Morgunblaðið - 25.06.2020, Blaðsíða 64
64 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 25. JÚNÍ 2020
Þverholti 5 • Mosfellsbæ • Sími 898 1744 • myndo.is
Við búum til
minningar myndó.isljósmyndastofa
BRÚÐKAUPS MYNDIR
Magnús Guðmundsson
magnusg@mbl.is
Opna svæðið. Tímaritið Birtingur og
íslenskur módernismi, nefnist nýút-
komin bók eftir Þröst Helgason sem
er byggð á doktorsritgerð hans í bók-
menntafræði frá Háskóla Íslands.
„Ég hef lengi haft áhuga á þessu
fyrirbæri sem menningartímaritið er.
Þetta er þvermenningarlegt fyrirbæri
sem er í eðli sínu vettvangur þar sem
ýmsar listgreinar mætast. Ég var
sjálfur búinn að fást við að skrifa um
ýmsar greinar og það var ekki síst
fyrir þær sakir að þetta efni höfðaði til
mín. Birtingur var menningartímarit,
bókmenntatímarit og listtímarit auk
þess að vera merkilegur listmiðill.“
Lítil tímarit með stórt hluverk
Þröstur segir að tímaritið Birt-
ingur, sem kom út á árunum 1955 til
1968, hafi verið meginviðfangsefni sitt
en í rannsóknarferlinu uppgötvist iðu-
lega eitthvað spennandi. „Ég upp-
götva í ferlinu þetta nýja rannsókn-
arsvið sem eru lítil tímarit eða
módernísk tímarit. Þetta fyrirbæri á
sér ríflega aldarlanga sögu en rann-
sóknir á því hafa tekið að blómstra
síðustu 20 árin.
Þessi litlu tímarit urðu til í sögu-
legu framúrstefnunni í byrjun síðustu
aldar, flest sem boðberar liststefna á
borð við súrrealisma og dadaisma.
Seinna var farið að tala um þau sem
módernísk tímarit því þau héldu
áfram að koma út fram eftir öldinni og
áttu stóran þátt í að kynna módern-
isma til sögunnar og móta hann. Þessi
tímarit eru kölluð lítil því oftast voru
þau gefin út af litlum efnum, af litlum
róttækum hópum, auk þess að koma
út í stuttan tíma og rata yfirleitt til
fárra lesenda.
Þannig að þau voru lítil í ýmsum
skilningi en höfðu hins vegar mjög
mikil áhrif og gegndu stóru hlutverki í
boðun módernisma á síðustu öld.“
Plægja akurinn
Þröstur leggur áherslu á að Birt-
ingur hafi verið lykiltímarit hér á
landi en vissulega hafi komið út önnur
áhrifamikil tímarit um miðja síðustu
öld og er saga margra þeirra einnig
rakin í bókinni. Kjarnahópur Birt-
ingsmanna voru þeir Einar Bragi,
Hörður Ágústsson, Thor Vilhjálms-
son og Jón Óskar en Þröstur segir að
þarna hafi verið á ferðinni ungir menn
með skýrt markmið. „Markmiðið var
að breyta íslenskum menningarvett-
vangi og menningarlífi. Að opna þenn-
an vettvang upp á gátt. Þangað og til
ákveðinna þátta í fagurfræði módern-
ismans sæki ég titil bókarinnar, Opna
svæðið.
Það varð vissulega opnun á Íslandi
eftir stríð, ungt fólk streymdi í menn-
ingartengt nám á sama tíma og mót-
tökustöðvar Íslendinga voru í meira
mæli stilltar á nýjar hugmyndir. Birt-
ingur stökk inn á þetta svið og tók að
sér það hlutverk að plægja akurinn
fyrir nýja strauma og stefnur.“
Koma Íslandi í samband
Þröstur segir að Birtingsmenn hafi
einsett sér að vinna gegn þeirri ein-
angrunarhyggju og fagurfræðilegu
íhaldssemi sem var ríkjandi á fyrri
hluta aldarinnar. Efnið var fjölbreytt
og þar á meðal mikið þýðingarstarf.
„Markmiðið var að fylla hreinlega upp
í eyðurnar þar sem vantaði þýðingar á
helstu módernísku skáldum aldar-
innar. Þarna var unnið gríðarmikið
starf en Birtingur varð sömuleiðis
vettvangur fyrir umræðu um þessar
bókmenntir, strauma og stefnur. Í rit-
inu er líka unnið mikið innflutnings-
starf á arkitektúr og myndlist.
Hörður Ágústson þýddi til dæmis þá
fjörugu umræðu sem átti sér stað í
París á sjötta áratugnum um mynd-
list, einkum abstraktið. Hann fór líka
til Parísar og tók viðtöl fyrir Birting
við helstu framámenn abstraktsins á
þessum árum.
