Spássían - 2012, Blaðsíða 24
24
EKKI HVERJU SEM VAR HLEYPT INN
Kápan á Ströndum, nýjustu ljóðabók Gerðar
Kristnýjar, minnir helst á bútasaumsteppi eða
pappírslistaverk. Hönnuðurinn Alexandra Buhl
virðist hafa ofið saman mjóa renninga í bláum og
hvítum tónum. Þeir virðast ýmist ætla að stökkva
fram eða sökkva ofan í bókina. Þarna sjást ský,
himinn, ísjakar, jökull, sjór – eða jafnvel þetta allt
saman. Titill bókarinnar, Strandir, stekkur líka fram,
ritaður á appelsínugulan borða. Hann er fenginn úr
fyrsta ljóði bókarinnar þar sem ort er um Strandasýslu
en þaðan á Gerður rætur að rekja. Í öðrum ljóðum
er staðnæmst við æskuslóðir skáldsins í Safamýri í
Reykjavík og hugað að vorinu í Skerjafirðinum þar
sem Gerður býr nú. Í „Hólavallagarði“ er lesandinn
harkalega minntur á stríðsátök úti í hinum stóra
heimi. Sum ljóðin gerast í útlöndum og segja má að
í Ströndum fari Gerður víðar en áður og þótt oft sé
nístingskuldi í ljóðunum eru þar líka afslappaðri og
hlýlegri ljóð. Gerður tekur ekki fyrir að svo sé.
Gerður Kristný hefur hlotið fjölda verðlauna,
bæði fyrir barnabækur sínar og fullorðinsbækur.
Fyrir tveimur árum fékk hún síðan Íslensku
bókmenntaverðlaunin fyrir Blóðhófni en nú eru
það Strandir sem gagnrýnendur hafa skreytt hverri
stjörnunni á fætur annarri, enda er skáldið þar í
fantagóðu formi. Ljóðin virðast í fyrstu láta lítið yfir
sér en reynast oft geyma stóra sögu. Myndirnar sem
dregnar eru upp eru fágaðar og meitlaðar. Helga
Birgisdóttir ræddi við Gerði Kristnýju um hvernig hún
hefur slakað á landamæravörslunni í ljóðheimi sínum.