Morgunblaðið - 29.10.2020, Síða 47

Morgunblaðið - 29.10.2020, Síða 47
ekki á hjá fisksalanum. Kol- munninn smakkaðist ljómandi vel að ekki sé minnst á snarpa langhala. Jakob vísaði alltaf til sætis við matarborð hvort heldur það var í Nökkvavoginum eða í sælureit- num í Sunnuhlíð. Þar var kyrrð og næði, Jakob ræktaði garðinn sinn, gróðursetti og hlúði að trjám. Þegar gesti bar að garði átti Jakob það til að flagga hin- um og þessum þjóðfánum allt eftir gestum eða geðþótta. Það virtist af nógu að taka. Jakob var afskaplega hægur og ljúfur í viðkynningu og með góða kímnigáfu. Hann sagði okk- ur að á námsárunum í Glasgow hefðu Skotar átt það til að kalla hann „eskimo“ en hættu því snarlega þegar hann fór að kalla þá „natives“. Honum lá ekki hátt rómur en hann gat byrst sig. Í umræðuþætti í sjónvarpi um sjávarútvegsmál á síðustu öld hvessti Jakob sig hressilega við andmælanda sem honum fannst ekki hafa nægjanlega þekkingu á málefninu. „Þú hefur aldrei mig- ið í saltan sjó,“ sagði þessi prúði embættismaður í beinni útsend- ingu með raddblæ og styrkleika sem tók af allan vafa að Jakobi þætti ekki mikið til málflutnings- ins koma. Þá var gaman að sitja fyrir framan sjónvarpið. Jakob var frá Neskaupstað, sem fyrir okkur er framandi staður. Á þeysireið um landið í sumar heimsóttum við bæinn og hugsuðum til Jakobs og viti menn, á safni bæjarins sáum við bæði hinn ljúffenga snarpa lang- hala og mynd af Jakobi frá því á unglingsárum. Hann var þar í hópi ungmenna úr bænum prýddur embættistáknum bind- indismanna. Hann hafði lítið breyst - svipurinn og brosið það sama, hann hafði bara elst með glæsibrag. Jakob var fagmaður, sérfróð- ur um síld og uppsjávarfiska og gegndi trúnaðar- og ábyrgðar- störfum bæði innanlands sem ut- an. Hann var virtur fræðimaður og hlaut fjölda heiðursviður- kenninga. Nú kveðjum við heið- ursmanninn og ljúflinginn og þökkum samfylgdina. Blessuð sé minning Jakobs Jakobssonar, mannsins sem taldi fiskana í sjónum. Lovísa Kristjánsdóttir Mímir Arnórsson Jakob Jakobsson var áhrifa- valdur í mínu lífi. Kynni okkar hófust er ég var sumarstarfs- maður á Hafrannsóknastofnun árið 1976 en Jakob var þá að- stoðarforstjóri. Undir haust kall- aði hann mig til sín og spurði hvað ég hygðist gera næsta vet- ur. Ég sagðist stefna á doktors- nám við háskólann í Aberdeen en væri ekki búinn að fá svar við umsókn minni. Jakob sagði þá að skoskur fyrrverandi kollegi sinn við síldarrannsóknir væri nú prófessor við skólann og að rétt- ast væri að hringja í hann til þess að komast að því hvað tefði afgreiðslu umsóknarinnar. Síðan hringdi hann og fékk þá skýr- ingu að beðið væri eftir umsögn frá tilteknum meðmælanda. Jak- ob sagðist þá tilbúinn til þess að gefa hinum unga námsmanni sín bestu meðmæli og hvatti til þess að hann fengi skólavist. Fáeinum dögum síðar barst bréf að utan um að ég gæti hafið nám þá um haustið. Þessi samskipti lýsa þeim eiginleikum Jakobs sem ég kynntist aftur og aftur er ég starfaði með honum síðar á