Spássían - 2012, Blaðsíða 52
52
ÓFULLGERÐUR HEIMUR
Tolkien var með sannkallaða fullkomnunaráráttu hvað
varðaði bókaútgáfu. Hann sat á stórvirkinu Silmerillinum
eins og drekinn Smeygur á gullinu í Erebor, endalaust
að endurskrifa, bæta við og laga, alveg þangað til hann
lést 81 árs gamall árið 1973 og aðrir fengu að taka við
fjársjóðnum. Sonur hans, Christopher Tolkien, gaf verkið
út fjórum árum síðar og hefur gert ævistarf úr því að fara
í gegnum handritsbúta föður síns og gefa út óklárað efni í
ýmsum myndum. Líklega hefði engu máli skipt þótt Tolkien
hefði lifað heila öld í viðbót, sköpunarverk hans er svo
gríðarstórt og mikilfenglegt að hann hefði eflaust aldrei
náð að „klára“ það nema vegna inngrips utanaðkomandi
aðila, hvort sem það voru aðdáendur, ritstjórar eða
sjálfur dauðinn. En jafnvel útgefin verk Tolkiens voru
aldrei fyllilega kláruð vegna þess að þau voru ávallt að
breytast að einhverju leyti, að mótast og aðlagast víðara
samhengi goðafræði og sagnahefðar sem Tolkien var
endalaust að dútla við. Hringadróttinssaga stendur t.a.m.
sem sjálfstæð heild, en viðbæturnar sem fylgdu síðasta
bindinu bera því skýrt vitni hvernig Tolkien lék sér að því
að staðsetja söguna innan þeirrar heimsmyndar sem hann
hafði skapað. Þar er farið nákvæmlega út í sagnfræðina
á bak við verkið, ættfræði persóna og útskýringar á
atburðum sem dýpka mjög upplifun lesandans á efninu.
Það sama má segja um sagnaflóruna sem leit dagsins ljós
eftir dauða höfundarins og þá sérstaklega goðsögurnar í
Silmerillinum.
Tolkien hefði eflaust legið mun lengur á
Hringadróttinssögu ef útgefandinn hefði ekki setið yfir
honum og heimtað framhald af Hobbitanum, sem hafði
notið mikilla vinsælda eftir að hún kom fyrst út árið
1937. Það sem átti að vera saga af svipaðri lengd og
fyrir svipaðan lesendahóp og fyrri bókin varð að lokum
langtum lengra og flóknara verk. Í bréfi til útgefandans
Stanley Unwin 19. desember 1939 segist Tolkien vera á
fullu að skrifa framhaldið, en óttast að það sé að „stækka
um of“ og muni „ekki beinlínis henta sama lesendahópi
(fyrir utan þá sem eru nú þegar orðnir eldri).“ Sú varð
raunin, enda liðu sautján ár á milli Hobbitans og Föruneyti
hringsins sem leit loks dagsins ljós árið 1954 og reyndist
vera mun alvarlegra og myrkara verk en upp var lagt með.
Fyrrnefndir viðaukar áttu að fylgja þessu fyrsta bindi, en
þeir birtust þó ekki fyrr en með þriðja bindinu í október
1955. Útgáfunni á því seinkaði einmitt vegna viðaukanna
enda virðist sem svo að Tolkien hafi átt jafn erfitt með að
segja skilið við þá eins og flest annað sem hann skrifaði.
„Ég óska þess nú að hafa aldrei gefið loforð um viðauka!“
ritaði hann til útgefandans 6. mars 1955 undir mikilli
pressu að ljúka verkinu endanlega.
Í sérstöku hefti tímaritins Empire sem tileinkað er
Hobbitanum segir Tolkien-sérfræðingurinn Tom Shippey
frá því að höfundurinn hafi verið svo mikill slóði við að
senda frá sér eigið efni að það sé líklega hvatningu félaga
hans, C.S. Lewis, að þakka að Hringadróttinssaga hafi
komið út á annað borð. Að sama skapi hefði Tolkien líklega
aldrei komið Hobbitanum í útgáfu ef fyrrum nemandi
hans, Elaine Griffiths, hefði ekki gripið til sinna ráða.
