Spássían - 2012, Blaðsíða 47
47
Jónsmessunótt
Þjóðleikhúsið
Höfundur: Hávar Sigurjónsson
Leikstjóri: Harpa Arnardóttir
Leikmynd: Finnur Arnar Arnarson
Búningar: Kristina R. Berman
Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson
Tónlist: Vala Gestsdóttir
Leikendur: Arnar Jónsson, Atli Rafn Sigurðarson,
Edda Arnljótsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Maríanna Clara
Lútersdóttir, Þorsteinn Bachmann og Þórunn Arna
Kristjánsdóttir.
ER hefðbundið leikritaform til einhvers nýtt? Geta
raunsæisleg fjölskyldu- og stofudrömu sagt okkur
eitthvað nýtt og ferskt um okkur í dag, sem ekki hefur
verið sagt áður? Megnar þetta nítjándualdarform Ibsens
og félaga að vekja með áhorfandanum þær spurningar
sem brýnast er að velta fyrir sér í dag? Öðrum þræði
finnst mér Hávar Sigurjónsson vera að reyna að forðast
að svara þessum „leikritunartæknilegu“ spurningum með
verki sínu, Jónsmessunótt. En hann svarar þeim reyndar
samt með því að þrátt fyrir allt reynist formið ágætt til
síns brúks.
Það er varla hægt að hugsa sér klisjulegri
grunnhugmynd. Fjölskylda kemur saman í
sumarbústaðnum til að fagna brúðkaupsafmæli elstu
kynslóðarinnar. Allt slétt og fellt á yfirborðinu, það fellur
hratt á goðsögukenndu glansmyndina, allir glíma við
erfiðleika, skapgerðarbresti, og getuleysið við að horfast
í augu við fjölskyldulygarnar dregur stórlega úr líkunum á
því að nokkur bjargist.
Auðvitað er Hávar Sigurjónsson, sá víðlesni, margfróði
og þaulreyndi leikhúsmaður, sér fullkomlega meðvitaður
um ófrumleikann. Og ég fæ ekki betur séð en hann
passi sig að ýta nógu rækilega á eftir honum fram á
sviðsbrúnina til að við vitum að hann viti. Því þetta
fólk er nánast yfirgengilega vonlaust – og afhjúpun
leyndarmálanna svo röskleg og fyrirsjáanleg að engu
er líkara en erindi skáldsins sé fyrst og fremst að
skopast með formið. Þannig leið mér þegar ég gekk
út af sýningunni – og fannst nú satt að segja það varla
leikhúsferðar virði að láta segja mér að leikritið, sem ég
hafði lagt á mig að ferðast milli póstnúmera til að sjá og
hafði fórnað nokkrum klukkustundum af lífi mínu í, væri
gamaldags og ómerkilegt.
Sem betur fer er þetta nú ekki alveg svona. Því
sýningin hélt áfram að velkjast í kollinum. Þetta gráðuga,
lítilsiglda lið, ættfaðirinn óþolandi og blönku og siðlausu
krakkarnir hans. Já, og ættmóðirin – sem er ekki bara
saklaust fórnarlamb sem hefur sóað ævi sinni í ástlausu
hjónabandi með þessum hrokafulla besservisser og
raðframhjáhaldara, heldur gert það með opin augun
– vitandi hvaða mann hann hafði að geyma. Og hefur
fengið nóg og gripið til sinna ráða. Það er hægt að horfa
á Jónsmessunótt sem áhugavert – og alvarlegt – tilbrigði
við stef Ibsens úr Brúðuheimilinu. Hvað ef Nóra hefði
beðið með að skella útidyrahurðinni þar til börnin hefðu
komist á legg? Hefði lygin sem hjónabandið var byggt
á eitrað andrúmsloftið þannig að þau hefðu aldrei náð
almennilegum siðferðisþroska? Hvers konar kona hefði
Nóra þurft að verða til að þrauka það líf og hvað hefði
hún gert þegar hún að lokum áttaði sig á hversu lítils verð
sú fórn reyndist?
Þetta eru spurningarnar sem Jónsmessunótt kveikti
hjá mér. Þannig að; já, hefðbundið stofudrama er
ekki dauðara en svo að jafnvel þegar því er ýtt út á
klisjujaðarinn megnar það að segja eitthvað gagnlegt og
áhugavert. Þetta tekst Hávari hér. Vel af sér vikið.
Sýningin er eiginlega lýta- og hnökralaus. Kristbjörg og
Arnar eru náttúrulega eins sjóuð og verða má í verkum
af þessum skóla og skila sínum rullum óaðfinnanlega,
þó tæpast marki þær merk tímamót á ferli þeirra – gætu
sennilega leikið þetta fólk í svefni. Atli Rafn og Þorsteinn
eru sömuleiðis á heimavelli sem synirnir skemmdu.
Þórunni Örnu man ég ekki eftir að hafa séð áður, en hún
er skemmtileg hér, og það sama má segja um Maríönnu
Clöru. Edda þótti mér hreint afbragð hér – mögulega
heilsteyptasta mannlýsing sýningarinnar.
Á góðum degi læt ég leikmyndir sem reyna að segja
mér um hvað leikritið er fara talsvert í taugarnar á mér.
Það kom mér því ánægjulega á óvart hvað ég var hrifinn
af verki Finns Arnars. Þessi göngustígarembihnútur
vísaði bæði í hina klassísku sumarbústaðasólpalla, en gaf
líka undir fótinn tilfinningunni fyrir þeim ógöngum sem
fjölskyldan hefur ratað í og verður að höggva á. Rýmið
nýtti Harpa Arnardóttir síðan vel og áreynslulaust við að
gefa tilfinningu fyrir því hvenær fólkið var inni og hvenær
úti, hvenær saman og hvenær í leynum. Búningar, lýsing,
tónlist – allt vinnur með verkinu að þessu sinni.
Jónsmessunótt er þegar upp er staðið fjári vel heppnuð
sýning. Ígrundað og vel smíðað leikrit úr margnotuðum
efnivið sem leikhúsið skilar óaðfinnanlega til okkar.
Sýning sem skemmtir manni á meðan hún varir og læðist
svo aftan að okkur með vangaveltur þegar heim er komið.
Eftir Þorgeir Tryggvason
Mynd: Þjóðleikhúsið
sveitaferðallir fara í
YFIRLESIÐ