Morgunblaðið - 25.06.2020, Blaðsíða 16
16 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 25. JÚNÍ 2020
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi
þingmaður Samfylkingarinnar og
utanríkisráðherra, hefur gegnt
starfi stjórnarformanns Yutong
Eurobus Scandinavia AB (YES) í
Svíþjóð frá árinu 2018. Össur kveðst
ekki vilja tjá sig um starfið, hvorki
hvernig það kom til að hann fékkst í
það eða í hverju það felst.
Benedikt Gísli Guðmundsson,
aðaleigandi félagsins, segir í tölvu-
pósti að Össur hafi verið fenginn til
að gegna stöðu stjórnarformanns
YES árið 2018. „Fyrir okkur eig-
endur YES AB var það mikill og
góður fengur að fá hann inn enda er
hann bæði reynslumikill samn-
ingamaður og með góða þekkingu á
þeim markaði sem við vinnum hvað
helst á, sem er Skandinvía.
Össur hefur einnig mjög góða
reynslu af samskiptum við Kínverja
sem er mikilvægt enda vinnur Yu-
tong Eurobus Scandinavia náið með
Yutong í Kína,“ útskýrir hann, en í
ráðherratíð sinni undirritaði Össur
meðal annars fríverslunarsamning
milli Íslands og Kína.
Vissu ekki af Össuri
Í nóvember 2018 fór fram formleg
afhending 14 Yutong-rafvagna til
Strætó bs. og voru þar meðal annars
viðstödd Sigurður Ingi Jóhannsson
samgönguráðherra, Jin Zhijian
sendiherra Kína, Björg Fenger
stjórnarformaður Strætó og Össur
Skarphéðinsson.
Jóhannes Svavar Rúnarsson,
framkvæmdastjóri Strætó, segir
Össur ekki hafa átt í samskiptum við
stjórnendur Strætó um rafmagns-
vagna. „Við höfðum ekki hugmynd
um að hann væri í þessu fyrirtæki
fyrr en við vígslu verkefnisins við
Hörpu.“ gso@mbl.is
Össur stjórnarfor-
maður umboðsins
Reynsla af samskiptum við Kínverja
Morgunblaðið/Ómar
Formaður Össur Skarphéðinsson
hefur verið í stjórn YES frá 2018.
Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Yutong Eurobus Scandinavia AS,
norskt dótturfélag íslenska fyrir-
tækisins GTGroup ehf., hefur nýlega
gengið frá samningi um sölu 102 raf-
magnsvagna til Bergen í Noregi.
Fyrirtækið er umboðsaðili fyrir kín-
versku rafknúnu strætisvagnana frá
framleiðandanum Yutong í Noregi,
en GTGroup er einnig aðaleigandi
umboðanna Yutong Eurobus Scand-
inavia AB í Svíþjóð og Yutong ehf. á
Íslandi.
Benedikt Gísli Guðmundsson, að-
aleigandi GTGroup og framkvæmda-
stjóri umboðanna, segir félagið í Sví-
þjóð halda utan um sölu í Danmörku
og Finnlandi og hefur það náð tveim-
ur fyrstu stóru samningunum um
rafvæðingu almenningssamgangna í
þeim ríkjum.
Benedikt segir samstarfið við Yu-
tong hafa gengið „mjög vel og erum
við fyrstu samtarfsaðilar Yutong inn
á Evrópumarkað“. Hann segir að
Yutong Eurobus ehf. hafi verið
stofnað árið 2006 og séð um sölu og
markaðssetningu á rútum og vögn-
um fyrir Yutong til Skandinavíu.
Bendir Benedikt á að félagið hefur
unnið þrjú útboð hjá Strætó bs. um
sölu og afhendingu á 14 rafmagns-
vögnum til fyrirtækisins.
Kallaði á breyttar forsendur
Þess ber að geta að rafmagns-
vagnar uppfylltu ekki í fyrstu skil-
yrði rammasamnings um endurnýj-
un strætisvagna sem var gerður árið
2013 og var til grundvallar síðari út-
boða vegna fyrirætlana Strætó um
endurnýjun vagna félagsins. Var
fyrsta örútboðið haldið í mars 2015
og annað í júní 2016. Milli fyrsta og
annars útboðs hafði hins vegar skil-
yrðum rammasamnings útboðanna
verið breytt, meðal annars með tilliti
til drægi vagna sem sagði að þyrfti
að vera 500 kílómetrar og nýtingar-
tími 19 klukkustundir, og í kjölfar
þeirra breytinga gat umboðsaðili
Yutong hér á landi tekið þátt. Það
var síðan í kjölfar þriðja örútboðsins
í nóvember 2016 að gerðar voru at-
hugasemdir við breytingar á skilyrð-
um af hálfu samkeppnisaðila, B&L.
