Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Blaðsíða 43
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS42
reður getur verið hvorugkyns eða karlkyns.“45 Þessum leik er kannski best
lýst með orðum Gísla Jónssonar málfræðings, en f ljótlega eftir að Hið
íslenzka reðasafn var að opnað árið 1997 birtist þáttur í dálknum „Íslenskt
mál“ þar sem fjallað er um málvenjur í tengslum við orðið reður:
reð(u)r= getnaðarlimur karlmanns (lat. penis) er hvorugkynsorð í
elstu íslensku, enda hika hvorki Johan Fritzner né Sveinbjörn Egilsson
við að fullyrða svo. Það sést glöggt, þegar talað er um „f lennt reðr“, ekki
?f lenntan. Í dónalegri vísu, sem ort var til Ellisif jar, drottningar Haralds
harðráða, sést reyndar ekki á þágufallinu reðri hvort orðið er hvorugkyns
eða karlkyns. En óhætt er að segja að orðið hafi beygst eins og rjóður
fremur en róður. Það er þó bita munur, ekki fjár. En merkingu sinni
samkvæmt hefur kyn orðsins reður breyst. Í Blöndal er reyndar ekki getið
kyns, en í „Árnapostillu“ greint karlkyns vafningalaust, eignarfall annað
tveggja reðurs eða reðrar. En málinu er ekki lokið. Íslenskan er svo auðug
að geta bæði samsett af stofni og eignarfalli. Stofn orðsins reður er reður.
Telst því allt rétt: reðurtákn, reðrartákn og reðurstákn. Aðalatriðið er
að reður (karlkyns) beygist eins og róður […].46
Nýyrðasmíði er hluti málhreinsistefnu húmanismans og á upphaf sitt í
byrjun 16. aldar hér á landi. Arngrímur Jónsson fjallaði til að mynda um
hreinleika tungunnar og hvatti Íslendinga til að leita „… sér fyrirmynda í
auðlegð og snilld móðurmáls síns, sem á nóg af henni.“47 Og svo sannarlega
á það við um reðinn. Í Samheitaorðabókinni er hægt að nota eftirfarandi
orð um reð: „getnaðarlimur, besefi, brúsi, böllur, drengur, sá eineygði,
félagi, f lanni, fugl, fyðill, gráni, göndull, hrókur, hörund, jarl, kompán,
leyndarlimur, limur, lókur, lunti, möndull, pissi, ponni, riddari, sin, skaufi,
svökull, sköndull, snípur, snudda, stíll, sverð, tilli, tippi, tittlingur, títa,
trýtill, typpi, tytja, völsi.“48 Orðtakalistinn er þar með hluti af menntastefnu
reðasafnsins, sem hefur það að markmiði að fræða gesti safnsins um hvernig
reðrar eiga sér ríkari vitund og táknrænar myndir í íslenskri menningu en
opinberlega er haldið fram á sýningum safnastofnana, svo dæmi sé tekið.
Orðtakalistinn er eftirlíking af starfi fræðimanns, en listinn hefur yfir
sér fræðilegt yfirbragð félags- og hugvísindamannsins. Fræðimaðurinn
hefur „fundið“ þessar áður óþekktu heimildir og „bjargað“ þar menningar-
verðmætum frá glötun. Þó svo að um ljósritaðan einblöðung sé að ræða á
45 Viðtal höfundar við Sigurð Hjartarson, 2009.
46 Gísli Jónsson 1997. Leturbreyting í frumtexta.
47 Sjá Jóhannes B. Sigtryggsson 2003 og Gottskálk Þór Jensson 2003.
48 Eiríkur Brynjólfsson 1986, bls. 27.