Seinna kom svo Atli Heimir
Sveinsson úr tónlistarnámi hjá
Stockhausen í Þýskalandi með fullt af
nýjum hugmyndum og byrjar að
skrifa í Birting, ekki síst um framúr-
stefnulega tónlist og flúxusinn. Með
þessu móti komst íslensk menning í
snertingu við það nýjasta og heitasta
sem var að gerast í evrópsku og að
einhverju leyti amerísku listalífi á út-
gáfutíma Birtings.“
Bjuggu til andstæðinga
Birtingsmenn voru harðir í sinni
afstöðu til listanna og Þröstur segir
að þeir hafi jafnvel gert í því að sækja
sér átök. „Þeir skilja ekkert í íhalds-
sömum viðhorfum, af hverju menn
vilja skrifa raunsæisleg verk og hvað
þá sósíalrealisma Kristins E. Andrés-
sonar.
Þeir búa sér til andstæðinga og
einn af þeim var Sigurður Nordal
sem var fulltrúi hefðarinnar. Hið
sama var með Stein Steinar sem vildi
þó alveg vera með þeim í liði en þeir
litu svo á að hann væri einhvers kon-
ar jaðarmaður í þeirri baráttu fyrir
nýrri ljóðlist sem þeir háðu. Og svo
var það Kristinn og veldi Máls og
menningar sem varð þeirra höfuð-
andstæðingur.“
Þröstur bendir á að Birtingsmenn
hafi jafnvel horft fram hjá ákveðnum
verkum þessara manna sem voru tví-
mælalaust módernísk, á borð við leik-
ritið Uppstigningu eftir Nordal og
ljóðlist Steins sem hafi verið í merki-
legu samtali við abstrakt myndlist og
ruddi að mörgu leyti brautina fyrir
Birtingsmenn og var hlekkur á milli
hefða og nýjunga, módernisma og
sósíalísks raunsæis.
„Kristinn var sannarlega einn
þeirra helsti andstæðingur og skrif-
aði gegn módernismanum. Hann bjó
til forvitnilega hugmynd um andmód-
ernískan módernisma sem var sósíal-
ískar nútímabókmenntir sem sóttu
ýmislegt til módernisma en höfnuðu
honum jafnframt. Kristinn gerði með
þessum skrifum tilraunir til að halda
þeim Hannesi Sigfússyni og Sigfúsi
Daðasyni innan vébanda Máls og
menningar, bæði í fagurfræðilegum
skilningi og öðrum. En þótt það fari
varla fram hjá mörgum að þeir
Hannes og Sigfús voru módernísk
skáld, áttu þeir ekki heima í ritstjórn
Birtings. Hannes var þar þegar
fyrsta heftið kom út en Sigfús vildi
aldrei ganga til liðs við Birting og eru
settar fram tilgátur um ástæðurnar í
bókinni.
Í verkinu er virkni lítilla tímarita á
borð við Birting sömuleiðis skoðuð í
gegnum öll þessi átök. Þessi tímarit
gátu svo sannarlega ruggað bátnum
og gott betur.“
Óþolandi hlutleysi
Á þessum tíma ríkti mikil harka á
milli hægri og vinstri sinnaðra afla í
íslenskri pólitík. Það er athyglisvert
hvernig Birtingsmenn stilla sér upp
gegn þessari tvíhyggju. „Þeir stilla
sér upp þarna á milli, eru í raun land-
lausir í pólitík og vinna út frá hug-
myndinni um flokkspólitískt hlut-
leysi. Þetta var á meðal þess sem fór í
taugarnar á Máli og menningu. Það
var ekki nóg með að ritstjórar Birt-
ings væru með þessa nýju róttæku
fagurfræði heldur höfnuðu þeir líka
pólitíkinni sem var við lýði. Margir
áttu erfitt með að sætta sig við það.“
Umræðan varð á stundum afar
heiftúðug eins og kemur skýrt fram í
bók Þrastar. Þarna eiga sér líka stað
átök um góða liðsmenn og Þröstur
bendir á að Birtingsmenn hafi óhikað
sótt sér liðsafla. „Þeir fengu til að
mynda Jóhann Hjálmarsson og Atla
Heimi Sveinsson með sér inn í rit-
stjórnina eftir að þeir höfðu stofnað
tímaritið Forspil ásamt Degi Sigurð-
arsyni og fleirum. Forspil var upp-
runalega stofnað til höfuðs Birtingi
en Birtingsmenn innlimuðu einfald-
lega hluta af ritstjórn þessa nýja
tímarits.
Verður að menningarstofnun
Þröstur segir að strax eftir að Birt-
ingur byrjar að koma út 1955 hafi
áhrifa tímaritsins farið að gæta, enda
létu viðbrögðin ekki á sér standa.
„Þetta má vel sjá í útgáfustarfi Al-
menna bókafélagsins, í tímaritum á
borð við Tímarit Máls og menningar,
Eimreiðinni og Forspili. Það má jafn-
vel líta á breytingar á Lesbók Morg-
unblaðsins árið 1961 sem ákveðið við-
bragð við Birtingi. Þannig að hann
kallar á fullt af viðbrögðum og hefur
mikil áhrif.“
Á þeim 14 árum sem Birtingur
kom út gekk reksturinn upp og ofan
og Þröstur segir það greinilegt að
Einar Bragi hafi sinnt mest af rit-
stjórnar- og útgáfuvinnunni. „Það
vantaði ekki efnið í ritið og þeir vildu
helst greiða fyrir það, en það var erf-
itt að halda þessu gangandi.
