Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Side 23
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS22
lærðir sem leikir að tengja forngripi og fornleifafundi þekktu fólki og
atburðum fornaldar. Eimir enn eftir af því og er vel skiljanlegt, enda birtast
við og við dæmi, sem sýna eða benda sterklega til atburða, sem segir frá í
hinum fornu ritum. Svo grónar eru fornsögurnar í hugum fólks að menn
reyna sífellt að finna þeim sannleiksgrundvöll og samband við fundnar
fornleifar. Mun vafalaust verða svo enn um sinn.
Svo fór samt er tímar liðu að Kristján hélt lítt fram þessum hugmyndum
sem hann hafði f lestar sett fram ungur að árum í bókinni Gengið á reka,
að tengja fornminjar við nafnkenndar fornsagnahetjur. Svo fór um Bárð
Hallason og eins um beinhringinn frá Rangá, sem hann hafði viljað eigna
Hirti Hámundarsyni og jafnvel skreyttan af Gunnari sjálfum, bróður hans.
Svo var og um söguna af silfurpeningunum sem Jón Grunnvíkingur segir
frá að fundizt hafi í Kýrgili í Mosfellssveit. Kristján hafði varpað því fram
að þeir kynnu að vera úr kistum þeim með silfri, sem Aðalsteinn konungur
gaf Agli Skallagrímssyni. Hann segir reyndar í þeirri grein: „Nú erum
við orðnir svo efunargjarnir“, en hann nefnir þó að þessi sögn Jóns styðji
frásögn sögunnar um að Egill hafi átt enskt silfur og grafið í jörð á Mosfelli,
og kunni eitthvað af því að hafa fundizt þar í gili. Ýjar enda Egils saga að
því.
Lengst hélt Kristján þó í þá tilgátu sína um rómversku peningana
sem fundust á Bragðavöllum og í Hvaldal eystra, að þeir bentu til þess
að einhverjir menn úr Rómaveldi hinu forna hefðu verið hér á ferð á
fyrstu öldum tímatals okkar. En er fjórði peningurinn fannst 1967 austur
í Hvítárholti sótti á hann efi um þátt Rómverja í Íslandssögunni og vildi
hann þá ekki halda hugmynd sinni stíft fram. En margir vilja enn halda í
tilgátuna, enda er sterk löngun margra til að teygja byggð landsins lengra
aftur í tímann en ritaðar heimildir herma eða fornleifar vitna um með
nokkurri vissu, og ganga sumir nokkuð tæpt í því efni. Þegar rómverski
peningurinn fannst í Hvítárholti og ég sýndi Kristjáni hann varð hann
bæði hissa og hrifinn. Hann velti fyrir sér og hugleiddi hvernig á honum
gæti staðið, en ekki gat annað komið til greina en að hann hefði lent á
þessum stað meðan þar var búið, á landnámsöld Íslands.
Árið 1945 rannsakaði Kristján bæjarrúst á Fornu-Lá í Eyrarsveit, sem
reyndist smábýli frá lokum miðalda, og um sama leyti eldra fornbýli á
Hrunamannaafrétti, Þórarinsstaði, og birti um þessar rannsóknir greinar
í Árbók Fornleifafélagsins, en í henni hélt hann lífinu að mestu með
greinum sínum. Afrétturinn fór í eyði í Heklugosinu mikla árið 1104 þegar
Þjórsárdalur eyddist. Á Þórarinsstöðum var byggingargerðin með nokkuð