Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Page 55
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS54
Bjarneyjum og Höskuldsey, hafi verið skipt milli svæða og gæti sú
skipting vel verið frá fornu fari sé litið til þess að Múlasveitungar réru frá
Oddbjarnarskeri svo staðfest sé frá 16. öld. Frá Bjarneyjum, sem er forn
verstöð og getið bæði í Laxdælu og Njáls sögu, réru mest menn úr vestari
hluta Dalasýslu og austustu hreppum Barðastrandarsýslu.21 Frá Höskuldsey,
sem getið er í Eyrbyggja sögu, réru einkum Helgfellingar, Skógstrendingar
og Fellstrendingar úr Dalasýslu og síðar menn úr Stykkishólmi.22
Sem fyrr segir tilheyrði Oddbjarnarsker, sennilega frá ómunatíð,
Flateyjarlöndum. Seint á 18. öld eða um 1800 færðist það hins vegar
undir Hergilseyjarlönd í tíð Eggerts Ólafssonar betri, sem svo er sagður
hafa verið kallaður af alþýðu manna vegna framtakssemi og góðverka, til
aðgreiningar frá alnafna sínum og samtímamanni, Eggerti Ólafssyni frá
Svefneyjum, náttúrufræðingi og höfundi Ferðabókarinnar.23 Eggert betri,
sem þá bjó í Sauðeyjum, vildi stækka við sig og fékk konungsleyfi til að
stofna nýbýli í Hergilsey árið 1783. Hann átti orðið stóran hlut í Flatey og
varð því að skipta upp Flateyjarlöndum við þessar breytingar. Gekk á ýmsu
í því ferli.24 Fyrst í skiptunum fylgdu Stykkiseyjar Hergilseyjarlöndum en
síðar var Stykkiseyjum skipt fyrir Oddbjarnarsker og áttu þá Flateyingar
eftir það selför (selveiði) í Oddbjarnarsker annað hvert ár en Hergilseyingar
gras, varp og vertolla.25
Vertíðir og verbúðalíf
Elsta heimildin sem gefur innsýn í verbúðalíf í Skeri er Jarðabók Árna
Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þá var róið á vorvertíð: „Vertíð
byrjar almennilegast um páskatíma til Þingmaríumessu,“ sem er 2. júlí,
og var vertíðin því um þrír mánuðir. Þetta ár eru taldar upp 27 búðir í
Oddbjarnarskeri og 33 formenn sem gefur til kynna að í nokkrum búðum
séu tvær áhafnir. Staða formanns og stærð báts kemur einnig fram, til dæmis:
„Búð Gunnlaugs í Svefneyjum. Vermannabúð [...] Gunnlaugur Ólafsson,
tollversmaður, á 5 manna fari.“26 Þetta ár, 1703, er þess getið að skipin séu af
fimm stærðum: eitt þriggja manna far, átta fjögurra manna för, fjórtán fimm
manna för (bæði stór og lítil), níu sexæringar og einn áttæringur (lítill), sem
21 Lúðvík Kristjánsson 1982, bls. 51.
22 Sama heimild, bls. 50.
23 Játvarður J. Júlíusson 1979, bls. 154; Sveinbjörn Guðmundsson 1952, bls. 8.
24 Játvarður J. Júlíusson 1979, bls. 59-61; Sveinbjörn Guðmundsson 1952, bls. 11–15.
25 Pétur Jónsson 1940, bls. 1-2; Eysteinn G. Gíslason 1989, bls. 199.
26 Árni Magnússon 1938, bls. 247-249.