendinga þegar bókin var gefin út árið 1963 (11). Persónuleg saga Veru – og sú staðreynd að þagað var yfir henni af þjóðkunnum og mikilsmetnum mönnum í áratugi en hún svo skyndilega dregin fram í dagsljósið - vekur upp það sem vel mætti kalla stærstu spurningar mannkynssögunnar; hvort hugsjónir geti vegið og eigi að vega þyngra en persónuleg örlög og ábyrgð einstaklinga. Halldór Laxness ákvað þó að afgreiða þær spurningar sem „smámuni“ ef marka má málsgrein úr Gerska ævintýrinu frá 1938 sem Jón Ólafsson kallar „afhjúpandi“: Sú lifandi mynd baráttunnar á milli pólitískra höfuðafla [...] er í heild sinni svo hrikaleg, í hrikaleik sínum svo náskyld náttúruöflunum sjálfum, að atriði einsog siðferðileg eða lögfræðileg „sekt“ samsærismannanna, eða sú persónulega refsíng sem beið þeirra, verður í raun réttri smámunir sem ekki freista til kappræðu (37). Slíkt „áhugaleysi um örlög einstaklinga“ var „þema hjá fleirum en Halldóri“, bendir Jón á (38). Sagan af Veru Hertzsch gerði framgöngu Halldórs í þágu kommúnismans tortryggilega og í lok bókarinnar Appelsínur frá Abkasíu segir Jón að sumir gagnrýnendur Halldórs hafi spurt „þeirrar spurningar í fúlustu alvöru, eftir að Skáldatími kom út, hvað í ósköpunum það væri sem fengi Halldór til að skrifa það sem hann gerir þar um sjálfan sig, Sovétríkin og um Veru Hertszch“. Sjálf spurningin er hluti þeirrar afneitunar sem mótar samtíð kalda stríðsins og hefur enn áhrif á fólk. Sá sem spyr á þennan hátt hefur ekki áttað sig á því að þeir sem hafa upplifað lygina, hvort heldur er sem fórnarlömb eða – eins og Halldór Laxness – sem þátttakendur í henni – þurfa fyrr eða síðar á því að halda að aflétta leyndinni – tala eða skrifa. Það er sáluhjálparatriði að losna úr afneituninni. (347) Jón bendir á að „sjálfsmyndir þjóða og þær ímyndir sem ríki byggja tilveru sína og réttlætingu á krefjast goðsagna“ (352). Það er ekki sársaukalaust að gera upp við slíkar goðsagnir en þar er „minningin máttugt tæki. Með sögunni af Veru Hertzsch gerði Halldór Laxness meira til að varðveita minninguna um martröð stalínismans en með öllum öðrum skrifum sínum um Sovétríkin samanlögðum“ (355). Ef til vill er allur sögulegur skáldskapur og skáldskapur sem notar sögulegar staðreyndir sem efnivið tilraun til að endurskoða slíkar goðsagnir. Sú virðist að minnsta kosti raunin um þær bækur sem hér hafa verið til umfjöllunar. Verkefnið er flókið og það kemur kannski hvergi betur fram en í öllum flækjum persónanna í Illsku Eiríks Arnar Norðdahl. Stundum tekst þó að grafa um stund nógu vel undan goðsögnunum til að í ljós komi að spurningarnar, og svörin, eru kannski, þegar allt kemur til alls, ósköp einföld: Kannski er þrátt fyrir allt mikilvægt að skilja, að hlæja ekki, að bera kennsl á sjálfan sig. Kannski er þrátt fyrir allt mikilvægt, svona löngu síðar, að taka ekki þátt í því að drepa aðra (Illska, 536). Kristín Steinsdóttir. Bjarna-Dísa. Vaka- Helgafell. 2012.

x

Spássían

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.