lífs- leiðinni. Hann var fljótur að taka ákvarðanir, smáatriði voru ekki að þvælast fyrir honum og hann lét verkin tala. Er ég kom heim frá námi stuðlaði Jakob að því að ég var ráðinn á Hafrannsókna- stofnun og nokkrum árum síðar réð hann einnig til stofnunarinn- ar ungan stærðfræðing sem síð- ar varð konan mín. Á árum Jakobs sem forstjóri Hafrannsóknastofnunar starfaði ég mjög náið með honum og þar bar aldrei skugga á. Það var þægilegt að vinna með Jakobi og hann sýndi mér ávallt mikið traust. Þá myndaðist einnig sönn og dýrmæt vinátta milli Jakobs og Margrétar og okkar Ástu og urðum við tíðir gestir í Nökkva- voginum og í sumarbústað þeirra. Þau voru góðir gestgjafar og gaman var að heyra Jakob rifja upp ýmislegt frá síldarrann- sóknum fyrri ára og segja sögur af þekktum vísindamönnum sem hann hafði kynnst og starfað með. Jakob var ákaflega minn- ugur, fróður og sagði skemmti- lega frá. Hafrannsóknastofnun efldist mjög undir stjórn Jakobs og varð ein virtasta stofnunin við Norður-Atlantshaf á sviði haf- og fiskirannsókna. Jakob var for- stjóri á átakatímum og þurfti oft að verja tillögur stofnunarinnar gagnvart ráðamönnum og hags- munaaðilum. Hann naut hins vegar mikillar virðingar beggja hópa og með dugnaði, þolinmæði og lagni tókst honum oftast að ná í gegn því sem að var stefnt. Sem forstjóri var Jakob mikils metinn meðal samstarfsmanna og hann hafði lag á að fá þá til þess að sameinast um brýn verkefni þar sem sjálfbær nýting auðlinda Ís- landsmiða var í fyrirrúmi. Við Ásta þökkum Jakobi ára- tuga samstarf, vináttu og tryggð og sendum Margréti og fjöl- skyldu innilegar samúðarkveðj- ur. Ólafur S. Ástþórsson. Margs er að minnast þegar vinur kveður. Jakob Jakobsson var ungi, hlýlegi og skemmtilegi kennarinn í skóla þar sem starfið var í föstum skorðum. Á meðan aðrir áminntu og fundu að ef ekki var rétt að farið, leiðbeindi Jakob með hægðinni og góðu lundinni og sagði: „En elskurnar mínar, svona á að gera …“ Í miðjum febrúar minnti hann á að vorið væri að koma. Jakob unni átthögum sínum á Norðfirði og taldi til frændsemi allt að fimmta lið. Sjómennskan var honum í blóð borin. Á síld- veiðitímum var Jakob leiðtoginn, óþreytandi leiðangursstjóri í síldarleit, byggðri á djúpri þekk- ingu og innsæi, í náinni sam- vinnu við fjölda skipstjóra. Þar myndaðist oft vinátta byggð á gagnkvæmu trausti og virðingu. Löngu síðar lágu leiðir saman í gönguklúbbnum Fet fyrir fet. Samferðin einkenndist af sömu góðu lundinni. Hann fræddi og hann gladdi. Hann dró fram hæðamæli fyrir yngstu ferða- langana þegar leiðin var ströng fyrir litla fætur. Hann var ein- stakur ferðafélagi. Jakobs verð- ur ætíð minnst þegar góðs manns er getið. Fari hann vel. Kristín Bjarnadóttir. Halldór S. Magnússon. Þegar foreldrar mínir festu kaup á gömlum sumarbústað í Lækjarbotnum árið 1984 fengu þau óvæntan kaupauka – ein- staka nágranna og góða vini. Vináttan hófst kvöld eitt þegar eldri bræður mínir komu inn hálfskelkaðir og hrópuðu „fylli- byttur, fyllibyttur“! Þegar