Hún fékk handritið lánað og gaukaði því að útgefanda,
en sjálfur hafði Tolkien látið sér nægja að sýna nokkrum
vinum efnið og skella því svo ofan í skúffu. „Það þurfti að
rífa af honum handritið,“ útskýrir Shippey, „og skila því
inn á meðan Tolkien sat fastur og sagði „En það er ekki
tilbúið; ég þarf annað ár í viðbót!““ Því er ekki að undra
að Silmerillinn hafi legið ókláraður í öll þessi ár, þrátt fyrir
að Tolkien hafi verið samningsbundinn því að skrifa fleiri
bækur. Í þessu samhengi er þó ekki hægt að líta framhjá
bréfi sem Tolkien ritaði til aðdáanda 20. september
1963, þar sem hann játar efasemdir um réttmæti þess
að fullgera sköpunarverk sitt og færir rök fyrir eigin
útgáfutregðu: „Hluti af því sem heillar við Hringadróttin
tel ég einmitt vera leiftursýnina á hina miklu sögu sem
liggur í bakgrunninum: aðdráttaraflið sem ókönnuð eyja
býr yfir úr fjarska, eða turnar í fjarlægri borg sem glitra
í upplýstri þoku. Að fara þangað felur í sér að tortíma
töfrunum, nema að nýr og óræður sjóndeildarhringur
opnist um leið.“
ENGINN GEORGE LUCAS
Þrátt fyrir miklar viðbætur við heildarverkið var Tolkien þó
enginn George Lucas – sem hefur endalaust verið að krukka
í upprunalegu Stjörnustríðs-myndirnar – og leyfði sjálfum
ritsmíðunum að mestu að standa óáreittum. Aukalegar
upplýsingar komu iðulega fram í gegnum jaðarinn, í
óútgefnum sögum, fyrrnefndum viðaukum og alls kyns
handritsbútum sem sýna fram á tilraunir höfundarins til
að skapa sameinaða og ótruflaða heildarmynd af hinum
forsögulega Miðgarði. Þó er ein undantekning á þeirri
hefð og hana er að finna í Hobbitanum. Um leið og vinna
var hafin á framhaldinu kom fljótlega í ljós ósamræmi á
milli Hobbitans og Hringadróttinssögu. Þetta kom fyrst
og fremst fram í kaflanum „Gátur í myrkri“ þar sem Gollri
og töfrahringnum er lýst, en í fyrstu útgáfu Hobbitans var
Gollrir allt öðruvísi skrímsli (hann var hvorki úrkynjaður
hobbiti né spilltur af kröftum hringsins) og hringurinn
ekkert sérstaklega merkilegur, utan þess að hann gerði
mann ósýnilegan. Með aukinni áherslu á mátt hringsins
í framhaldssögunni þurfti Tolkien að bregðast við þessu
ósamræmi. Það gerði hann á tvo vegu. Í fyrsta lagi skrifaði
hann útskýringu í innganginn að Föruneyti hringsins
þar sem fram kemur að Bilbó (sem er titlaður höfundur
Hobbitans) hafi einfaldlega sagt ósatt frá því þegar
honum hlotnaðist dýrgripurinn. Misræmið er þannig
leyst með því að gera söguhöfundinn óáreiðanlegan og
láta Bilbó ljúga undir áhrifum frá hinum illa hring. Í öðru
lagi endurskrifaði Tolkien kaflann um Gollri og hringinn
og breytti honum töluvert svo að sagan passaði betur við
megininntak Hringadróttinssögu – Gollrir er þá orðinn
Rankin-Bass
teiknimyndin
frá 1977.