Spássían - 2012, Blaðsíða 48
48
Sjáðu fyrir þér fjölskyldumynd. Allir í sínu fínasta pússi
og standa prúðir, fáguð mynd af fáguðu fólki. En þegar
þú ferð að rýna í myndina sérðu að það er eitthvað sem
passar ekki alveg, andrúmsloftið er þvingað og brosin
fölsk. Um þetta fjallar bókin Kantata, á yfirborðinu að
minnsta kosti. Hún er fjölskyldusaga þar sem allt er gefið í
skyn en ekkert sagt, og í því felst fegurð verksins.
Sögupersónurnar eru hjónin Gylfi og Nanna. Hann
er eigandi hótelkeðju og laxveiðiár og hún er húsmóðir,
náttúruunnandi og þýðandi í hjáverkum. Þau eiga dóttur,
Sennu, sem á að taka við fjölskyldurekstrinum en hún
hefur önnur áform. Finnur, föðurbróðir Gylfa, vinnur
sem endurskoðandi á hótelinu, og hjá honum býr Dúi,
systursonur hans og móttökustjóri hótelsins. Gylfi á
hálfbróður, Hjálmar, sem er frægur leikari og býr með
móður sinni, Ingdísi. Yfirborðsmyndin er falleg en það þarf
ekki að kafa djúpt til að sjá að margt er að og myndin er
ekki heil.
Verkið reiðir sig mikið á undirtexta og er mjög
táknrænt. Þungamiðja verksins er Nanna og garðurinn
hennar. Hún er aðdráttaraflið sem togar alla til sín og
heldur þvingaðri myndinni í skorðum. Hún er jafnt
eiginkona, vinkona, ástkona (úr fjarlægð), systir, móðir,
amma og frænka. Þegar útlenskur ljósmyndari, sem Ingdís
nefnir Loka, flytur í kjallarann er jafnvæginu raskað.
Þema bókarinnar er hin takmarkaða persónulega sýn
mannsins á sjálfan sig og lygarnar sem við segjum sjálfum
okkur. Persónurnar virða hver aðra fyrir sér en eru ófærar
um að líta í eigin barm, þær eyða ómældum tíma saman
en þó þekkja þær hver aðra eins lítið og sjálfar sig. Það
boðar því strax vandræði þegar ljósmyndarinn mætir á
svæðið og þvingar þær til að sjá það sem þær neita að sjá,
sem endurspeglast í viðbrögðum þeirra við ljósmyndum
hans: „þessar sem teknar eru á barnum, þar sem hann
fær sér bjór með félögum sínum, eru líka eitthvað fóní […]
það er einhver töffarasvipur á honum sjálfum sem hann
kannast ekki við“ (134). Ljósmyndaverkefni Loka tekur þó
bara til karlmannanna, hann vill mynda þá við daglegt líf.
Það þýðir ekki að konurnar sleppi undan uppgjörinu.
Samspil hins kvenlega og karllega er líka mjög
mikilvægt, sérstaklega eftir því sem aðskilnaðurinn verður
meiri þarna á milli. Nanna og Gylfi eru í forgrunni þess,
hún í garðinum sínum og hann við ána sína; tamin náttúra
á móti hinni villtu. Loki, hinn undirförli, kemur sér síðan
fyrir í kjallaranum, beint undir rótum heimilis þeirra,
og tekur til við að naga þær eins og hann sé Níðhöggur
sjálfur.
Kristín Marja stillir upp fleiri andstæðupörum í bókinni.
Hún fjallar til dæmis um sýn stolta Íslendingsins á hinn
undarlega útlending; með öðrum orðum um þjóðrembu
og kynþáttafordóma. Skínandi dæmi um þetta er í einum
kaflanum þar sem hliðarpersóna stígur fram og segir frá
fundi sínum við Ingdísi:
Hún sagði að þetta væri einhver arabi eða svertingi, hún
vissi ekki hvort heldur væri, hann væri svo blandaður [...]
[H]ann hefði óskað eftir að fá að taka myndir af öllum
nema henni og frúnni á heimilinu. Þetta væri sem sagt
algjör karlremba. Og svo var hún eitthvað að tala um að
þeir væru allir þannig, þessir karlar þarna fyrir sunnan,
nema það væri eitthvað bogið við þennan, hann þættist
vera Parísarbúi en bæri þess öll merki að vera frá Afríku
eða Asíu eða guð mætti vita hvaðan [...] Hún sagði að
þetta væri útlendur maður í yngri kantinum, dökkur en
samt myndarlegur“ (148-150, skáletrun mín).