út var farið til að gá hvað gengi á mættu foreldrar mínir hjónunum úr næsta bústað með hrífur á lofti, hrópandi ókvæðisorð að nokkrum mávum sem stóðu fyrir árás á unga sem voru nýskriðnir úr hreiðrinu. Í kjölfarið fór ég að venja komur mínar yfir í Sunnuhlíð til Margrétar og Jakobs, og heim- sóknirnar urðu margar, stundum margar á dag. Þar eignaðist ég líka nýja vinkonu, Jóhönnu, elsta barnabarn þeirra. Þegar hún flutti til Ameríku með foreldrum sínum sá ég mér leik á borði og spurði Jakob hvort hann vildi ekki bara vera afi minn, ég ætti jú engan slíkan og nú væri Jó- hanna flutt! Hann samþykkti ráðahaginn með bros á vör og þar með var það frágengið. Ég átti loksins afa! Ljúfur, glaðlyndur, hæglátur húmoristi og sögumaður. Þannig minnist ég Jakobs. Hann og Margrét hafa alla tíð verið mér mikilvægar fyrirmyndir og ég var lánsöm að fá að njóta svo margra samverustunda með þeim þegar ég var að alast upp. Við systkinin vorum alltaf vel- komin og aldrei var okkur sýnt annað en einstök hlýja og virð- ing. Mikið var spjallað um fugla, mýs, blóm og tré. Samband Jakobs og Mar- grétar var einstakt og nú þegar ég hugsa til baka skýtur upp kollinum minning frá því fyrir örfáum árum þegar ég skrapp yfir í Sunnuhlíð síðdegis til að heilsa upp á þau. Þá sátu þau úti á palli, dreyptu á viskítári og nutu þess svo innilega að sitja saman í sólskininu í Sunnuhlíð. Margréti og allri fjölskyldu Jakobs votta ég mína innilegustu samúð. Eftir sitja fjölmargar minningar sem allar eru góðar. Guðríður Lára Þrastardóttir. Vísindamaður í fremstu röð í heiminum á sínu sviði. Hygginn og lipur embættismaður. Snarp- ur og rökfastur málflytjandi. Þetta eru stóru drættirnir í þeirri mynd, sem ég á af Jakob Jakobssyni. Í dag fer hann sína hinstu för. Þessir óvenjulega fjölþættu eig- inleikar heyra allt í einu sögunni til. Vegir vísindamanna og stjórn- málamanna liggja ekki alltaf saman. Stærsta rannsóknastofn- un landsins, Hafrannsóknastofn- un, var starfsvettvangur hans. Hún var kvikur hluti af þjóðlíf- inu. Af sjálfu leiddi að forstöðu- maður Hafrannsóknastofnunar var ekki aðeins í nánum tengslum við atvinnugreinina, sjómenn og útvegsmenn, heldur einnig þá sem völdust til þess að hafa forystu fyrir þeim pólitísku ákvörðunum, sem mótuðu ís- lenskan sjávarútveg inn á við og út á við. Atvikin höguðu því þannig að vegir okkar sköruðust með þess- um hætti í hartnær áratug. Það voru miklir umbrotatímar. Þá reyndi í raun og veru á hvort hugmyndir um vísindalega stjórn fiskimiðanna gætu flust úr hátíðarræðum yfir í daglegan veruleika. Enn er fast greypt í minni mitt þegar Jakob kom til mín með þau tíðindi að í vændum væru róttækustu tillögur um nið- urskurð þorskveiða, sem sést hefðu. Báðum var ljóst að við yrðum að búa okkur undir að jörðin myndi skjálfa. Ég hygg að gæfa landsins hafi þá oltið á því að í gegnum tíðina hafði byggst upp traust milli vís- indamanna Hafrannsóknastofn- unar og forystumanna útvegs- manna og sjómanna. Þeir voru reiðubúnir að bera þunga