Reksturinn varð stöðugt þyngri þar
til að endingu þeir gefast upp 1968.
Og einmitt það gerist hjá litlu tímarit-
unum vegna þess að þau eru óháð og
hafa sjaldnast stofnanir eða peninga-
veldi á bak við sig.
En það er líka athyglisvert að um
leið og Birtingur hverfur af sviðinu er
farið að skoða hvað geti komið í stað-
inn. Og það merkilega er að það má
vel sjá gæta beinna áhrifa Birtings í
sambærilegri útgáfu að minnsta kosti
fram á níunda áratuginn þegar Ten-
ingur kom út. Það tímarit var í nánast
sama broti og það voru meðal ann-
arra tveir synir Birtingsmanna sem
stóðu að útgáfunni, þeir Gunnar
Harðarson og Guðmundur Andri
Thorsson. Hörður Ágústsson átti
raunar hlut að máli þegar tímaritið
var hannað.
Þannig að Birtingur sem átti að
vera umfram allt sjálfstæður og óháð-
ur miðill varð að endingu að einhvers
konar menningarstofnun.“
Nútíminn verður til
Og hefð móderníska tímaritsins er
enn lifandi, segir Þröstur. „Tímarit
og hópar af þessu tagi eru enn starf-
andi. Á þessari öld erum við með
dæmi á borð við Nýhil, Meðgönguljóð
og fleiri hópa og tímarit þeim tengd.“
Spurður hvað valdi því að við-
brögðin við fagurfræðilegum út-
spilum í dag séu ekki jafn heiftúðug
og þau voru á tímum Birtings segir
Þröstur að um miðja síðustu öld hafi
andrúmsloftið verið eldfimt, bæði má
tengja það stríðinu og það voru að
verða einhvers konar skil í fagur-
fræðilegum og menningarsögulegum
efnum. „Fyrirbærið nútími var að
verða til en á mismunandi tímum eftir
menningarsvæðum. Nútíminn kemur
seinna til Íslands en til dæmis Mið-
Evrópu og ég vil meina að hann berist
hingað af fullum þunga á eftir-
stríðsárunum. Í menningu og listum á
Birtingur stóran þátt í innleiðingu
nýrra viðhorfa og það gerist í slíkum
suðupotti að viðbrögðin verða með
ýmsum hætti.“
Lifum áhugaverða tíma
Þröstur leggur áherslu á að mód-
ernisminn hafi opnað íslenskan
menningarvettvang með nýjum við-
horfum og fagurfræði. „Með tilkomu
módernismans verður til meira svig-
rúm fyrir fagurfræðilegar tilraunir.
Línurnar voru þó tiltölulega skýrar,
mun skýrari en þær urðu seinna á
öldinni þegar póstmódernisminn kom
fram á sjónarsviðið. Þá urðu öll mörk
tiltölulega óljós og það ríkti fagur-
fræðileg fjölhyggja eins og það var
orðað. Allar hugmyndir voru ein-
hvern veginn jafn réttháar. Og þarna
var sannarlega enn verið að vinna
innan opna svæðisins. Þetta olli deil-
um um það bil fram að aldamótum en
svo lognuðust þær að mestu leyti út
af.
Við erum enn í þessu logni, á opnu
svæði en það hreyfist varla hár á
höfði. Það þýðir samt ekki að það sé
ekki ýmislegt að gerast í bók-
menntum og listum.
Sumir sakna átakanna og myndu
kannski vilja segja að eins gott og
opna svæðið hafi verið fyrir þróun ís-
lenskrar menningar þegar það kom
til sögunnar - gerði listina fjölbreytta
og spennandi og færði henni mikið afl
í þjóðfélaginu - sé það núna kannski
farið að vinna gegn okkur,“ segir
Þröstur og hlær við tilhugsunina.
„Við erum núna að vinna á svæði þar
sem hver og ein rödd er jafngild. Og
segja má að það sé eitt af því fagra
sem arfleið módernismans hefur skil-
að okkur. En sumum þykir vafalítið
erfitt að horfa upp á þetta. Sumir eiga
vafalítið erfitt með að fóta sig á þessu
opna svæði. Og vafalaust bíða ein-
hverjir eftir því að eitthvað gerist.
Eitthvað nýtt og spennandi. Sjálfum
finnst mér við lifa ótrúlega áhuga-
verða tíma. Við skulum vona að svæð-
ið haldist opið.“
Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Fræðimaðurinn „Markmiðið var að breyta íslenkum menningarvettvangi og menningarlífi. Að opna þennan
vettvang upp á gátt,“ segir Þröstur Helgason um Birting sem kom út á árunum 1955 til 1968 og hafði mikil áhrif.
Listin varð fjölbreytt og spennandi
Þröstur Helgason sendi nýverið frá sér bókina Opna svæðið þar sem hann rannsakar tímaritið
Birting, boðbera módernismans á Íslandi, sem hristi hressilega upp í menningarpólitík þjóðarinnar