Kærunefnd útboðsmála komst að
þeirri niðurstöðu að athugasemdir
við útboðin hefðu borist of seint auk
þess sem B&L hefði ekki gert at-
hugasemd strax þegar því var til-
kynnt um fyrirhugaða breytingu.
Engu að síður segir í niðurstöðu
kærunefndarinnar: „Af gögnum
málsins verður ráðið að skilmálum
rammasamnings hafi verið breytt í
örútboðum II og III sem fram fóru í
júní og nóvember 2016.“
Hvergi var að finna í fundargerð-
um stjórnar Strætó sérstaklega til-
greint að fyrrnefndar breytingar
hafi verið gerðar á forsendum út-
boðanna þó að bókuð sé samþykkt
fyrir því að útboðin fari fram. Jó-
hannes Svavar Rúnarsson, fram-
kvæmdastjóri Strætó, segir að
breytingarnar hafi verið gerðar að
frumkvæði stjórnenda fyrirtækis-
ins sem lögðu útboðsgögnin fyrir
stjórn til samþykktar.
Ekki raunhæft að gera
sömu kröfur
„Við vorum fyrst og fremst að
hugsa um rafmagnstæknina, vissum
svo sem ekkert hver myndi bjóða í
þetta. Það var fyrst og fremst það að
í fyrsta örútboðinu hafi krafan verið
þannig að rafmagnsvagn hefði þurft
að geta gengið allan daginn, sem er
krafa sem aldrei er hægt að uppfylla.
Ég held að menn hafi gert nokkrar
breytingar til þess að það væri
möguleiki að bjóða tæknina,“ út-
skýrir hann.
Spurður hvort stefnubreyting hafi
orðið til þess að atriðum útboðs var
breytt svarar Jóhannes Svavar:
„Það var alltaf möguleiki að bjóða
dísil og rafmagn. Rafmagnið með
ákveðnum skilmálum. Og þegar um-
hverfisáherslur fara að breytast,
bæði á Íslandi og annars staðar, var
farið yfir þessar tæknilegu kröfur
varðandi rafmagnstæknina og að-
eins dregið úr þessu drægi, mönnum
er leyft að hlaða yfir daginn, til þess
að það væri raunhæft að bjóða raf-
magnsvagna. […] Þetta var aldrei
hugsað fyrir einhvern einn framleið-
anda.“
Samkvæmt stigagjöf valnefndar
kom Yutong best út í þremur útboð-
um og festi Strætó bs. kaup á 14
vögnum frá félaginu fyrir tæplega
milljarð króna. Í ágúst 2017 var haft
eftir framkvæmdastjóranum í
Fréttablaðinu að um tilraunaverk-
efni væri að ræða, en tafðist tilraunin
nokkuð þar sem vagnarnir voru ekki
afhentir að fullu fyrr en í nóvember
2018.
Sýningarbásinn
„Það verður aldrei jafn mikil nýt-
ing á rafmagnsvögnum og dísil-
vögnum,“ svarar Jóhannes Svavar
spurður um nýtingu vagnanna.
„Hins vegar erum við að keyra þá
um það bil 90% af keyrslu dísilvagna
á mánuði. Dísilvagn getur verið um
10 þúsund kílómetrar og við erum að
ná rafmagnsvögnunum upp í um 9
þúsund kílómetra á mánuði. Þetta
hefur verið langt umfram væntingar
hvað við höfum getað nýtt þetta vel.
Rafmagnið er ódýrt og svo hafa þeir
gengið eins og klukka.“
Í fréttatilkynningu framleiðand-
ans Yutong frá 2018 vegna afhend-
ingar vagnanna virðist Ísland hafa
verið nýtt sem eins konar sýningar-
bás fyrir strætisvagnana og evr-
ópskum gestum boðið að koma og
skoða rekstur þeirra. Þá segir kín-
verska félagið stolt frá því að danskir
fulltrúar pöntuðu 20 rafmagnsvagna
í kjölfar þess að skoða rekstur vagn-
anna hér á landi. „Afhending 14 Yu-
tong-rafmagnsvagna til Íslands er
aðeins fyrsta skref landsins í notkun
rafmagnsvagna. Yutong mun einnig
opna nýjan kafla í almenningssam-
göngum á Íslandi og jafnvel Skand-
inavíu allri,“ segir í tilkynningunni.
Morgunblaðið/Valli
Endurnýjun Framkvæmdastjóri Strætó segir rafmagnsvagna Yutong hafa reynst vel, en sala þeirra hefur aukist.
Umfangsmikil sala Yutong-rafvagna
Íslenskt félag með Yutong-umboð á Norðurlöndum Rafvæðing almenningssamgangna ýtir undir
söluna Tilraunaverkefni Strætó með 14 vagna nýtt sem sýningarbás fyrir skandinavíska kaupendur
Benedikt G.
Guðmundsson
Jóhannes Svavar
Rúnarsson