bagga og taka langtíma hagsmuni fram fyrir skammtíma. Þetta var einstakt. En það þurfti meira til en alþjóðlega við- urkenndar vísindalegar niður- stöður. Hæfileiki Jakobs Jakobs- sonar að mæla fyrir þeim á einfaldan og skýran hátt með krafti sannfæringarinnar var ómetanlegur. Á löngum starfsferli vísinda- mannsins átti Jakob samstarf við ráðherra úr öllum flokkum. Í mikilvægum viðræðum við aðrar þjóðir um fiskveiðiréttindi og yf- irráð yfir fiskimiðunum var hann haukur í horni þeirra allra. Þar munaði Ísland oft um vísindalega þekkingu hans og rökfimi. Jakob Jakobsson var léttstíg- ur og hæverskur í framgöngu. Um leið var hann einbeittur, hreinskilinn og heilsteyptur í öll- um samskiptum. Það var auðna að fá að starfa með manni, sem gæddur var þessum kostum. Á kveðjustund er gott að deila þessum góðu minningum með hlýjum kveðjum til þeirra sem næst honum stóðu og sakna nú sárast. Þorsteinn Pálsson. Jakob kom, að námi loknu, til starfa hjá Atvinnudeild Háskól- ans, síðar Hafrannsóknastofnun, og varð fljótlega einn þekktasti fiskifræðingur landsins. Jakob vann aðallega við síldarrann- sóknir og síldarleit og kom brátt á góðu samstarfi við síldveiðisjó- menn og útvegsmenn. Í löngum og oft umfangsmiklum síldarleit- arleiðöngrum var hann gjarnan í talstöðvarspjalli við síldarskip- stjóra og ræddi um síldargöngur og veiðihorfur. Þá lagði allur flotinn við hlustir og hlýddi á orð fiskifræðingsins. Jakob var aðstoðarforstjóri og síðar forstjóri Hafrannsókna- stofnunar frá 1975 til starfsloka. Á þessum tíma kom hann að ýmsum framfaramálum, svo sem heildarskipulagi stofnunarinnar og skipulagi verkefna. Setti hann á stofn veiðiráðgjafarnefnd og ýtti úr vör stofnmælingaleið- öngrum. Hann gerði sér mjög vel grein fyrir mikilvægi tölvuvæð- ingar í rannsóknum. Auk þess var hann mjög áhugasamur um að tæknivæða stofnunina. Jakob var mjög hreinskiptinn og gat verið strangur, en samt sanngjarn og góður stjórnandi. Sem forstjóri naut hann virðing- ar meðal aðila sjávarútvegsins og ráðamanna þjóðarinnar. Í góðra vina hópi var Jakob hrókur alls fagnaðar og lagði áherslu á að hans starfsfólki liði vel. Hvíl í friði. Gunnar Jónsson, Unnur Skúladóttir, Sólmundur Tr. Einarsson, Hrafnkell Eiríksson, Sveinn Sveinbjörsson, Ólafur Karvel Pálsson. Jakob er einn af þeim mönn- um sem skilur eftir sig sterk spor og farsælt framlag til þjóð- ar og vísinda hafsins. Jakob var sá maður sem auk eiginmanns og föður hefur haft mest áhrif á mig og þá lífsbraut sem ég gekk. Að hafa fengið að starfa með Jakobi er stórkostleg reynsla og ekki sjálfgefið að slík gjöf fylgi hverju lífi. Ég kynntist Jakobi fyrst er ég kom heim úr námi frá Bandaríkj- unum á níunda áratug síðustu aldar. Á þeim tíma var ég langt komin með doktorsritgerðina mína en við höfðum verið kölluð heim áður en mér tókst að ljúka og því fékk ég sæti við borð fyrir framan skrifstofuna hjá Vil- hjálmi Þorsteinssyni, en hann var einstaklega hjálpsamur og tók oft upp á sína arma flækinga sem áttu leið