Spássían - 2012, Blaðsíða 18
18
GUNNAR Helgason er flinkur að skrifa
hressilegar og fyndnar sögur. Þetta
sannaði hann þegar bækurnar Goggi
og Grjóni (1992) og Goggi og Grjóni
vel í sveit settir (1995) komu út og
lesendur veltust um af hlátri. Nú eru
sögurnar um Jón Jónsson orðnar
tvær talsins og auk þess að kitla
hláturtaugar sýnir Gunnar Helgason
að hann er lunkinn að skrifa um
tilfinningar stálpaðra stráka.
Bækurnar um Jón bera titlana
Víti í Vestmannaeyjum (2011) og
Aukaspyrna á Akureyri (2012) og
augljóst er hvert sögusviðið er
hvoru sinni. Hvor saga um sig gerist
á stærsta knattspyrnumóti ársins í
árgangi söguhetjanna, Shell-mótinu
og N1-mótinu, en Jón og félagar hans
í Þrótti gera sér nokkuð góðar vonir
um sigur. Þetta eru þó ekki eingöngu
sögur af vítaspyrnum, aukaspyrnum,
tæklingum og innköstum heldur
fjalla þær um vináttu, þroska, svik
og fyrirgefningu, missi, öfund og
heimilisofbeldi og er þá ekki allt upp
talið.
Fótboltalýsingar og átök tengd
boltanum, innan vallar og utan, eru
fyrirferðarmikil málefni í bókunum
og lýsingar á einstökum leikjum
geta orðið helst til langdregnar.
Gunnari tekst betur upp við að
gera grein fyrir tilfinningalegum
hliðum knattspyrnunnar en sjálfum
spörkunum og aukaspyrnunum.
Hann læðir líka inn umfjöllun um það
hvernig íþróttamenn eiga að haga
sér og af hverju, en boðskapurinn
er stundum nánast í prédikunartón.
Grófar og einfaldar myndskreytingar
Ránar Flygenring af skoppandi
boltum og leikmönnum Þróttar og
myndrænar lýsingar á mörkunum
sem strákarnir skora gæða þó
þennan hluta bókanna lífi. Í heild
falla myndir hennar mjög vel að
þeirri gleði og þeim húmor sem ríkir
í bókunum og kápumyndirnar eru
sérlega vel heppnaðar og byggðar
upp með sama hætti. Þar svífur Jón í
loftinu yfir fótboltavelli og er í þann
mund að senda frá sér hörkubolta.
Í fyrri bókinni gýs hvalur í baksýn,
eldfjall í þeirri síðari.
Það er heilmikil spenna tengd
fótboltanum; strákarnir leggja allt
í sölurnar til að vinna hvern leik og
þrá ekkert heitara en standa uppi
sem sigurvegarar að því loknu. Þetta
á við um báðar bækurnar en einnig
á það við um þær báðar að mestu
átökin og helsta dramað á sér stað
utan vallar. Í Víti í Vestmannaeyjum
snúast átökin mestmegnis um Ívar,
strák sem býr í Eyjum, er í ÍBV og er
því mótherji Jóns og félaga hans. Ívar
býr við heimilisofbeldi. Faðir hans,
Tóti, er drykkjusvoli, en fyrrverandi
fótboltahetja. Þar til Jón og hinir
Þróttararnir mæta á svæðið er lítið
gert í því þótt Tóti gangi í skrokk á
syni sínum, enda er tvíburabróðir
hans lögga í plássinu. Í seinni bókinni
er Ívar genginn til liðs við Þróttara
og fluttur til Reykjavíkur. Allt virðist
með kyrrum kjörum en Tóti dúkkar
upp á Akureyri og veldur alls kyns
vandræðum.
Persónusköpunin er full grunn í
Víti í Vestmannaeyjum en lesendur
kynnast sumum persónum þó
betur í seinni bókinni, einkum
aðalpersónunni Jóni Jónssyni. Jón
er heillandi karakter en hann er
gjörsamlega ómeðvitaður um eigin
kosti – bæði á vellinum og utan hans
– auk þess sem hann er langt í frá
fullkominn. Fótboltabækurnar eru
þroskasögur Jóns þar sem hann þarf
að takast á við og viðurkenna eigin
bresti og þótt það sé erfitt þarf hann
stundum að biðjast afsökunar. Einnig
þarf hann að læra að meta sjálfan
sig. Það er Jón sem segir sögurnar
og sögumannsröddin er ágætlega
sannfærandi. Bækurnar eru skrifaðar
á hressilegan og eðlilegan hátt, þ.e.
málfarið gengur vel upp miðað við
þann aldur sem bækurnar fjalla
um auk þess sem þær falla vel að
tíðarandanum.
Víti í Vestmannaeyjum og
Aukaspyrna á Akureyri eru langar
og efnismiklar bækur, önnur um
260 síður og hin tæpar 300. Þetta
ætti þó ekki að fæla unga lesendur
frá bókunum heldur þvert á móti.
Bækurnar eru báðar nægilega
spennandi til að maður verði hálf
svekktur þegar flett er á lokasíðuna
og það er alltaf kostur, á svolítið
öfugsnúinn hátt.
Gunnar Helgason. Víti
í Vestmannaeyjum.
Myndskreytingar: Rán
Flygenring. Mál og
menning. 2011.
Gunnar Helgason.
Aukaspyrna á Akureyri.
Myndskreytingar: Rán
Flygenring. Forlagið.
2012.
Spenna, gleðiog sorg
innan og utan vallar
Eftir Helgu Birgisdóttur
YFIRLESIÐg a g n r ý n i