Þessar yfirlýsingar Ingdísar, ásamt því að hún heldur
langa ræðu yfir Dúa um það að Loki hljóti að vera múslimi
vegna þess að hann sparkar í Olla, hundinn hans Dúa,
og ætlar ekki að taka myndir af konunum, segja mun
meira um hana sjálfa en ljósmyndarann nokkurn tíma.
Henni tekst líka að lauma því með að hann hljóti að hata
samkynhneigða, og hnykkir þar með enn frekar á eigin
þröngsýni.
Við vitum ekkert um persónulegar skoðanir Loka,
við höfum engan aðgang að tilfinningum hans eða
hugsunum. Allt sem við vitum um hann er túlkað af
fjölskyldunni og því má vel vera að hann sé argasta
karlremba, en það er ekki það sem sagan snýst um. Hún
snýst um að afhjúpa kjarnann í manneskjunni sjálfri.
Sögumaðurinn hnykkir líka á þessu í lok eiturræðu
Ingdísar, eftir að hún hefur reynt að afsaka sig með því að
segja að það séu líka til góðir múslimar, og segir: „Orðin
sátu hins vegar eftir, eins og ætíð þegar mönnum hefur
tekist að koma skoðun sinni á framfæri“ (172).
Nanna og Dúi lenda einnig í menningarlegum
árekstrum við Loka, og þar gegnir hann líka því hlutverki
að vera sá sem neyðir þau til að horfast í augu við það
sem þau bæla og afneita, með misjöfnum árangri. Sú
staðreynd að allir í fjölskyldunni kalla Loka einfaldlega
„útlendinginn“ eða „ljósmyndarann“, er annað dæmi
um hvernig komið er upp um þeirra eigið innræti. Gylfi,
Finnur og Hjálmar telja hann jafnframt vera sendiboða
fyrir múslima, og verða skyndilega varðmenn kristilegra
gilda sem eiga undir högg að sækja og þurfa að verja sig
fyrir „árásinni“ að utan en að baki liggja ýmsir efnislegir
hagsmunir. Hin einföldu samskipti á milli þremenninganna
og Loka verða að átökum ýmissa tvennda; til dæmis
íslensk náttúra gegn útlenskum fjárfestingum, kristni
gegn íslam, „hinir“ gegn „okkur“, siðmenning gegn
villimennsku (sem endurspeglast í vísunum í hugmyndir
um kúgun kvenna í menningu Loka á meðan þeir þrír
sjá um hina raunverulegu kúgun). Með þessu er deilt
á yfirborðskennda þekkingu og sleggjudóma, við erum
minnt á að ekki er allt sem sýnist og það er óvarlegt að
dæma heilu samfélögin út frá þröngri sýn á einstaklinga.
Verkið er borið uppi af stílnum frekar en
atburðarrásinni sem slíkri, langir kaflar um Nönnu að
bisa í garðinum eru svo mikið meira en virðast við fyrstu
sýn, hvert orð ber í sér aukalega merkingu. Sjónarhorn
verksins flakkar út um allt, meira að segja hundurinn og
blómin fá að leggja orð í belg. Það er sérstaklega vel gert
hjá Kristínu Marju, að í þau skipti sem sögumaður talar í
fyrstu persónu reynist hann vera óséð hliðarpersóna sem
við fáum ekki einu sinni nafnið á. Þetta eru nánustu og
persónulegustu andartökin í sögunni, þar sem persónan
á í trúnaðarsamtali við ósýnilegan áheyrenda, og við sem
lesendur liggjum á hleri.
Það er hægt að velta þessu verki fyrir sér út frá ótal
vinklum; samspili náttúrunnar eða ljóss og skugga,
femínisma, heildinni sem Finnur, Gylfi og Hjálmar mynda,
leitinni að sjálfum sér, sjálfsflótta og ótal mörgu enn. En sá
sem leggur í það ferðalag sem verkið býður upp á verður
að ganga inn í það með opnum huga og tilbúinn að túlka
það sem er ósagt látið, annars fer verkið fyrir ofan garð
og neðan og er ekkert meira en ruglingsleg fjölskyldusaga
sem opnar á allt en lýkur engu.
Þvinguð
fjölskyldumynd
Eftir Kolbrúnu Lilju
Kolbeinsdóttur
Kristín Marja Baldursdóttir.
Kantata. JPV. 2012.
g a g n r ý i