um, í þeim tilgangi að ljúka ritgerðinni. En það var margt sem glapti og mörg spennandi verkefni í gangi og áð- ur en ég vissi af þá var ég komin á kaf í margs konar önnur verk- efni á meðan ritgerðin sökk æ dýpra ofan í skúffu. Þá var það einn dag að Jakob kallar mig inn á skrifstofu þar sem hann tjáir mér að það sé að losna staða á stofnuninni og að ég ætti endi- lega að sækja um. Þetta sagði hann á sinn sérstaka hátt um leið og hann gaut á mig augunum undan augnabrúnunum eins og honum var einum lagið og spurði sakleysislega hvort ég væri ekki örugglega búin með doktorspróf- ið. Það kom aðeins á mína, en ég hugsað hratt og svaraði um leið að ritgerðin væri nú eiginlega al- veg búin og svo til lokið. Þetta varð til þess að ég dustaði rykið af ritgerðinni, lagði hana fram til varna og innan 9 vikna varði ég doktorsverkefnið fyrir fullum sal við Rutgers University. Mér verður oft hugsað til þessa inn- grips hjá Jakobi því mér er óneitanlega ljóst að ég var á hraðleið að verða ein af fjölmörg- um uppgjafanemendum sem fóru utan og næstum því luku prófi en ekki alveg. Við það að verða sérfræðingur á Hafrannsóknastofnuninni þá eignaðist ég yfirmann sem átti eftir að hafa mikil áhrif á það sem koma skyldi. Jakob var ein- stakur að því leyti að hann var bæði víðsýnn og tilbúinn að ræða nýjar og áður ófarnar leiðir. Þannig auðgaði hann hugmyndir mínar og annarra um áhrif hrygna, aldur og ástand þeirra og getu til að framleiða öflug af- kvæmi sem ættu meiri líkur á að komast af og mynda sterka ár- ganga. Þó að okkur þyki þessi þekking sjálfsögð í dag þá var hún nokkuð ný og ósönnuð á þeim tíma. Jakob var stjórnandi sem leyfði manni að hugsa út fyrir kassann og um leið var maður tilbúinn að vaða eld og brenni- stein fyrir hann. Ég man eftir áhrifaríkum stundum við að sitja SJÁ SÍÐU 48 MINNINGAR 47 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 29. OKTÓBER 2020 Vesturhlíð 2 | Fossvogi | s. 551 1266 | utfor@utfor.is | utfor.is VIÐ ÞJÓNUM ALLAN SÓLARHRINGINN Útfararþjónusta í yfir 70 ár Minningarkort á hjartaheill.is eða í síma 552 5744 Okkar ástkæri föðurbróðir, ÍVAR LARSEN HJARTARSON frá Ísafirði, fyrrv. starfsmaður Landssíma Íslands, lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 2 að morgni þriðjudagsins 27. október. Útförin fer fram frá Bústaðakirkju föstudaginn 6. nóvember klukkan 15. Vegna aðstæðna verða aðeins hans nánustu viðstaddir. Þóra Margrét Sigurðardóttir Sigurður Ingvar Sigurðsson Guðmunda Katrín Sigurðardóttir Jóna Hjördís Sigurðardóttir og aðrir aðstandendur Innilegar þakkir fyrir veitta samúð og hlýhug við andlát og útför elsku eiginmanns míns, föður okkar, tengdaföður, afa og langafa, FJÖLNIS BJÖRNSSONAR, Hlíðarvegi 58, Kópavogi. Sérstakar þakkir fær starfsfólk HERU heimahjúkrunar fyrir hlýhug og góða umönnun. Eva Gestsdóttir Rut Fjölnisdóttir Pétur Hjaltason Bergþóra Fjölnisdóttir Dóra Fjölnisdóttir Teitur Jónasson Valdís Fjölnisdóttir Hanna Magnúsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.